Sjávargarður í Fossvoginum

566

Með því að loka Fossvoginum fyrir hraðri bátaumferð við fjarðarmynnið er hægt að búa til fyrsta útivistarsvæðið á Íslandi sem er á úti á hafi. Í áraraðir hafa sjóböð verið stunduð í Fossvoginum. Sjósund er vaxandi íþrótt og að sögn Ragnheiðar Valgarðsdóttur í Sjósunds- og sjóbaðsfélaginu í Reykjavík (SJÓR) þá er þeim alltaf að fjölga sem leggja leið sína í Nauthólsvíkina. Þeim fjölgar sem stunda sjósund og sífellt fleiri eru farnir að synda um allan voginn. Siglingaklúbburinn Ýmir hefur aðstöðu Kópavogsmegin í Fossvoginum og Siglingaklúbburinn Siglunes er staðsettur Reykjavíkurmegin. Þarna eyða mörg börn sumrinu við nám og leik.

Sjávarhitinn er 14 gráður á sumrin en í glampandi sól og steikjandi hita getur sjórinn farið yfir 16 gráður og þá eykst umferðin um Fossvoginn. Þotuskíði og spíttbátar valda ölduróti og það þarf ekki mikið öldurót svo að kollarnir á sundfólkinu sjáist ekki í sjónum. Það er því mikilvægt að skilgreina svæði þar sem fólk getur verið að sigla, synda og leika sér í sjónum án þess að vera í hættu frá hraðri bátaumferð. Með því að setja 3 mílna hraðatakmörk eins og er í höfnum þá mætti hugsa sér þetta sem nokkurs konar vistgötu á hafi úti. Félagsmenn í SJÓR telja þetta mikið öryggisatriði.

Þarna mætti setja upp ýmiss konar leiktæki sem börn, unglingar og fullorðnir geta spreytt sig á eins og tildæmis trampólín, skíða-togbraut fyrir sjóskíði, klettaklifur og sprang.

Víða erlendis eru dæmi um svona garða. Danir hafa verið duglegir seinustu árin að útbúa allskonar svæði til að gefa fólki kost á að stunda sjóböð og leika sér í vatninu. Fyrir utan Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna er útivistarsvæði sem nefnist ,,Edmonds Underwater Park“, en eins og nafnið gefur til kynna þá er garðurinn á hafsbotni. Þar er búið að sökkva skipum til að útbúa spennandi umhverfi fyrir kafara.

Ekkert sjávarsvæði er skilgreint sem útivistarsvæði á Íslandi í dag. Fossvogurinn er upplagður staður til að verða fyrsti sjávargarðurinn á Íslandi.

Sigríður Kristjánsdóttir
Skipulagsfræðingur
Skipar 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi