Það er snjallt að vera í fremstu röð

457

Árið 2022 verður næst gengið til sveitarstjórnarkosninga á eftir kosningunum núna á laugardaginn. Það er því mikið í húfi enda bíða okkar mörg stór verkefni á komandi kjörtímabili. Íbúafjöldi bæjarins fer yfir 40 þúsund íbúa, útfærsla á borgarlínunni verður á dagskrá og stefnumótun Kópavogs til framtíðar. Sveitarfélagið hefur tæplega tvöfaldast að stærð frá aldamótum og er nú komið að því að horfa meira inn á við.

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi hefur sett fram skýra stefnu til framtíðar. Samhliða íbúafjölgun í bænum eykst allt flækjustig í þjónustu og ætlum við þess vegna að taka stjórnsýsluna til heildstæðrar endurskoðunar og rafvæða þjónustuna til þess að mæta nútímakröfum íbúa bæjarins. Við viljum að íbúar geti sótt sér alla þjónustu, upplýsingar eða komið ábendingum á framfæri til bæjarins með einföldum hætti þannig að stjórnsýslan verði skilvirk og bæði bæjarbúar og bæjarstarfsmenn hafa meiri og betri aðgang að upplýsingum en nú þekkist.

Snjallari skólar
Í upphafi þessa kjörtímabils innleiddum við spjaldtölvur í kennslu í öllum grunnskólum bæjarins, fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi. Þetta var eitt af helstu kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar, og nú einu kjörtímabili síðar er árangurinn að koma í ljós. Mikil tækifæri liggja í þessari nýju kennslutækni og eru spjaldtölvurnar komnar til að vera. Á næsta kjörtímabili ætlum við að bæta um betur, nýta sýndaveruleikatækni í grunnskólunum til að opna nýjar víddir í skólastarfi og kaupa þrívíddarprentara í alla skóla bæjarins. Notkunarmöguleikar slíkrar tækni eru endalausir í skólastarfi. Þá ætlum við að kenna öllum grunnskólanemendum grunnfærni í forritun og bjóða upp á valfög á því sviði. Grunnskólanemendur í Kópavogi eiga að vera þeir snjöllustu á Íslandi.

Snjöll heimaþjónusta
Kópavogur er þegar orðinn snjall þegar kemur að heimaþjónustu fyrir eldri borgara. Með rafrænni lausn skráir starfsfólk í heimaþjónustunni sig með því að  bera símana upp að heimilisauðkenni. Það skráir hvenær er mætt í heimaþjónustuna og hvað er gert í hvert skipti. Í framhaldinu geta aðstandendur fengið upplýsingar í símann sinn og fylgst þannig með því að rétt þjónusta sé veitt inn á heimilum þeirra sem hennar eiga að njóta. Með þessari tækni veður heimaþjónustan markvissari og betri.

Snjallari ljósastaurar
Nýjasta gerð snjallra ljósastaura sparar allt að 80 prósent á við þá orku sem þarf til að knýja hefðbundnu ljósastaurana sem við nýtum í dag. Snjallari ljósastaurar eru búnir skynjurum sem nema hreyfingu þannig að þeir slökkva á sér þegar enginn er á ferli en kveikja á sér þegar vegfarendur eiga leið um. Aukin lífsgæði fylgja snjallvæðingu ljósastauranna þar sem ljósmengun af þeirra völdum er oft mikið eða spillir útsýni. Hægt er að stýra birtustigi á hverjum staur og þannig má auðveldlega koma til móts við óskir íbúanna um birtustig.

Snjallari sophirða
Góð og regluleg sorphirða er mikilvæg í þjónustu við íbúa. Með snjallari sorphirðu má bæta þjónustuna með skilvirkum hætti, þar sem sorptunnur við íbúðarhús, stofnanir og göngustíga eru útbúnar skynjurum sem gefa frá sér merki þegar tímabært er að tæma þær. Sveitarfélög  víða um heim eru byrjuð á þessari vegferð, m.a. í Bristol í Englandi þar sem verkefnið lofar mjög góðu.

Snjallir árangursmælikvarðar
Kópavogsbær hefur fyrst sveitarfélaga á Norðurlöndunum innleitt mælikvarða sem taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.  Mælikvarðarnir mæla einstaka þjónustuþætti bæjarins frá einum tíma til annars. Þeir styðja við það að bærinn nái þeim markmiðum sem sett hafa verið í ólíkum málaflokkun. Með þessum vinnubrögðum er hægt með áþreifanlegum hætti að tryggja betri þjónustu við íbúana um leið nýting fjármagns verður enn markvissari.

Andri Steinn Hilmarson
Háskólanemi og blaðamaður

Skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi