Sterkar stoðir

458

Ég er tuttugu ára gamall og tiltölulega ungur að því leytinu til, en hef samt gengið í gegnum einhverjar ótrúlegustu framfarir mannkynssögunnar. Fyrir 10 árum síðan könnuðust fáir við snjallsíma, en í dag á meirihluti þjóðarinnar slík tæki. Þróunin er hröð og við sjáum nýjar uppgötvanir daglega.

„Þekking manna mun aukast hröðum skrefum og uppgötvanir verða gerðar sem við höfum nú enga hugmynd um. Það hryggir mig næstum að hafa fæðst of snemma þar sem mér veitist ekki sú hamingja að vita það sem við munum vita eftir 100 ár.“ Þetta sagði Benjamin Franklin árið 1783. Þessi orð Benjamins eiga jafn vel við þá og þau eiga við í dag.

Við lifum á tímum framfara, þar sem við eigum erfitt með að halda í við hraða tækniþróunarinnar. Sú iðnbylting og þær tækniframfarir sem við erum að ganga í gegnum munu að öllum líkindum stigvaxa og því mikilvægt að bregðast við þeim vanköntum sem kunna að fylgja þróuninni. Þessum vanköntum verðum við að mæta með breyttu hugarfari og vönduðum lausnum. Þeir vankantar sem meðal annars hafa komið upp eru geðræn vandamál, tölvufíkn og vanlíðan ungmenna.

Ég sé fyrir mér að við getum slökkt á eldinum, áður en hann verður að ösku. Þetta er meðal annars hægt með „snemmtækri íhlutun“. Markmiðið er þá að koma í veg fyrir stærri vanda, með því að grípa inn snemma í ferlinu. Ef við skoðum einstaklinginn þá hefur hann áhrif á umhverfið og umhverfið á einstaklinginn. Með snemmtækri íhlutun horfum við til þeirra þátta sem móta einstaklinginn, eins og fjölskylduna og heimilið, skólann og vini, lög, reglur og gildi samfélagsins.

Kópavogsbær mun nú leggja aukna áherslu á snemmtæka íhlutun í grunnskólum bæjarins, þar sem hegðun og samskipti barna verða meðal annars í fyrirrúmi. Sálfræðiþjónusta verður aðgengileg fyrir þá sem þurfa. Boðið verður upp á námskeið, fræðslu og sérfræðiráðgjöf fyrir kennara og stjórnendur, svo fyrr megi takast á við vanda nemenda með geðrænan vanda, vanlíðan, erfiða hegðun og neikvætt viðhorf til skólastarfs. Einnig verður boðið upp á námskeið þar sem frætt verður foreldra og börn um kvíða og styrkingu sjálfsmyndar.

Við sem samfélag þurfum að halda áfram að aðlaga okkur að nýrri tækni og breyttu samfélagi. Saman getum við unnið að betra samfélagi, þar sem þeir sem koma að mótun einstaklingsins, vinna í sameiningu að því að hjálpa þeim sem eiga erfiðara með að fóta sig, því öll viljum vera besta útgáfan af okkur sjálfum.

Davíð Snær Jónsson, formaður TÝS, félag ungra Sjálfstæðismanna í Kópavogi