fbpx

Áherslur okkar

Bær nýrra tækifæra

Kópavogur hefur alla burði til að vera nútímalegt borgarsamfélag með alþjóðlegt yfirbragð, þar sem lífskjör og tækifæri verða sambærileg við bestu borgir. Mikilvægt er að vanda til verka þannig að uppbygging og fólksfjölgun komi ekki niður á umhverfisgæðum íbúa. Því þarf byggðaþróunin að vera samofin góðu samgönguneti.

Fram undan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum sem snúa að húsnæðis- og samgöngumálum. Tryggjum húsnæði fyrir fólk á öllum aldursskeiðum og fjárfestum í innviðum til að fylgja eftir fjölgun íbúa – þannig hugsum við til framtíðar. 

  • Hverfi og þarfir íbúa breytast með lýðfræðilegri þróun. Við höfum skýra framtíðarsýn og viljum að uppbygging haldist í hendur við þarfir íbúa á hverjum tíma.
  • Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl í vaxandi bæ eru lífskjaramál. Við ætlum að standa vörð um hagsmuni Kópavogs í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sem og um ábyrgar og raunhæfar áætlanir.
  • Við boðum framsýna hugsun í skipulagsmálum og viljum strax hefja þá vinnu að leggja Reykjanesbraut í stokk. Samhliða því skipuleggjum við græna byggð meðfram stokknum.
  • Við horfum til nýrra tækifæra og viljum efna til hugmyndasamkeppni um göng í gegnum hálsinn á Hafnarfjarðarvegi og klára framtíðarsýn við uppbyggingu á Hamraborgarsvæðinu.
  • Við viljum að hverfi Kópavogs séu sjálfbær og bæjarbúar geti mætt sem mestu af daglegum þörfum sínum í göngufæri frá heimilum sínum, hvort sem horft er til skóla, íþrótta- og tómstundaiðkunar, leiksvæða, útivistarsvæða eða verslunar og þjónustu.
  • Áfram þarf að viðhalda götum og stígum, bæta lýsingu og setja upp snjalllýsingar við gangbrautir. Þannig gerum við hverfin okkar enn betri og vistvænni
  • Við viljum sjá fleiri græn svæði sem stuðla að aukinni ánægju og hreyfingu og ýta undir góða almenna heilsu fyrir íbúa Kópavogs.