Stefnuskrá í sveitastjórnarkosningum 2010

422

Bæjarstjórnarkosningar

Kópavogur stendur þér næst

Við erum stolt af þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Kópavogi á síðustu árum. Bæjarfélagið er fyrir vikið betur í stakk búið til að takast á við þá krefjandi tíma sem nú eru. Á þessum trausta grunni viljum við byggja bæinn okkar áfram upp.

  • Við munum áfram gæta aðhalds í rekstri bæjarins og greiða niður skuldir þegar sanngjarnt verð fæst fyrir þær lóðir sem við eigum og eru þær best staðsettu á höfuðborgarsvæðinu
  • Við stuðlum að aukinni atvinnu og framkvæmdum með ýmsum aðgerðum, t.d. með breyttu skipulagi, afnámi gatnagerðargjalda vegna stækkunar á eldra húsnæði og verkefnum í ferðaþjónustu
  • Við erum stolt af bænum okkar og bjóðum ferðamenn velkomna í lifandi landnámsbæ á Kópavogstúni og náttúruundrið Þríhnúkagíg
  • Við horfum inn á við og leggjum áherslu á að bjóða fjölskyldum upp á aðlaðandi nærumhverfi með góðum útivistarmöguleikum og heilsteyptum skóladegi
  • Við viljum nýjar áherslur, ný vinnubrögð og opnari umræðu með aukinni aðkomu íbúa

 

Fjölskyldan og nærumhverfið  í fyrirrúmi

Fjölmargar fjölskyldur hafa sest að í Kópavogi á síðustu árum vegna góðrar þjónustu, fallegs umhverfis og miðlægrar staðsetningar bæjarins. Eitt af mikilvægustu málefnum fjölskyldunnar er hvernig hlúð er að börnum í skólum og að nærumhverfið bjóði upp á ánægjulegar samverustundir. Við viljum auka samvinnu fræðslustofnana og efla fjölbreytni og þátttöku foreldra í skólastarfi. Menntun barna í Kópavogi er og á að vera framúrskarandi og samfella í skóladeginum þýðir að það er leikur að læra. Við munum áfram byggja upp grunnþjónustu eftir því sem hverfi byggjast upp, s.s. leikskóla í Austurkór og Þingum. Við viljum að umgjörð og umhverfi fjölskyldna í Kópavogi hvetji til heilsuræktar og útivistar fyrir alla aldurshópa.

  • Umhverfi fjölskyldunnar:
  • Hálsatorg verði endurskipulagt með það að markmiði að það verði hlýlegra og þar verði aðstaða fyrir m.a. kaffihús, útimarkað og ýmsa viðburði
  • Trjágróður verði aukinn í bænum og Guðmundarlundur stækkaður
  • Byggingasvæði og lóðir í nýjum hverfum verði rykbundnar með gróðri og stígagerð
  • Umferðarhraði verði lækkaður í íbúahverfum
  • Nýtt útibú bókasafns Kópavogs verði opnað í Kórahverfi
  • Settir verði upp áningarstaðir með grillaðstöðu í Fossvogs- og Kópavogsdal
  • Stígur verði lagður í kringum Elliðavatn og tengingar bættar við Heiðmörk
  • Göngustígur verði lagður í kringum kirkjugarðinn
  • Fróðleiksskiltum verði fjölgað á gönguleiðum
  • Viðkvæm náttúrusvæði verði vernduð
  • Allt heimilissorp verði flokkað
  • Hljóðvist verði bætt þar sem nauðsyn krefur
  • Komið verði upp útikennsluaðstöðu í nágrenni leik- og grunnskóla
  • Íþróttahúsin verði nýtt betur fyrir dægradvöl og leikskóla
  • Unnið verði áfram að því að færa tónlistarnám inn í húsnæði grunnskólanna
  • Vatnsendaskóla verði lokið með byggingu tónlistarstofu og samkomusalar
  • Digranesskóli verði endurbættur
  • Kennsla á framhaldsskólastigi hefjist í húsnæði Kópavogsbæjar í Kórnum

