Ríkið frystir félagslega íbúðakerfið

418

Þann fimmta júlí 2012 tóku gildi breytingar á lögum um húsnæðismál. Lagabreytingarnar eiga, samkvæmt tilgangi laganna, að tryggja það m.a. að landsmenn búi við öryggi og jafnræði í húsnæðismálum. Lögin taka meðal annars á félagslega íbúðakerfinu  þar sem Íbúðalánasjóði  er heimilað að veita  sveitarfélögunum lán svo þau geti keypt íbúðir og leigt  þeim sem við kröppustu kjörin búa. Átta mánuðir eru síðan lögunum var breytt en ekkert bólar á lánveitingum. Ekkert lán hefur verið afgreitt á þessum tíma til sveitarfélaganna.

Kópavogsbær greip til þess neyðarúrræðis á síðasta ári að kaupa nokkrar fasteignir í trausti þess að skamman tíma tæki að veita þessu máli brautargengi hjá velferðarstjórninni, ríkisstjórn sem hefur haft það höfuðmarkmið að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Skemmst er frá því að segja að þar er allt frosið og þær skýringar gefnar að það strandi á útgáfu nýrrar reglugerðar. Þetta hefur orðið til þess að Kópavogsbær  getur ekki fjármagnað frekari íbúðakaup eða byggingar sem nýtast eiga þeim sem höllustum fæti standa en í þeim hópi eru meðal annars aldraðir og fatlaðir.

Ég vil hvetja velferðarráðherra, sem ég þekki af góðu einu, til þess að klára útgáfu þessarar reglugerðar hið snarasta svo sveitarfélögin geti gert sitt besta til þess að uppfylla þær skyldur sem á þau eru lagðar gagnvart fyrrgreindum hópum. Það gengur ekki að Alþingi samþykki lög sem leggja skyldur á herðar sveitarfélagum en framkvæmdavaldið leggi svo steina í götu þeirra vegna þess að það tekur sér þann tíma sem því sýnist til að afgreiða reglugerðir.