Kjósum um velferðarmál!

439

Það hefur vakið furðu mína að undanförnu að fylgjast með fréttaflutningi fjölmiðla af ályktunum stjórnmálaflokka. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir skömmu var samþykkt tæplega sjö blaðsíðna ályktun um velferðarmál. Þetta var lengsta ályktun þessa landsfundar og augljóst þeim sem þar sátu að málefni hennar snertu marga. Samt hafa fjölmiðlar ekki sýnt þessum fjölmörgu tillögum nokkurn áhuga. Velferðarmál eru ein ástæða þess að ég er í pólitík og ég tel stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki til fyrirmyndar að öllu leiti nema því hversu hljótt hún hefur farið. Hér eru tíu atriði úr ályktuninni sem mér þykir vert að vekja athygli á en hana má lesa í heild sinni á http://www.xd.is/landsfundur-2013/samthykktar-alyktanir/

Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að hverfa af braut þeirrar gengdarlausu niðurskurðarstefnu sem heilbrigðisþjónustan hefur orðið að þola um árabil. Leggja verður ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar til endurskipulagningar og uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu í þágu sjúklinga og með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta.

Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að bæta aðstöðu Landspítalans. Landsfundur telur að fyrirliggjandi hugmyndir um nýbyggingu þarfnist endurskoðunar. Höfuðáherslu ber að leggja á rekstur heilbrigðisstofnana um land allt.

  • Stórbæta þarf tannheilsu barna á Íslandi með auknu reglulegu eftirliti, fræðslu og niðurgreiðslu tannlæknaþjónustu. Samið verði við tannlækna um að veita þessa þjónustu.
  • Afnema skal tekjutengingu öryrkja við maka.
  • Mikilvægt er að öryrkjar séu ekki hnepptir í fátækragildru vegna skerðingar á bótum vegna tilfallandi tekna.
  • Aldraðir sem eru á dvalarheimilum, haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Sú kjaraskerðing, sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009, verði afturkölluð.
  • Að Tryggingarstofnun hætti að skerða ellilífeyri vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum krónu fyrir krónu.
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill virða og treysta hlutverk fjölskyldunnar. Stöðugar fjárhagsáhyggjur eru ógn sem nú steðjar að mörgum fjölskyldum. Alþingi verður að skilgreina farveg til úrlausnar á fjárhagsvanda venjulegs fólks svo að fjölskyldur í vanda geti greitt úr honum.
  • Auðvelda þarf ungu fólki sín fyrstu kaup á húsnæði. Leiga verði valkostur á íbúðamarkaði.
  • Foreldrar þurfa að eiga þess kost að geta samið svo að lögheimili barns verði hjá þeim báðum. Hagsmunir barnsins skulu ávallt vera í fyrirrúmi og þess gætt að rödd barnsins hafi vægi í forsjármálum. Nauðsynlegt er að deilur foreldra um málefni barna fái hraða og vandaða málsmeðferð. Setja þarf reglur um flýtimeðferð með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Þetta er aðeins lítið brot af ályktuninni sem samþykkt var um velferðarmál. Það er ljóst mörg verkefni bíða næstu ríkisstjórnar. En til að geta kallað sig „velferðarstjórn“ þarf þekkingu og skynsama leið til að fjármagna velferðarþjónustu að norrænni fyrirmynd. Ég vona að flestir geti nú samþykkt að skattaleiðin er ekki vænleg til nokkurs árangurs. Aukinn hagvöxtur er forsenda bættra lífsgæða á Íslandi. Við þurfum að róa að því öllum árum að auka framleiðni og útflutning. Víða er starfsfólk undir svo miklu álagi vegna uppsagna og hagræðingar að meira verður ekki á það lagt. Þess vegna er brýnt að auka möguleika fyrirtækja til vaxtar með stöðugri efnahagsstjórn og skattalækkunum. Stjórnendur geta þá gert raunhæfar áætlanir og haft fjárhagslegt svigrúm til þess að horfa til nýrra verkefna, fjölga ráðningum, endurnýja tækjakost og innleiða tækninýjungar. Einnig þarf að hefjast handa á ný við virkjanagerð og breyta ónýttri orku í þjóðartekjur. Þannig eflist atvinnulíf, atvinnuleysi dregst saman og hagvöxtur eykst. Og þannig fjármögnum við velferð okkar allra.

Bryndís Loftsdóttir
Höfundur er bóksali og skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi.