Kópavogshöfn og ferðaþjónusta

457

Kópavogshöfn hefur möguleika á að verða vinsæll staður ferðamanna sem vilja fara í siglingu út á Faxaflóa.

Það sem er einstakt við Kópavogshöfn er að þar er næstum því alltaf logn, ég er búinn að sigla út frá Kópavogi síðustu 18 ár og það er ótrúlegt hvað höfnin er skjólgóð, þegar það er t.d austan fræsingur í Reykjavíkurhöfn svo ég tali nú ekki um suðaustan þá er blankalogn í Kópavogshöfn.
Og þá skiptir líka máli að ef ætluninn er að fara í hvala eða fuglaskoðun, þá er ekki bara styttra á þau hefðbundnu mið frá Kópavogi heldur er helmingur leiðarinnar í vari fyrir öllum veðrum með Álftanesið og hinn sögufræga stað Bessastaði á bakborða og Seltjarnanesið og Gróttu í allri sinni dýrð á stjórnborða.

Siglingin út Skerjafjörðinn er upplifun útaf fyrir sig, þar eru fjölmörg sker sem einhvernveginn eru aldrei eins þótt maður hafi séð þau hundrað sinnum, stundum eru þau þétt setin Skörfum sem baða út vængjunum til að þurrka sig og hafa ekki fyrir því að fælast þótt maður fari nálægt og á næsta skeri liggja kannski makindalegir selir sem virðast njóta þess að láta horfa á sig.

Á venjulegum degi má búast við að sjá um 6 til 10 tegundir fugla á þessari leið og rétt fyrir utan Gróttu er oftast ágæt veiði ef menn vilja renna fyrir þorsk, ýsu eða steinbít.
Eftir svona siglingu væri síðan huggulegt að setjast niður á einn af þeim fjölmörgu veitingastöðum sem munu rísa við höfnina og horfa á sólarlagið bera við Snæfellsjökul sem er eins og allir vita hvergi fegurri að sjá en einmitt frá Kópavogi.

Nú ef svo ef einhver vill endilega bregða sér til Reykjavíkur þá væri upplagt að fá sér göngu eða hjólatúr yfir Fossvoginn eftir fallegri brú sem þar mun rísa.