Nýjar leiðir í húsnæðismálum í Kópavogi

529

Stefnumarkandi leiðir í húsnæðismálum í Kópavogi voru kynntar blaðamannafundi í bæjarstjórnarsal Kópavogs í morgun. Ármann Kr. Ólafsson kynnti tillögur þverpólitísks starfshóps í húsnæðismálum sem hefur verið starfandi í rúmt ár. Starfshópnum var falið að greina stöðu á húsnæðismarkaði og vann í framhaldi tillögur að nýjum leiðum í húsnæðismálum í Kópavogi. Starfshópinn skipa Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs sem jafnframt er formaður, Margrét Friðriksdóttir Sjálfstæðisflokki, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Bjartri framtíð, Pétur Hrafn Sigurðsson Samfylkunni, Ólafur Þór Gunnarsson Vinstri grænum og Kristinn Dagur Gissurarson, Framsóknarflokknum.
Markmið tillagna hópsins er að ýta undir virkari leigumarkað hér á landi, byggingu minni og ódýrari íbúða og tryggja skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þurfa að sækja slíka þjónustu til sveitarfélagsins.

„Ég er ánægður með vinnu starfshópsins og tillögur. Tillögurnar eru raunhæfar og skynsamlegar, í þeim er leitast við að koma á móts við þarfir þeirra sem hafa átt erfitt með að kaupa eða leigja húsnæði, meðal annars vegna lítils framboðs,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að Kópavogsbær beiti sér fyrir byggingu á litlum og ódýrum íbúðum og stuðli að lausnum fyrir þá sem eru að kaupa sitt fyrsta húsnæði með 90% lánveitingu í samvinnu við byggingarverktaka og/eða fjármálafyrirtæki, Kópavogsbær bjóði upp á íbúðir til leigu með kauprétti, sem myndi vara í fimm ár og leigjendum í félagslega kerfinu standi til boða að kaupa húsnæði sem þeim hefur verið úthlutað.

Í skýrslu starfshópsins (PDF skjal) er farið yfir stöðuna á húsnæðismarkaði, bæði almennum markaði og félagslega kerfinu, lagðar til stefnumarkandi leiðir og kynnt útfærsla á þeim.

Nánar um tillögur starfshópsins:

Samantekt á niðurstöðum sem varða félagslega kerfið

Uppbygging auðvelduð með lagabreytingu: Mælst er til þess að leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaga verði undanþegið ákvæðum 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, með sama hætti og leiguskuldbindingar frá ríkissjóði. Með fyrrgreindu ákvæði er sveitarfélögum, sem eru með yfir 150% skuldahlutfall, settar skorður við frekari skuldsetningu. Ákvæðið hamlar því að Kópavogsbær geti farið í uppbyggingu á félagslegu húsnæði þar sem bænum er almennt óheimilt á grundvelli laganna að skuldsetja sig frekar.

Félagslegar íbúðir til kaups: Leigjendum í félagslega íbúðakerfinu bjóðist að kaupa húsnæði sem því hefur verið úthlutað á hagstæðum kjörum fari tekjur þess yfir viðmiðunarmörk. Rétturinn til að vera í félagslegu húsnæði er bundinn við tekjur fólks og samkvæmt gildandi reglum ber að segja því upp húsnæði sé farið yfir ákveðin tekjumörk. Í stað þess að grípa til uppsagna verður leigjendum boðið að kaupa húsnæðið með 5% útborgun eigin fjár, 80% láni hjá fjármálafyrirtæki og 15% verðtryggðu, vaxtalausu viðbótarláni frá Kópavogsbæ.

Þrepaskipt leiga: Kópavogsbær setji reglur um þrepaskipta leigu í stað þess að segja fólki upp leigu ef tekjur þess fara yfir viðmiðunarmörk. Eftir því sem tekjur fólks færu hækkandi þeim mun minni yrði hinn félagslegi stuðningur og þá í formi hækkandi leigu.

Samantekt á niðurstöðum sem snúa að fjölgun íbúðakosta

Fjölgun félagslegra íbúða: Kópavogsbær gæti staðið að byggingu á félagslegum íbúðum þar sem markmiðið yrði að byggja vel hannaðar og litlar íbúðir, þar sem fermetrafjöldi væri vel nýttur. Slíkt myndi skila sér í lægri byggingarkostnaði og þar með lægri leigu.

Fyrstu íbúðakaup: Kópavogbær beiti sér fyrir byggingu á litlum og ódýrum íbúðum og stuðli að lausnum fyrir þá sem eru að kaupa sitt fyrsta húsnæði með 90% lánveitingu í samvinnu við byggingarverktaka og/eða fjármálafyrirtæki.

Fjölgun íbúða á leigumarkaði: Kópavogbær leiti eftir samstarfi við lóðarhafa/leigufélag á almennum markaði til að bjóða upp á minni og ódýrari íbúðir á leigumarkaði.

Kaupleiguíbúðir og eignaríbúðir: Kópavogsbær bjóði upp á íbúðir til leigu með kauprétti, sem myndi vara í 5 ár. Hluti leigunnar gæti þannig nýst upp í kaup á eigninni ef kaupréttur væri nýttur innan þess tíma. Þá stæði einnig til boða að fólk keypti búseturétt í íbúð með 5-10% eigin fjár framlagi og leigði síðan íbúðina af Kópavogsbæ.

Birt á vef Kópavogsbæjar www.kopavogur.is 9.10.2015 13:27