Kosningaaldur niður í 12 ára

390

Árið 2006 var kjörsókn í Kópavogi 77 prósent. Árið 2010 var kjörsóknin 69 prósent og árið 2014 var hún komin niður í 61 prósent. Fyrir ungan frambjóðanda er því kannski ekki nema von að margir lýsi yfir áhyggjum af dræmri kjörsókn hjá minni kynslóð þar sem kjörsóknin er verst. Það heyrir til undantekninga að áhyggjunum sé ekki fylgt eftir með spurningu í gamansömum tón, hvort við séum ekki bara heima í tölvunni. Ekkert sem jafnast á við góðan„kynslóðabanter“.

En það er ekki bundið við yngstu kynslóðina að klára matarinnkaupin og versla fötin á netinu, borga reikningana í símanum og lesa fréttirnar í rauntíma. Við gerum þetta öll. Tæknin hefur gert heiminn minni. Við lifum hraðar, og skilvirknin er meiri. Við tökum ljósmyndir en erum laus við vesenið sem fylgir framkölluninni og tónlistin lifir góðu lífi þrátt fyrir að til sé að verða kynslóð sem þurfti aldrei að hafa áhyggjur af rispunum í geisladisknum.

Dræm kjörsókn í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum um allan heim er ákall um nýja nálgun og meiri skilvirkni í stjórnsýslunni. Það er rauði þráðurinn í framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi að verða við þessari kröfu.

Sem dæmi um snjallari og nútímalegri stjórnsýslu er verkefnið Okkar Kópavogur sem fór af stað á kjörtímabilinu sem er að líða. Með tilkomu þessa snjalla vettvangs geta bæjarbúar núna komið hugmyndum sínum á framfæri og aðrir kosið um þær heima í stofu. Ferlið er einfalt og þægilegt og var þátttökuhlutfallið í Kópavogi það hæsta af öllum sveitarfélögum landsins í lýðræðisverkefnum af þessum toga þegar kosningin fór fram í annað sinn fyrr á þessu ári. Hugmyndirnar sem hafa hlotið brautargengi eru milli himins og jarðar, frá aparólu á Rútstúni yfir í öryggismyndavélar í Lindahverfi.

Á næsta kjörtímabili viljum við taka verkefnið skrefinu lengra. Við ætlum að lækka þátttökualdurinn niður í 12 ára aldur og auka framlög til verkefnisins þannig að þau verða samtals 500 milljónir króna á kjörtímabilinu. Yngstu kjósendur bæjarins, 12 ára til 16 ára kjósa um sérstök verkefni, en 16 ára og eldri kjósa áfram með sama hætti og áður.

Rafvæðing stjórnsýslunnar er óhjákvæmileg þróun en þrátt fyrir það verðum við að veita áfram fyrsta flokks þjónustu við bæjarbúa sem búa ekki yfir færni á tölvur. Einnig ætlum við að fara af stað með sérstakt fræðsluverkefni fyrir eldri borgara í tölvum og tækni.

Það er snjallt að búa í Kópavogi.

Andri Steinn Hilmarson
Háskólanemi og blaðamaður

Skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi