Snjallt skólastarf

434

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt sig fram um að nútímavæða skólastarfið og setja skýra stefnu þar um sem endurspegli um leið þá tækniþróun sem samtíminn byggir á. Markmið spjaldtölvuinnleiðingarinnar eru margþætt. Þau snúa að stórum hluta að inntaki og framkvæmd kennslu, en ekki síður að viðhorfum nemenda, kennara og foreldra til skólastarfsins og frammistöðu og árangri nemenda.

Í dag er stefnan framkvæmd með því að afhenda hverjum nemanda spjaldtölvu í 5. – 10. bekk. Kennarar fá fræðslu, ráðgjöf og stuðning og skólasamfélagið allt fær fræðslu um meðferð og nýtingu tækninnar. Á komandi kjörtímabili verður horft til þess að efla vinnubrögð og leikni yngstu nemendanna til náms með snjalltækni en á yngstu aldursstigunum er grunnurinn lagður að því sem á eftir kemur.

Breyttir kennsluhættir
Spjaldtölvan gefur nemendum með ólíkar þarfir jafnara og fjölbfreyttara tækifæri til náms og styður við menntunarfræðilegar hugmyndir um skóla án aðgreiningar á margvíslegan hátt. Nemendur geta í auknum mæli nýtt sér fjölbreytta kosti tækninnar til náms umfram blýant og blað og sérkennslan eins og við þekkjum hana breytist. Fjölbreyttar námsaðferðir nemenda leiða jafnframt og óhjákvæmilega til þess að kennsluhættir almennt breytast. Slíkt gerist ekki eingöngu með því að afhenda nemendum spjaldtölvu. Það byggir ekki síður og öllu heldur á viðhorfi og vilja kennara, nemenda og foreldra til snjalltækjanotkunar við nám og trú á að markviss notkun snjalltækja í námi geti skilað nemendum jákvæðri námsframvindu og vissu um eigin styrkleika. 

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi vill að nemendur skólanna hafi á hverjum tíma aðgengi að snjalltækni og þar með talið ýmsum möguleikum sem tengjast snjalltækni s.s. sýndarveruleika og þrívíddarprentun. Það skerpir enn betur þá sýn flokksins að skólastarfið endurspegli tæknimöguleika hvers tíma. Sem dæmi styður snjalltæknin vel við iðn-, list- og verkgreinar þar sem sköpunarkraftur og hugmyndaauðgi nemenda fær að njóta sín á fjölbreyttan hátt með nýtingu hennar. 

Forritun er nýtt ritmál
Með aukinni tæknivæðingu hefur orðið til nýtt ritmál sem þarf að kenna. Forritun er orðin sjálfsagður þáttur í skólanámskrá hvers skóla. Forritunarmálið felur í sér ritaðar skipanir um aðgerðir sem tæknin getur lesið og framkvæmt. Þetta nýja ritmál þarf að kenna allt frá leikskólaaldri. Til að beita nýja ritmálinu þurfa nemendur m.a. að beita rökhugsun og sköpunarkrafti. Þau þurfa líkt og í öðrum viðfangsefnum skólastarfsins að læra að ræða það sem þau fást við og vinna saman að viðfangsefnum. Þau þurfa að læra að vinna með öðrum, taka tillit til ólíkra sjónarmiða og læra að sætta ólík sjónarmið komi þau upp. Með nýja ritmálinu kennum við nemendum að vera veitendur tölvuleikja og þrauta í stað þess að vera eingöngu neytendur þeirra. 

Fingrasetning og talað mál
Fjölmargir á vinnumarkaði í dag þakka skólanum fyrir kennslu á lyklaborð. Þessi atriði skipta máli í heildarsamhenginu að mati margra. Ég segi hins vegar að með kennslu á fjölbreyttum möguleikum tækninnar til náms og starfs fær einstaklingurinn aukið val um leiðir til náms og starfs. Það reynist ekki öllum auðvelt að læra fingrasetningu frekar en að það reynist ekki öllum auðvelt að læra að lesa. Þeir sem eiga erfitt með lestur nýta sér hljóðbækur og það nýjasta í ritunarþættinum er að lyklaborðin skrá hefðbundið ritmál eftir íslensku talmáli og er það þegar farið að nýtast nemendum sem það velja. Snjalltækið stafsetur auk þess talmálið í langflestum tilvikum rétt sem styðjur við stafsetningarkennsluna og varðveislu tungumálsins. Enn aðrir nemendur velja að skrifa á blað og og lesa í bók en geta samt sem áður nýtt tæknina í að taka mynd af því sem þau skrifa eða taka upp það sem þau lesa. Tæknin aðstoðar við að bæta lestrarlag og hjálpar til við að greina hvað betur má fara í lestrinum. Tæknin er ekkert að fara. Ef nemandi velur að tala við snjalltækið sitt og láta það skrá fyrir sig á íslensku, þá er það raunverulegur valkostur í dag. Það má því segja að talsetning sé ný hæfni sem þarf að kenna því snjalltækið skilur ekki óþjált mál frekar en lyklaborðið tíu þumalfingur.

Skólastarf þarf að vera fjölbreytt og í sífelldri þróun.

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi velur snjallt skólastarf. 

Bergþóra Þórhallsdóttir
Deildarstjóri Kópavogsskóla

Skipar 11. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi