Skólar í fremstu röð

506

Góður rekstur Kópavogssbæjar og niðurgreiðsla skulda er forsenda nýrrar sóknar í skólum bæjarins. Leikskólarnir eru fyrsta skólastigið og í þeim er lagður grunnurinn að þeim skólabrag sem á eftir að fylgja börnunum í gegnum allan grunnskólann. Af þessum sökum er mjög mikilvægt að bærinn setji sér háleit markmið um faglegt starf í leikskólunum.

Á vegum bæjarins er nú verið að vinna tillögur sem hafa það að markmiði að fjölga fagmenntuðu fólki í leiksskólum bæjarins. Það verður ekki gert nema með því að bæta starfsumhverfi á leikskólunum. Við munum því á næsta kjörtímabili tryggja það að kjör á leikskólum í Kópavogi standist allan samanburð við önnur sveitarfélög og auka svigrúm til faglegs undirbúnings og eftirfylgni í leiksskólunum. Markmiðið til lengri tíma litið er að fjölga leiksskólakennurum. Einungis sex leikskólakennarar eru að útskrifast í vor og því er það mikið áhyggjuefni hversu lítil endurnýjun er í stéttinni. Það verður því að finna leiðir til þess að gera starf leiksskólakennara eftirsóknavert og þar mun Kópavogsbær leggja sitt lóð á vogaskálarnar.

Grunnskólar
Margumtöluð Pisa-rannsókn kom vel út fyrir Kópavog þar sem nemendur í grunnskólum bæjarins stóðu sig almennt mjög vel. Nemendur eru að bæta árangur sinn frá síðustu rannsókn sem gerð var 2009. Í kjölfar hagræðingar í rekstri þá eru þetta ánægjulegar niðurstöður sem sýna að gæði skólastarfsins hefur haldist hátt og vel hefur verið haldið á spilunum bæði á skólaskrifstofunni sem og úti í skólunum. Við getum því verið stolt af skólunum okkar og í samanburði við Norðurlönd þá stöndum við jafnfætis og jafnvel framar en þau. Stærðfræðiþekking er til dæmis hærri í Kópavogi en í sambærilegum sveitarfélögum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Þróun lesskilnings Þróun stærðfræðiskilnings

 

Þegar litið er til lesskilnings þá er hlutfall þeirra sem geta lesið sér til gagns hátt í Kópavogi í samanburði við sambærileg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og þá er lesskilningur í Kópavogi svipaður og í sambærilegum sveitarfélögum í Danmörku og Noregi. Rétt er þó að leggja áherslu á að Pisa rannsóknin er bara einn mælikvarði og því verður að horfa til fleiri mælinga eins og samræmdra prófa en þau hafa verið að koma vel út fyrir Kópavog. Síðast en alls ekki síst þá er fær viðhorf nemenda til skólaumhverfisins í Kópavogi hæstu einkunn og hefur samband nemenda og kennara verið að styrkjast. Því er hins vegar öfugt farið í sambærilegum sveitarfélögum á hinum Norðurlöndunum.

Ný sókn á traustum grunni
Grunnurinn er því góður til frekari sóknar í skólum Kópavogs og munum við auka svigrúm þeirra til sérhæfingar og sóknar sem rúmast innan aðalnámskrár. Verkefni bæjarins er að tryggja góða umgjörð og má í því samhengi nefna að nú er verið að setja þráðlaust net í alla leik- og grunnskóla bæjarins. Með því er skólunum tryggt að þeir geta verið í fremstu röð að nýta sér upplýsingatækni í kennslu og ættu þar með að geta tileinkað sér hratt nýjungar í kennsluháttum.

Við leggjum áherslu á skýrari markmiðasetningu ekki síst í undirstöðugreinunum; lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Sameiginlegt markmið okkar allra er að í Kópavogi séu skólarnir okkar áfram í fremstu röð. Til þess að svo geti orðið þarf að fylgja málum eftir af festu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa öflugu fólki sem hefur lagt áherslu á menntamál í sínum málflutningi.

Sjálfstæðisflokkurinn heitir því að leggja áherslu á nýja sókn og taka forystu í eflingu skólastarfs á næsta kjörtímabili.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og skipar 1. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi