Réttlætismál aldraðra

447

Morgunblaðið 9. apríl 2013
Eftir Bjarna Benediktsson

“Frelsi einstaklingins til að ráða sínum málum sjálfur, afla sér tekna og verja þeim að vild á ekki að ljúka þegar lífeyrisaldri er náð.”

Um daginn hitti ég mann sem er kominn yfir sjötugt. Hann sagði mér að hann væri hættur að vinna – aftur. Hann hafði hætt þegar hann komst á aldur en síðustu ár hefur orðið heldur þrengra í búi hjá honum og konu hans og þess vegna tók hann því feginshendi þegar honum bauðst vinna hjá sama vinnuveitanda og áður. Vinnan var ekki mikil og launin þannig séð ekki heldur, en hann hugsaði sem svo að það munaði um allt og svo var líka ánægjulegt að fara reglulega út úr húsi, starfið var skemmtilegt og vinnufélagarnir líka.

Hver var ávinningurinn?

Ekki leið á löngu þar til hann áttaði sig á því að þrátt fyrir að launin næmu 80.000 krónum á mánuði, jukust ráðstöfunartekjurnar ekki um nema rúmar 4.000 krónur á viku. Að hans sögn skilaði vinnan vegna skerðinga innan við 20.000 krónum betri stöðu í lok mánaðar. Þrátt fyrir að þessi maður hefði ánægju af starfinu og fengi þó meira en ella í vasann, sagði hann upp. Hann sagði að það hefði verið hæpið að það svaraði kostnaði fyrir hann að sækja vinnu enda fylgja því alltaf einhver útgjöld, ekki síst þegar aka þarf talsverða vegalengd, eins og í þessu tilviki, með bensínverðið eins og það er.

Þarna er maður, góður í sínu fagi, sem getur lagt til verðmæta þekkingu og nýtur þess að vera virkur á vinnumarkaði. En – honum sárnaði virðingarleysið sem fólst í því að skerða tekjur hans með þessum hætti og hvatinn til þess að vinna gufaði upp.

Ástæðan er sú að árið 2009 voru tekjumöguleikar aldraðra skertir með því að afnema rétt fólks yfir sjötugu til að vinna fyrir launum sem þessum án þess að það hefði áhrif á bætur.

Sé fólk í þeirri stöðu að geta og vilja vinna á það að hafa möguleika á því án þess að skerðingar bóta leiði til þess að allur hvati sé af því tekinn. Hér gæti einhver sagt að bætur væru einungis fyrir þá sem þurfa á þeim að halda og engar hafa tekjurnar. Það er rétt svo langt sem það nær en það er fleira sem hangir á spýtunni. Ef of langt er gengið í skerðingum upplifir fólk hvorki tilgang né sanngirni í þeim stuðningi sem stjórnvöld veita. Við verðum að gera kröfu um að lög og reglur styðji við sjálfshjálp, tryggi umbun fyrir að leggja sig fram og festi ekki aldraða í fátæktargildrum.

Þungar byrðar á aldraða

En þetta er ekki það eina sem hefur rýrt kjör eldri borgara á þessu kjörtímabili.

Tekjutengingar vegna maka- og fjármagnstekna hafa verið stórauknar. Grunnlífeyrir hefur verið skertur og stór hópur sem áður fékk slíkan lífeyri gerir það ekki í dag. Bætur hafa ekki haldið í við verðlag.

Þegar metnar eru breytingar á fjárlögum innan líðandi kjörtímabils kemur í ljós að aldraðir standa undir um 10% varanlegs niðurskurðar í ríkisrekstrinum. Samtals má áætla að ríkisstjórnin hafi dregið úr greiðslum til málaflokksins um a.m.k. 13 milljarða. En aldraðir hafa að sjálfsögðu ekki, frekar en aðrir þjóðfélagshópar, sloppið við skattastefnuna og þannig er sótt að þeim úr tveimur áttum.

Fjöldi eldri borgara, sem hafa orðið fyrir barðinu á svonefndum auðlegðarskatti, hefur litlar eða engar tekjur til að standa undir slíkum greiðslum. Um 300 manns með tekjur undir 80.000 krónum á mánuði reiddu fram 430 milljónir í þennan skatt árið 2011. Þennan skatt þarf að afnema hið fyrsta.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar einnig að afturkalla þá kjaraskerðingu, sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009. Skerðingum vegna greiðslna á ellilífeyri, krónu fyrir krónu, verður hætt og hann leiðréttur til samræmis við þær hækkanir sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.

Réttlætismál

Sjálfstæðisflokkurinn mun bæta stöðu aldraðra. Draga aftur úr tekjutengingum og hjálpa fólki til sjálfshjálpar með því að leyfa öllum yfir 70 ára aldri að afla sér tekna án skerðinga. Hækka að nýju lífeyrisgreiðslur, tryggja að aldraðir á dvalarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði og eyða þeirri mismunun sem birst hefur í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár.

Frelsi einstaklingins til að ráða sínum málum sjálfur, afla sér tekna og verja þeim að vild á ekki að ljúka þegar lífeyrisaldri er náð. Aldraðir eiga að njóta efri áranna með reisn. Þeir eiga að hafa raunverulegt val um hvernig þeir haga lífi sínu, hvort sem það felst í að búa á dvalarheimili eða í eigin húsnæði, stunda vinnu eða ekki.

Það er réttlætismál að veita öldruðum raunverulegt frelsi til að njóta ávaxta ævistarfs síns. Í þágu þess réttlætismáls ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vinna.