Stöndum með þeim sem standa með Kópavogi

497

Bæjarráð Kópavogs hafnaði nýverið beiðni Sigrúnar Ágústu Bragadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar um að greiða 595 þúsund króna sakarkostnað sem hún varð fyrir vegna starfa sinna fyrir lífeyrissjóðinn.

Með skjótum viðbrögðum í samráði við stjórn lánaðist Sigrúnu að koma í skjól hundruðum milljóna af fjármunum lífeyrissjóðsins sem ella hefðu tapast í hruninu eins og raunin varð hjá öðrum sjóðum. Tap sem hefði á endanum lent á bæjarsjóði. Það eru mörg þúsund krónur á hvern bæjarbúa, sennilega á bilinu 10.000-20.000 krónur.

595 þúsund krónur eru minna en 20 krónur á hvern bæjarbúa. Ekki laun eða þakklætisvottur til Sigrúnar, hefði Kópavogsbær greitt þann kostnað, heldur til að firra hana frekari fjárhagslegum skaða vegna málsins til viðbótar við starfsmissi.

Málið snerist ekki um hvort Kópavogi bar lagaleg skylda til að bæta Sigrúnu tjónið og því óþarfi að leita til bæjarlögmanns. Þetta var einföld siðferðileg spurning um hvort bærinn vildi standa með fyrrverandi starfsmanni sem lagði allt undir til að gæta hagsmuna fólksins í Kópavogi. Jafn einföld og ákvörðun um að styrkja kór eða íþróttafólk.

Þarna var einstaklingur sem sat uppi með Svarta Pétur. Sennilega fórnaði Sigrún starfsferli sínum af því að hún hirti ekki um að passa rassinn á sjálfri sér á örlagastundu heldur stóð með Kópavogi. Bæjarráð Kópavogs stóð ekki með henni. Mér var ekki skemmt.

Samkeppni samkeppninnar vegna?
Annað mál þar sem hagsmunum þúsunda Kópavogsbúa kann að verða fórnað á altari reglugerða er yfirvofandi útboð á aðstöðu fyrir líkamsræktarstöðvar í sundlaugum Kópavogs. Það er sú aðstaða sem Kópavogsbæ er skylt samkvæmt úrskurði Samkeppnisstofnunar að bjóða öllum jafnan aðgang að í framhaldi af kæru samkeppnisaðila.

Gott og vel. Ef einhver aðili er tilbúinn til að taka við þessum rekstri með tilheyrandi fjárfestingum og bjóða Kópavogsbúum sama verð fyrir þjónustuna og Kópavogsbæ hærra verð fyrir aðstöðuna þá er tilganginum náð, betri díll fyrir Kópavog. Þá yrðu núverandi rekstraraðilar að játa sig sigraða og ekkert við því að segja.

Ef hins vegar niðurstaðan verður sú að Kópavogsbær fái eitthvað hærra verð fyrir aðstöðuna en þær þúsundir Kópavogsbúa sem nýta sér þjónustuna mun hærra verð fyrir árskort sín verður mér ekki skemmt. Né heldur þeim þúsundum sem nýta sér þessa aðstöðu í dag. Margir þeirra munu sjálfsagt ekki kaupa þessa þjónustu ef hún hækkar að ráði. Í dag munar Kópavogsbúum um 10.000-20.000 krónur, sem er reyndar svipuð upphæð og Sigrún Ágústa Bragadóttir sparaði okkur hverju og einu.

Minn skilningur á samkeppni er sá að hún eigi rétt á sér til þess að tryggja neytendum bestu mögulegu kjör. Sé einhver vafi á því eigum við hiklaust að taka slaginn fólkinu okkar til hagsbóta.

Áhersla á gæði og hagkvæmni
Þriðja málið eru úthlutunarreglur á lóðum. Þeim var áður úthlutað af stjórnendum bæjarins en nú er dregið um allar lóðir. Báðar aðferðirnar hafa sína kosti og galla en aðalatrið er að aðferðin sem notuð er skili hámarks gæðum og hagkvæmni fyrir Kópavogsbúa.

Hagsmunir samfélagsins eiga að ganga fyrir þarna eins og annars staðar. Tilviljanakenndur úrdráttur á ekki endilega að ráða hver fær úthlutun frekar en hagsmunir einstakra byggingaraðila. Víða tíðkast við útboð að verð sé ekki eini þátturinn sem ræður niðurstöðunni heldur eru gefnar einkunnir fyrir ýmsa aðra þætti. Mætti ekki beita slíkum leiðum til að tryggja hámarks árangur við uppbyggingu Kópavogs?

Eiga þeir sem eru tilbúnir að taka sjensinn með okkur þegar illa árar ekki að fá plús í kladdann? Eða þeir sem alltaf skila topp vinnubrögðum? Aðilar sem eru tilbúnir að aðlaga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma, t.d. eins og nú þegar þörf er á íbúðum fyrir ungt fólk en hugsanlega er hagkvæmara að byggja fyrir aðra markhópa? Þeir sem eru tilbúnir að standa með Kópavogi?

Til að laða það besta fram hjá fólki jafnt sem fyrirtækjum þurfa allir að geta treyst því að njóta sanngirni af hálfu bæjaryfirvalda í hita leiks til hagsbóta fyrir Kópavogsbúa.

Skilaboðin eiga að vera skír. Kópavogur stendur með þeim sem standa með Kópavogi.

Jóhann Ísberg
Varabæjarfulltrúi
www.facebook.com/joiisberg