Kópavogur er enginn svefnbær

623

Viðtal við Sigurð Sigurbjörnsson varaformann stjórnar Markaðsstofu Kópavogs.

Kópavogur er sjálfbær hvað varðar fjölda framboðinna starfa í bænum, hvort sem litið sé til fjölda launþega í Kópavogi eða á hlutfall veltu fyrirtækja í Kópavogi af heildarumsvifum á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Þetta sýna tölur sem Markaðsstofa Kópavogs hefur tekið saman. „Við höfum oft þurft að hlusta á fullyrðingar um að bærinn okkar sé svefnbær þar sem íbúar þurfi að sækja vinnu og þjónustu í önnur sveitarfélög. Þessar fullyrðingar eru rangar og haldið fram af þeim sem ekki þekkja til mála í Kópavogi,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varaformaður stjórnar Markaðsstofu Kópavogs. Hann bendir á að um síðustu áramót hafi skráðir Íslendingar verið 366 þúsund talsins skv. Tölum Hagstofu Íslands og Kópavogsbúar verið 37 þúsund, eða rúmlega 10% landsmanna. Hlutfallið er aftur á móti hærra þegar kemur að fyrirtækjum en að sögn Sigurðar eru 10,8% skráðra rekstraraðila með lögheimili í Kópavogi og launþegar í Kópavogi eru 10,3% af heildarfjölda skráðra launþega á á landinu. „Heildarvelta fyrirtækja í Kópavogi er um 12% af heildarumsvifum á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Það er því óhætt að fullyrða að Kópavogur sé sjálfbær hvað varðar fjölda framboðinna starfa í bænum,“ segir Sigurður.

Aðspurður segir Sigurður að upplýsingarnar komi honum ekki á óvart þar sem atvinnulíf í bænum sé mjög öflugt og fyrirtæki og stofnanir hafi verið að flytja til bæjarins síðustu árin. „Í dag eru margir sterkir verslunar- og þjónustukjarnar í bæjarfélaginu og segja má að þjónustusvæðið frá Smiðjuvegi niður Dalveginn og yfir í Smárann og Lindir sé miðpunktur höfuðborgarsvæðisins, með Smáralindina sem þungamiðju. Það er einnig mjög jákvætt að rekstraraðilar eru staðsettir um allan Kópavog og fjölbreytt þjónusta nær því til allra hverfa bæjarins. Í Kópavogi eru starfandi fyrirtæki í öllum helstu greinum verslunar og þjónustu, auk framleiðslu- og tækni, allt frá stórum og rótgrónum aðilum til spennandi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja,“ segir Sigurður og bætir við að sérstaklega sé það ánægjulegt að sjá stórfyrirtæki og opinberar stofnanir velja Kópavog sem staðsetningu fyrir höfuðstöðvar sínar. „Við sem hér búum vitum að Kópavogur er bær sem er fullur af lífi og spennandi tækifærum,“ segir Sigurður að lokum.