Ræða formanns Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi í Kópavogi

396

Kæru samherjar!

Velkomin til flokksráðsfundar hér í Kópavogi.
Stutt er liðið frá því við komum síðast saman, á landsfundi í nóvember síðastliðnum. Þar voru gerðar gagngera breytingar á skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins og eru þær breytingar ástæða þess að við hittumst nú við þetta tækifæri. Í reglunum eru meðal annars þau nýmæli að tekið er upp embætti 2. varaformanns flokksins sem hér eftir verður kosið til á landsfundi, sem og kosning stjórna málefnanefnda.

Við væntum öll mikils af þeim sem veljast til forystu í flokknum okkar og það er því gleðiefni að sjá að margir öflugir einstaklingar vilja gefa kost á sér í forystusveitina.

Ágætu fundarmenn,
Það hefur aldrei áður reynt með viðlíka hætti á Sjálfstæðisflokkinn og gert hefur undanfarin ár. Síðustu kosningar voru okkur þær erfiðustu í sögunni.

Þetta hefur að sjálfsögðu reynt á þolinmæði, þrek og samstöðu innan flokksins.
En með þolinmæði, þrek og samstöðu að vopni höfum við snúið taflinu við. Flokkurinn okkar nýtur mests stuðnings allra og hefur meira traust en stjórnarflokkarnir samanlagt.

Þessi samstaða, grundvölluð á sameiginlegum hugsjónum, gerir Sjálfstæðisflokkinn að því afli sem hann hefur ávallt verið í íslensku þjóðlífi og verður áfram um langa framtíð.

Við vitum öll að enn er mikið verk að vinna.
Og við vitum að baráttan framundan verður hörð.
Kosningar bíða okkar í síðasta lagi eftir rúmt ár.

Það er mikill órói á sviði stjórnmálanna um þessar mundir. Þetta birtist okkur víða – ekki bara í fjölda óákveðinna kjósenda heldur einnig í nýjum stjórnmálaflokkum og samtökum. Eins hafa nokkrir þingmenn yfirgefið samherja sína og skipt um flokk.

Stjórnarmeirihlutinn byggir í dag á því að einn stjórnarandstæðingurinn úr fjögurra manna þingflokki gekk til liðs við ríkisstjórnina. Eftir það er enginn þingmaður í Borgarahreyfingunni, því hinir þrír höfðu áður flúið þennan eina.

Nýjustu kannanir sýna að ef mynda á ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins stefnir í upplausn við stjórn landsmálanna. Sú ríkisstjórn verður ekki mynduð með færri en fjórum flokkum.

Við þessar aðstæður er brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn sýni það afdráttarlaust að hann getur einn flokka myndað raunverulega kjölfestu í íslenskum stjórnmálum.

Kæru félagar,

Ég heyri því fleygt af og til að til að eflast enn frekar þurfi Sjálfstæðisflokkurinn að gera betur upp við liðna tíma. Fyrr sé ekki hægt að ýta úr vör til móts við framtíðina.

Ég tek ábendingum um þetta alvarlega. Það er hins vegar bjargföst skoðun mín að nú sé kominn tími til þess að líta fram á veginn. Við megum ekki við því – þjóðin má ekki við því – að festast í fortíðinni – í uppgjörinu.

Við megum engan tíma missa. Okkar bíða verkefni á nær öllum sviðum þjóðlífsins.

Landsdómsmálið er örvæntingarfyllsta tilraun andstæðinga okkar til að gera þjóðina og flokkinn okkar upptekinn af fortíðinni. Þetta var aldrei neitt annað en pólitísk málshöfðun.

Nú er tíminn til að brjóta af sér hlekki fortíðar og stíga óhikað og markvisst fram með bjartsýni og trú á framtíð lands og þjóðar í brjósti.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur leitt nýtt framfaraskeið þar sem byggt verður á átaki í atvinnumálum og sókn til framfara á öllum sviðum.
Nú þarf að sýna djörfung og kjark, skerpa stefnuna og hika hvergi,
Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn !

Góðir Sjálfstæðismenn,
Ég er einatt spurður að því um hvað verði kosið að ári.
Atvinnumál eru þar efst á blaði. Atvinna er stærsta hagsmunamál heimilanna.

Um það verður kosið.

