Óbærilegir ofurskattar

400

Ísland hefur sett Evrópumet í skattahækkunum á kjörtímabilinu.

Ofurskattlagning á heimilin í landinu er orðinn óbærileg.

Mikilvægasta verkefnið sem takast þarf á við eftir kosningar er að auka ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka hefur í stefnuskrá sinni að að lækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga.

Að baki tillögum Sjálfstæðisflokksins liggur sú sannfæring að skuldavandi heimilanna verði ekki leystur nema með skilvirkum úrræðum samhliða uppbyggingu atvinnulífsins. Því miður virðist það vera svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini stjórnmálaflokkurinn sem áttar sig á að allar þær aðgerðir sem gripið verður til og miða að því að leiðrétta og styrkja stöðu heimilanna verða að engu ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Markmiðið er að fjölga tækifærum og störfum og hækka launin. Þetta og lækkun skatta er forsenda þess að kaupmáttur heimilanna aukist.

Staðgreiðsluhlutall af tekjum er frá 37-46%. Til viðbótar því er fólk að greiða alls kyns vöruskatta og þess vegna fer meira en helmingur af tekjum fólks í greiðslu skatta. Við viljum einfalda skattkerfið og afnema þrepin í átt að lægsta þrepinu. Þannig hjálpum við heimilunum.
Nú verða kjósendur að fara að átta sig á að þetta er eina raunverulega leiðin til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og það munar um það.

Það þarf að leiðrétta alls kyns jaðarskatta til þess að hægt sé að vinna sig út úr skuldum án þess að greiða 60-70% skatt af laununum. Það er afskaplega letjandi og óréttlátt að geta ekki unnið sig út úr skuldum ef aðstæður leyfa það að öðru leyti.

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka vöruverð, það munar um lægri virðisaukaskatt og lægri tolla og vörugjöld því að með lægri sköttum lækkar vöruverð svo um munar. Best væri að afnema vörugjöldin. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn lækka bensínverð með lægri eldsneytisgjöldum, það skilar sér til heimilanna og lækkar höfuðstól lána.

Við Sjálfstæðismenn erum sannfærðir um að lægri skattar skili auknum tekjum hjá ríkissjóði. Einfalt og sanngjarnt skattkerfi með hóflegum sköttum er besta leiðin til að auka umsvifin í samfélaginu og aukin umsvif munu skila sér í auknum tekjum í ríkissjóð.

Byrjum á að vinda ofan af tæplega 200 skattahækkunum síðustu ríkisstjórnar. Svo mættum við halda áfram þar til hið opinbera tekur ekki meira en þriðjung af landsframleiðslu til sín.

Það á að vera markmið næsta tímabils og kæmi öllum til góða, besta kjarabótin, annars heldur flóttinn mikli áfram. Gleymum ekki hvernig fólk hefur flúið í umvörpum úr landi síðustu árin. Menntað fólk í heilbrigðisgeira, tæknigeira, menntageiranum.

Ef fólk vill hafa meira á milli handanna þegar það fær útborgað, ætti það að kjósa XD.