 

Frumkvæði í atvinnumálum

Það er nauðsynlegt að auka atvinnu og leita leiða til þess á sem flestum sviðum. Fjölmörg af stefnumálum okkar kalla á framkvæmdir og eru atvinnuskapandi. Þrátt fyrir að mikið hafi verið byggt af íbúðar-og atvinnuhúsnæði á suðvesturhorninu er að myndast eftirspurn eftir minni íbúðum fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Breyta þarf skipulagi í Þingum og Rjúpnahæð til að mæta þessari þörf. Allir innviðir eru þegar til staðar s.s. grunnskólar, leikskólar, íþróttamannvirki, þjónustumiðstöðvar eldri borgara, menningarstofnanir, göngustígar, opin svæði og fleira. Við eigum að sýna frumkvæði í framkvæmdum og þannig fjölga störfum í byggingariðnaði og afleiddum atvinnugreinum. Kópavogsbær á einnig að beina augum sínum að vatnsútflutningi í samstarfi við einkaaðila. Borholur eru tilbúnar við Guðmundarlund og gnægð vatns til staðar.

Festa í  fjármálum

Rekstur bæjarins hefur verið  góður og áfram þarf að sýna ábyrga fjármálastjórn og bregðast af festu við þeim viðsnúningi sem átt hefur sér stað í rekstrarumhverfi sveitarfélaga. Styrkja þarf tekjustofna bæjarins með markvissum aðgerðum í skipulags- og atvinnumálum og hlúa að starfsumhverfi fyrirtækja í Kópavogi. Skuldir bæjarins jukust vegna lóðaskila og falls krónunnar en eru þó vel viðráðanlegar. Innviðir bæjarins eru öflugir og góð þjónusta er til staðar og því munu lóðir í Kópavogi áfram verða eftirsóttar. Tekjur af lóðasölu og fjölgun íbúa munu tryggja bænum fjármagn til að greiða niður skuldir og treysta rekstur bæjarins.

 

Skipulag í sátt við íbúa

Áhersla verður lögð á að skipulag og skipulagsbreytingar séu unnar í sátt við íbúa og tekið tillit til ábendinga og athugasemda þeirra.

  • Skipulag:
    • Efnt verði til hugmyndasamkeppni um skipulag á Kársnesi
    • Gatnagerðargjald vegna stækkunar á eldra húsnæði verði fellt niður í tvö ár
    • Skipulagt verði svæði í Vatnsenda undir byggingu orlofshúsa fyrir ferðamenn
    • Gatan Hamraborg verði endurgerð
    • Höfnin verði þróuð áfram svo að útgerðir smábáta komi sér þar fyrir í ríkari mæli. Höfnin á einnig að vera heimahöfn skemmtibáta og fyrirtækja sem bjóða ferðamönnum upp á siglingu um sundin, t.d. til hvala- og fuglaskoðunar
    • Unnin verði framtíðarstefnumörkun með það að markmiði að styrkja Smáralindarsvæðið sem miðbæ höfuðborgarsvæðisins

 

  • Samgöngur:
    • Göngu- og hjólreiðabrú verði byggð yfir Fossvog
    • Tómstundabíll sem gengur á milli íþróttamannvirkja bæjarins verði tekinn í notkun
    • Unnið verði áfram að uppbyggingu göngu-, hjólreiða- og reiðstíga og tengingu þeirra við nágrannasveitarfélög
    • Lögð verði fram hjólreiðaáætlun sem miðar að því að gera reiðhjólið að raunverulegum valkosti
    • Komið verði á strætótengingu milli Vatnsendahverfis og Mjóddar
    • Komið verði á tengingu við Kóra, Hvörf og Þing með nýjum Arnarnesvegi inn á Reykjanesbraut

 

Ferðamannabærinn Kópavogur

Við ætlum að koma á ,,bæjarleið” milli miðbæjarins, Hálsatorgs, menningarstofnana bæjarins, Kópavogstúns, Kópavogsdals, sundlauganna og Smáralindar. Við viljum gera Kópavog að stað sem ferðamenn sækja.

