Sigur lífskjarana

399

Bjarni Benediktsson

Eftir Bjarna Benediktsson: “Við ætlum að vinda ofan af skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, draga úr tekjutengingum og einfalda skattkerfið að nýju.”

Með sigri í kosningunum í vor gefst okkur sjálfstæðismönnum ómetanlegt tækifæri til að bæta lífskjör landsmanna.

Það munum við gera með því að lækka skatta, hefja sókn í atvinnumálum og gjörbreyta forgangsröðun málefna. Of mikill tími hefur á þessu kjörtímabili farið í mál sem snúa engan veginn að því að bæta upp þá lífskjaraskerðingu sem hér hefur orðið.

Almennar skattalækkanir

Við ætlum að vinda ofan af skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, draga úr tekjutengingum og einfalda skattkerfið að nýju. Það þarf að afnema eignaskattinn, sem hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar verið nefndur auðlegðarskattur, þrátt fyrir að ljóst sé að stór hópur greiðenda þess skatts sé eldra fólk sem hefur sáralitlar tekjur. Vilji ríkisstjórnarinnar til að hunsa þá staðreynd er reyndar dæmigerður fyrir framkomu hennar gagnvart eldri borgurum að öðru leyti. Það verður sérstaklega ánægjulegt að fá að vinna að því að rétta hlut þeirra á ný.

Eldsneytisreikningurinn lækkar

Við munum lækka eldsneytisgjöld. Aldrei hefur ríkið tekið til sín fleiri krónur af hverjum seldum eldsneytislítra. Í tvígang hefur þingflokkurinn lagt fram frumvarp sem tekur á þessu, en það hefur ekki fengið fram að ganga. Lækkun eldsneytisgjalda er aðgerð sem mun umsvifalaust koma bæði heimilum og fyrirtækjum til góða og verða til að lækka vísitölu neysluverðs.

Lægri skattar – öflugra atvinnulíf

Við ætlum að lækka skatta á fyrirtæki. Það mun hleypa lífi í fjárfestingar og fjölga störfum. Við höfum ítrekað bent á hvernig skattbyrðar ríkisstjórnarinnar vinna gegn öllum markmiðum um vöxt á sviði efnahags- og atvinnulífsins. Atvinnurekendur sem svo gjarnan vildu bæta við sig starfsfólki, geta það ekki þar sem of stór hluti rekstrartekna fer í að greiða tryggingagjaldið og aðra síhækkandi skatta.

Auk skattbyrðarinnar liggur óvissan um framtíðina eins og mara á öllu athafnalífi. Þar við bætast gjaldeyrishöftin, en það hefur reyndar ekki verið neitt forgangsmál ríkisstjórnarinnar að aflétta þeim, enda annar stjórnarflokkurinn þeirrar skoðunar að innganga í ESB sé eina vonin.

Það er erfitt að gera áætlanir fram í tímann og taka á sig skuldbindingar, þegar aldrei er hægt að treysta á að rekstrarumhverfið haldist stöðugt. Okkar bíður að tryggja stöðugleika að nýju.

Ný sókn til betri lífskjara

Þetta eru nokkrar aðgerðir af fjölmörgum sem Sjálfstæðisflokkurinn mun hrinda í framkvæmd. Þær munu styrkja efnahagslífið og bæta lífskjör okkar allra. Fjölga störfum, gera okkur kleift að halda áfram að mennta okkur og auka verðmæti vinnuframlags okkar, standa undir heilbrigðiskerfinu og laða brottflutta Íslendinga aftur heim.

Við eigum mikið inni og mörg tækifæri ónýtt til að gera miklu betur en sitjandi stjórn. Á næstu mánuðum veljum við þá sem ætla að standa í fremstu röð og tala fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins, fyrir málstað okkar. Ég skora á alla sjálfstæðismenn, sem eiga á því kost, að taka þátt í að velja öfluga framboðslista. Með því leggjum við grunninn að sigri í alþingiskosningum í vor – og nýrri sókn til betri lífskjara.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.