Kosningarnar munu að sjálfsögðu einnig snúast um val á milli
– viðvarandi stjórnarkreppu og glundroða á vinstri vængnum
– eða markvissrar uppbyggingar á grundvelli frjálslyndrar framfarastefnu.
Kjölfestu eða karp.

Um það verður kosið.

Kæru vinir,
Greiðslu- og skuldastaða þúsunda heimila er grafalvarleg. Við lausn á þeim vanda á Sjálfstæðisflokkurinn að tala fyrir raunhæfum kostum sem gagnast þeim sem á þurfa að halda.

Ég hef lagt áherslu á að gefa engin loforð sem ekki er hægt að standa við. Fyrir þá sem hafa þurft að taka á sig talsverða lífskjaraskerðingu getur verið gott að heyra einhvern fullyrða að lausnin sé nærri og að hún kosti engan neitt. En veruleikinn er annar.

Engum ætti að dyljast sú verðbólga sem hlaupið hefur í pólitíkina undanfarið. Ýmsir lukkuriddarar hafa komið fram og tjáð sig um “ástandið” og leiðir út úr því.

Hafa sumir jafnvel beitt óvandaðri leiðum til að draga athygli að málstað sínum en ég hygg að hafi lengi sést. Skammtímalausnir og yfirboð eru vopn nýrra framboða, sem tala í fúlustu alvöru fyrir peningaprentun til að ráða bug á skuldavanda heimilanna. Þær leiðir hafa verið reyndar áður í sögunni og fæstum hugsandi mönnum hafa þótt þær tilraunir til eftirbreytni.

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að slást í för með lukkuriddurum.

Hér er á hinn bóginn enn grafalvarleg staða hjá þúsundum heimila sem ekki ná endum saman. Þann vanda verður að ráðast á með mun markvissari hætti en gert hefur verið. Við getum ekki búið við það ár eftir ár að beðið sé eftir úrræðum stjórnvalda.

Það verður reka endahnútinn á skulda – og greiðsluvanda heimilanna. Af því mun alltaf hljótast kostnaður, en sé rétt á haldið, verður þjóðhagslegur ávinningur af þeim aðgerðum mun meiri en tilkostnaðurinn.

Fyrir mér er augljóst að ganga þarf lengra í að fella niður skuldir, sérstaklega á yfirveðsettum heimilum. Allt of fáir virðast geta nýtt sér þau úrræði sem þó hafa staðið til boða.
Það þarf einnig að einfalda úrræðin.
Auk þessa þarf að huga að breytingum á húsnæðislánakerfinu til framtíðar litið. Skoða verðbótaþátt lánanna og auka fjölbreytni í lánaframboðinu.

Landsfundur hefur ályktað um málið og þingflokkur okkar vinnur nú að nánari útfærslu þeirrar stefnu undir öryggri forystu varaformanns okkar, Ólafar Nordal.

það þarf hvetjandi umhverfi

Góðir fundarmenn,
Það hlýtur að vera markmið hverrar ríkisstjórnar að búa svo um hnútana að borgararnir hafi hvata til að leggja meira á sig til að bera meira úr býtum og til að búa í haginn fyrir framtíðina með því að sýna ráðdeild og sparnað.
En hvað hefur gerst hjá þessari ríkisstjórn?

Um áramót var helmingur þess sem áður mátti greiða skattfrjálst í séreignarsjóð skattlagður. Hvatinn til að leggja fyrir til ævikvöldsins verður svo æ minni vegna tekjutenginga lífeyrisgreiðslna. Stór hópur hefur af þessum sökum engan raunverulegan ávinning af greiðslu í lífeyrissjóði í áratugi.

Og hvað með almennan sparnað? Fjármagnstekjuskatturinn er kominn í 20%, og leggst bæði á vexti og verðbætur. Verðtrygging sparnaðar nýtur ekki einu sinni friðhelgi fyrir þessari þungu skattlagningu.

Er þá ótalinn eignaskatturinn, sem nýyrðasmiðir ríkisstjórnarinnar hafa nefnt auðlegðarskatt. Afnám eignaskattsins var mikið réttlætismál, enda var hann ekki að ósekju oft nefndur ekkjuskatturinn.

Eins má segja að innan ríkisstjórnarinnar ríki grundvallarmisskilningur á eðli mannsins, því hví skyldi sá sem hefur jafnmikið eða meira upp úr því að sitja heima fara út á vinnumarkaðinn? Almannatryggingakerfið á að tryggja þeim sem þurfa örugga framfærslu en ekki vera í samkeppni við vinnumarkaðinn um vinnuaflið.

Þegar það er farið að vinna gegn þeirri hugsun að vinna borgi sig erum við komin á hættulega braut. Í síðustu viku sagði formaður Verkalýðsfélags Akraness frá því að til hans hefði leitað kona sem ynni við ræstingar í hlutastarfi, en vegna breytinga á reglum Vinnumálastofnunar borgaði sig ekki lengur fyrir hana að vinna. Hún fengi meira upp úr því að vera eingöngu á bótum.

Þegar þessi umræða sprettur upp er viðkvæðið venjulega að bætur séu ekki of háar, það sé launin sem séu of lág, sérstaklega lágmarkslaunin.

Þetta er rétt svo langt sem það nær. Við verðum hins vegar að horfast í augu við að til að geta greitt hærri laun og haft fleiri í vinnu þarf að búa fyrirtækjum viðunandi umhverfi, bæði hvað varðar skatta og fjárfestingar. Það hefur þessi ríkisstjórn forðast eins og heitan eldinn.

Ég get tekið undir það að við eigum að hækka lægstu launin til að vinna samkeppnina við heimasetu á bótum, en til þess þarf að styrkja atvinnulífið til muna !

Hætta að draga fæturna gagnvart öllum framkvæmdum
og
hætta að fjármagna sókn í bótakerfið með framlögum fyrirtækja
sem ættu að fara í að hækka laun og ráða fleiri !

KRÓNAN
Umræðan um gjaldmiðilinn er um mikið alvörumál. Mjög hefur hins vegar skort á yfirvegun og varúð í þeirri umræðu að undanförnu.

Þegar við horfum nokkra áratugi aftur í tímann er öllum ljóst að íslenska krónan hefur verið óstöðugur gjaldmiðill. Þó er það svo, að þegar ríkissjóður hefur verið rekinn af ábyrgð með aðhaldssamri stefnu, sátt hefur verið á vinnumarkaði um að vinna gegn verðbólgu og lögð hefur verið áhersla á skynsamlega nýtingu auðlinda og verðmætasköpun í landinu, þá hefur krónan aldrei brugðist okkur og að jafnaði verið stöðug. Þannig má segja að krónan hafi ekki gert annað en að endurspegla ástandið í efnahagsmálum hverju sinni.

Í Evrópu voru það umfram annað pólitískir hagsmunir sem réðu því að hin sameiginlega mynt, evran, var innleidd.

Bretar eins og fleiri þjóðir höfðu varann á sér og fóru ekki inn í myntsamstarfið. Þeir könnuðu nokkur hundruð ára sögu myntbandalaga í heiminum og sáu að þau hafa ávallt endað með því að liðast í sundur eða leiða til pólitísks samruna með sameiginlegri stefnu í opinberum fjármálum.
Bretar vildu hvorugt upplifa og héldu sig því utan myntbandalagsins.

Um þessar mundir er róið öllum árum að því að samþætta opinber fjármál evruríkjanna því ella mun myntbandalagið liðast í sundur. Leynt og ljóst er stefnt að frekari pólitískum samruna.

Enn er þó gríðarleg óvissa um framtíð evrusamstarfsins. Vel má vera að það liðist í sundur þrátt fyrir aðgerðapakkann vegna lítils hagvaxtar og skuldsetningar einstakra ríkja.

Þetta sjá allir aðrir en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sem segir evruna okkar einu von.

Hún áttar sig ekki einu sinni á því, að það er íslenska krónan, sem er helsta forsenda þess litla hagvaxtar sem hún stærir sig af.

Í Svíþjóð hefur aldrei verið jafn mikil andstaða við upptöku evrunnar og nú.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hefur lengi verið talsmaður þess að Noregur gangi í Evrópusambandið og taki upp evru. Hann er formaður í systurflokki Jóhönnu Sigurðardóttur.

Fyrir nokkrum vikum sagði Jens Stoltenberg :
„Þetta er ekki rétti tíminn til að velta fyrir sér aðild að Evrópusambandinu. Nær væri að ræða hvernig leysa á efnahagsvanda Evrópu. Ég ætla að verja tíma mínum í uppbyggilegri hluti en að tala fyrir því að Noregur taki upp Evru. Ég væri sjálfur andsnúinn því í dag.“

Ekkert af þessu breytir því, að við Íslendingar eigum mikið undir því að það takist að leysa vanda skuldsettustu evruríkjanna og koma hagvexti af stað í álfunni, því þar liggja mikilvægustu markaðir okkar.

Ekkert af þessu breytir því heldur, að það er nauðsynlegt að horfast í augu við það að við erum föst í gjaldeyrishöftum og að mjög hefur dregið úr trú á því að verðmæti séu vel geymd í íslensku krónunni. Það er alvarlegt því við þurfum lífsnauðsynlega á fjárfestingu að halda og við þurfum að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Það er því skynsamlegt að stalda við og spyrja: Hvað getum við lært af reynslu okkar ?

Við eigum einnig að horfa til reynslu annarra ríjka.

Þegar horft er á málið frá þessum sjónarhóli stendur það uppúr að hér, eins og víða annars staðar í Evrópu, þarf stóraukinn aga í ríkisfjármálum. Opinber fjármál þurfa að styðja mun betur við peningamálastefnuna. Í Evrópu eru nú verið að herða mjög á kröfum um hallalaus fjárlög, jafnvel þannig að slíkt sé bundið í stjórnarskrá.

Eins og áður segir er mikil óvissa með framtíð evrusamstarfsins. Evruríkin hafa hins vegar notað undanfarin 3 ár til að smíða aðgerðaáætlun og hrinda henni í framkvæmd.

Hér á landi hefur hins vegar ekkert gerst af viti í þessum efnum. Það eitt að koma á fót nefnd um peningamálin hefur tekið þrjú ár ! Og um leið og nefndin er fullskipuð segir forsætisráðhera myntina hvort eð er vera vonlausa ! Hún spyr hvort ekki geti tekist samstaða um að leggja gjaldmiðlinn niður !

Með því að gefa frá sér eigin gjaldmiðil er miklu fórnað af sjálfstæði þjóðarinnar í efnahagsmálum. Þessu þurfa allir að gera sér grein fyrir og taka með í umræðuna, líka Jóhanna Sigurðardóttir !

Ef efnahagsveiflan er ekki tekin út í gengi gjaldmiðilsins þá gerist það á vinnumarkaðinum. Með fastgengisstefnu er líklegt að atvinnuleysi hér á landi hefði legið á milli 20 og 30 prósent á árinu 2009.

Víða í Evrópusambandinu er hægt að sjá dæmi um nákvæmlega þetta. Lettland er eitt þeirra. Þar fór atvinnuleysi vel upp fyrir 20% en hafði áður verið rúmlega 5%. Enn er atvinnuleysi þar tvöfalt miðað við það sem áður var. Ég þarf ekki að rekja fyrir ykkur hin dæmin – Grikkland, Portúgal, Spánn, Írland og Ítalía eru öll í miklum vanda vegna skulda, atvinnuleysis og lítils hagvaxtar.

Okkar verkefni nú er að treysta stöðu okkar á grundvelli íslensku krónunnar. Takist okkur vel til munu allar dyr standa okkur opnar í framtíðinni. Á næstu árum er sjálfsagt að vega og meta aðra kosti okkar í gjaldmiðilsmálum til framtíðar litið en það er ekkert sem knýr á um að við köstum frá okkur krónunni.

HAGVÖXTUR
Góðir sjálfstæðismenn,
Öll ríki sem vilja lækka skuldir sínar og sækja fram til bættra lífskjara sækjast eftir hagvexti.

Nema Ísland, ef marka má orð Svandísar Svavarsdóttur, sem sagði á flokksráðsfundi VG að endalaus hagvöxtur væri leið mannkynsins til glötunar ! Til glötunar ! Þess vegna þyrftu vinstri menn að stýra landinu.

Góðir fundarmenn, góðu fréttirnar eru þær að um það verður kosið eigi síðar en á næsta ári.

Hver afrekalisti þessarar ríkisstjórnar? Hún þverbraut stöðugleikasáttmálann og hefur verið upp á kant við aðila vinnumarkaðarins um öll stærri mál undanfarin ár. Framtíð sjávarútvegsins er í uppnámi, framkvæmdir hafa legið niðri, orkunýtingarmál eru í biðstöðu ár eftir ár og óvæntar uppákomur í skattamálum og á öðrum sviðum fæla fjárfesta frá. Atvinnuleysið grefur um sig og fólk flýr land í þúsundavís.
Endurskoðun stjórnarskrárinnar er í einhverjum furðufarvegi og stjórnarflokkarnir tala út og suður um Evrópumálin.

Að horfa upp á þetta minnir á manninn sem var bent á að hann sæti öfugur á hestinum. Hann spurði á móti: Hvað veist þú í hvora áttina ég ætla að fara ?

Hér mælist nú veikur hagvöxtur, sem því miður er ekki byggður á fjárfestingu heldur hverfulli einkaneyslu

Þetta þarf alls ekki að vera svona. Hér eru sóknarfæri mikil og öll skilyrði til þess að við getum hafið kraftmikið hagvaxtarskeið. Það mun hins vegar ekki gerast þegar sjónarmið á borð við þau sem Svandís Svavarsdóttir hefur talað fyrir ráða för.

RAMMAÁÆTLUN
Ágætu samherjar!
Þessara sjónarmiða umhverfisráðherra verður því miður einnig vart í meðferð rammaáætlunar, enda eru þau vinnubrögð sem við höfum séð í tengslum við gerð hennar forkastanleg.

Fyrst ber að nefna að áður en drög að þingsályktun urðu til höfðu stjórnarflokkarnir komið Norðlingaölduveitu, hagkvæmasta virkjunarkostinum, og nokkrum öðrum, út af borðinu með baktjaldamakki. Allt sagt gert á faglegum forsendum.

Eftir þetta voru drög að rammaáætlun lögð fram til kynningar. Nú berast fréttir af því að áður en þingsályktunartillagan komi fyrir þingið eigi enn að tína út nokkra virkjunarkosti, þ. á m. alla í neðri Þjórsá. Það myndi þýða að hinn svonefndi nýtingarflokkur yrði minnkaður um fjórðung og eina vatnsaflsvirkjunin sem eftir stæði væri Hvalárvirkjun.

Fagleg vinna við rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda er að engu höfð. Persónuleg og pólitísk gælumál einstakra ráðherra stjórna ferðinni.
Það er þyngra en tárum taki að horfa á þessi vinnubrögð.

Öfgamenn í umhverfismálum eru hreinlega að taka orkumál á Íslandi – og þar með verðmætasköpun til langrar framtíðar – í gíslingu. Um það getur aldrei tekist nein sátt ! Við verðum að nýta hagkvæmustu orkulindir okkar.
Um það verður kosið.

Góðir fundarmenn.
Við erum svo lánsöm Íslendingar að ýmis ytri skilyrði eru okkur hagfelld um þessar mundir.
Ég vil biðja ykkur um að hugleiða eftirfarandi eitt augnablik:

1. Skilyrði í hafinu eru jákvæð og verð hátt. Útflutningur sjávarafurða hefur aldrei skilað okkur hærri tekjum.
2. Sama gildir um álið. Við höfum aldrei haft jafn miklar tekjur af álútflutningi. Aldrei haft hærri tekjur af raforkusölu.
3. Eins höfum við Íslendingar aldrei fengið fleiri ferðamenn sem hafa skilað jafn miklu til þjóðarbúsins og undanfarin ár.

Þetta eru undirstöðuatvinnugreinar okkar. Þrátt fyrir þessa góðu stöðu verða engin ný störf til. Fjárfesting er í frosti.
Við höfum fjölmörg tækifæri í ýmiskonar greinum – allt frá hönnun, forritun, matvælaframleiðslu, orkunýtingu og yfir í ráðstefnuhald, heilbrigðisþjónustu og ýmiskonar iðnað.
Meginástæða þess að úr þessum tækifærum rætist ekki er pólitíska ástandið og fjandsamlegt viðhorf stjórnvalda í garð atvinnulífsins. Sú afstaða bitnar á launum fólks, hún bitnar á atvinnulausum og hún grefur undan velferðarkerfinu og allri opinberri þjónustu.

Góðir sjálfstæðismenn!

Íslendingar hafa áður gengið í gegnum efnahagsþrengingar og unnið sig út úr þeim með krafti og einurð.

Við eigum mikil auðæfi í náttúru og fólki og gnægð tækifæra. En við þurfum kjark til framkvæmda og nýja stjórn.

Um það verður kosið.