Við ætlum að byggja landnámsbæ á Kópavogstúni og gera upp elsta steinhús bæjarins, Kópavogsbæinn. Þríhnúkagígur er dæmi um þá möguleika sem leynast í landi Kópavogs í ferðaþjónustu. Við viljum opna þetta einstaka náttúrufyrirbæri fyrir ferðamönnum. Þríhnúkagígur getur reynst mikilvægur við að efla Ísland sem ferðamannaland og styrkja atvinnuuppbyggingu.

Íþróttir og lýðheilsa fyrir alla

Öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf er eitt af aðalsmerkjum Kópavogsbæjar. Við viljum gera foreldrum kleift að draga úr ,,skutlinu”, t.d. með því að taka í notkun tómstundabíl og laga æfingatíma að leiðartímum Strætó í samvinnu við íþrótta- og æskulýðsfélögin.

Mikilvægt er að allir bæjarbúar hafi möguleika á að stunda holla hreyfingu með því m.a. að gera íþróttaaðstöðu aðgengilegri og fjölbreyttari.

  • Stuðlum að aukinni lýðheilsu almennings með því að:
    • Taka í notkun tómstundabíl sem gengur á milli íþróttamannvirkja bæjarins
    • Opna íþróttahús skólanna fyrir börn og fjölskyldur þeirra að loknum skóladegi
    • Koma upp hreystibrautum á útivistarsvæðum
    • Bjóða upp á fjölbreyttari afþreyingu í íþróttahúsunum, m.a. með klifurveggjum, borðtennis, skákborðum, píluspjöldum og lestraraðstöðu
    • Snjóframleiðsla verði hafin í skíðalöndum höfuðborgarsvæðisins
    • Reglur um endurgreiðslu vegna tómstundastarfs verði rýmkaðar
    • Setja upp upplýsingavef um göngu- og hlaupaleiðir og markverða staði í Kópavogi
    • Halda árlegan lýðheilsudag í Kópavogi
    • Reiðhjólið verði gert að raunverulegum valkosti með gerð hjólreiðastíga
    • Fjölga vatnspóstum og bekkjum meðfram göngustígum

 

Traust samfélagsnet fyrir unga sem aldna

Þeir efnahagsörðugleikar sem nú ganga yfir koma hart niður á mörgum fjölskyldum. Mikilvægt er að standa vörð um félagsþjónustu bæjarins og tryggja að hún geti mætt aukinni þörf og tekið yfir málefni fatlaðra. Við viljum áfram efla gott starf fyrir eldri borgara í bænum og gera það fjölbreyttara á þann hátt að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Í því sambandi er mikilvægt að byggja upp einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem valfrelsi er lykilatriði. Þeir sem hafa þörf á félagslegri þjónustu eiga um leið að geta mótað þá þjónustu þannig að hún nýtist sem best.

  • Heimaþjónusta og heimahjúkrun aldraðra verði sameinuð
  • Uppbyggingu verði haldið áfram í Boðaþingi með byggingu 44 nýrra hjúkrunarrýma
  • Unnið verði áfram að stækkun hjúkrunarheimilis og fjölgun þjónustuíbúða í Sunnuhlíð
  • Úrræðum í félagslega húsnæðiskerfinu verði fjölgað
  • Heimaþjónusta verði efld og fjölbreytileiki og sveigjanleiki hennar aukinn
  • Kynslóðabilið verði brúað með því að tengja saman félagsstarf aldraðra við skólastarf í leik- og grunnskóla
  • Sambýli fyrir geðfatlaða verði byggt á Rjúpnahæð