„Kópavogur greiðir upp lánin frá hruninu“

412

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2019 undirstrikar sterka fjárhagsstöðu bæjarins. Íbúar í Kópavogi hafa notið bættrar afkomu í gegnum aukna þjónustu og ýmsar framkvæmdir, stórar og smáar. Sjöunda árið í röð lækkar fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði, fer úr 0,23 % í 0,22%. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,60 í 1,50% auk þess sem vatns- og holræsagjöld lækka umtalsvert. Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar verða um 550 milljónir króna árið 2019 samkvæmt áætluninni. Skuldahlutfall heldur áfram að lækka og verður 119% í árslok 2019 en það hefur lækkað úr 175% frá árinu 2014. Niðurgreiðsla skulda heldur áfram og lýkur greiðslum á lánum sem tekin voru í hruninu. Kópavogsbær neyddist til að endurfjármagna sig í hruninu með mjög ósanngjörnum lánum. Uppgreiðsla þeirra á næsta ári þýðir að greiðslubyrði léttist til muna. Fjárhagsstaða bæjarins styrkist því jafnt og þétt.

Áhersla á mennta- og velferðarmál

Segja má að fjárhagsáætlunin endurspegli áherslu á mennta- og velferðarmál í Kópavogsbæ. Þar má nefna að aukin áhersla verður á fyrirbyggjandi starfsemi og í því skyni lagt aukið fjármagn í fræðslu og námskeið fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri ásamt fræðslu fyrir foreldra þeirra og þá sérstaklega beint sjónum að snemmtækri íhlutun og þar með stuðningi, til dæmis vegna kvíða barna. Sálfræðiþjónusta verður aukin í skólum og heilsuefling starfsmanna efld.
Gert er ráð fyrir verulegri aukningu í málefni fatlaðra vegna notendastýrðrar aðstoðar, svo og vegna aukinnar þjónustu við fatlaða einstaklinga í sérhæfðum búsetuúrræðum. Jafnframt þessu er gert ráð fyrir fjármagni vegna húsnæðis fyrir fólk með fjölþættan vanda og hefur orðið hornreka í samfélaginu. Þá verður áhersla á lýðheilsumál og aukin og markvissari vinna við að treysta tengsl milli íbúa Kópavogs og starfsemi Kópavogsbæjar.

Fjárfest fyrir 3,7 milljarða

Alls verður fjárfest fyrir 3,7 milljarða í Kópavogi 2019. Meðal verkefna sem ráðist verður í er bygging húsnæðis fyrir Skólahljómsveit Kópavogs sem reist verður við Álfhólsskóla og stefnt er á að ljúka í árslok 2019. Þá verður hafist handa við byggingu sambyggðs grunn- og leikskóla við Skólagerði á Kársnesi, 150 milljónum króna er varið í þá byggingu á næsta ári en alls 2,1 milljörðum króna á næstu fjórum árum. Áfram verður sinnt verkefninu skemmtilegri grunnskóla- og leikskólalóðir og 125 milljónum króna varið í viðhald á Kópavogsskóla. Þá er áhersla á áframhaldandi fjölgun félagslegra íbúða. Í tengslum við þéttingarverkefni á Kársnesi og í Smáranum verður ráðist í umtalsverðar gatnaframkvæmdir, alls fyrir um 600 milljónir króna. Ráðist verður í endurbætur og viðhald í menningarhúsum Kópavogs. Loks má þess geta að lokið verður við endurnýjun Kópavogsvallar. Þetta er fjórða árið í röð sem fjárhagsáætlunin unnin í samstarfi allra flokka í bæjarstjórn sem ég tel einsdæmi hvað varðar stærri sveitarfélög landsins. Megin niðurstaðan er sú að rekstrarhæfni Kaupavogs er alltaf að styrkjast sem gerir okkur kleift að bæta stöðugt þjónustu við íbúa bæjarins um leið og stöðug uppbygging á sér stað.