Þegar út af bregður – úrræði á vegum skólaþjónustu Kópavogsbæjar

501

Grein eftir Margréti Friðriksdóttur forseta bæjarstjórnar Kópavogs og formann menntaráðs

Það er almenn skoðun á öllum stigum menntakerfisins að sú stefna sem rekin er í menntamálum þjóðarinnar undir yfirskriftinni „Menntun fyrir alla“ eða „Menntun án aðgreiningar“ feli í sér leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun. Undir heimsmarkmiði nr. 4 „Menntun fyrir alla“ er
lögð áhersla á að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.

Menntun án aðgreiningar
Það verður hins vegar að játast að þeir sem starfa í skólasamfélaginu eru ekki á eitt sáttir um hvað menntun án aðgreiningar þýðir. Snýst það um þarfir hvers og eins barns, að hvert barn fái sitt námsefni, sína sérstöku stundaskrá og einstaklingsbundna kennslu eða snýst það um að kenna sérstaklega nemendum sem greindir hafa verið með sérþarfir í námi. Ljóst má vera að það yrði óvinnandi verkefni að kenna öllum nemendum einstaklingslega og því hafa sveitarfélög og skólar leitast við að koma til móts við þarfir sem flestra með fjölbreyttri þjónustu eftir því
hvert úrlausnarefnið er. Kópavogsbær stendur framarlega í að bjóða fjölbreytta þjónustu til nemenda og foreldra þegar sérstakra úrlausna er þörf.
Skólaþjónusta grunnskóla Kópavogs mótast af heildarsýn á hagsmunum og aðstæðum barna og unglinga, ásamt virku samstarfi við foreldra. Hér á eftir verður stiklað á stóru í þjónustu bæjarins á þessu sviði.

Kennsluráðgjöf – iðjuþjálfun – sálfræðiþjónusta – talkennsla
Boðið er upp á kennsluráðgjöf en kennsluráðgjafar vinna að stuðningi við starfsfólk skóla, ráðgjöf vegna kennslu og náms einstakra nemenda og ráðgjöf vegna starfshátta, starfsumhverfis og þróunarstarfa. Á síðasta skólaári unnu kennsluráðgjafar með mál 16 einstaklinga, 15 bekkjardeilda og 18 teymishópa. Þá starfar sérfræðiþjónustufulltrúi á vegum skólaþjónustu Kópavogs en starf hans lítur að ráðgjöf við nemendur með sérþarfir sem
eru m.a. í sérdeildum og námsverum skólanna, ásamt ráðgjöf og stuðningi við foreldra, kennara og skólastjóra. Iðjuþjálfi tekur að sér verkefni frá öllum grunnskólum bæjarins og felst hlutverk hans m.a. í mati á færni nemenda við skólatengda iðju s.s. skriftarörðugleika, einbeitingu, hegðun, þátttöku í námi og viðkvæmni fyrir áreitum. Alls 22 einstaklingar nutu þjónustu iðjuþjálfa á síðasta skólaári. Sálfræðingar starfa við grunnskóla
Kópavogs og eru hluti af skólaþjónustu bæjarins. Þeir eru með starfsstöðvar í viðkomandi skólum. Sálfræðingar bregðast við námslegum, félagslegum og sálrænum vanda nemenda í samvinnu við starfsfólk skólanna og foreldra. Á skólaárinu 2018-2019 bárust 512 beiðnir til sálfræðinga skólanna. Talmeinafræðingar eru hluti af skólaþjónustu grunnskóla Kópavogs og hafa þeir aðsetur í skólum bæjarins. Þeir annast athuganir og greiningar vegna ýmissa málþroska og framburðarfrávika nemenda. Á síðasta skólaári fengu 322 nemendur aðstoð en í mörgum tilvikum var um væg frávik að ræða sem leiðréttust eftir nokkur skipti.

Sérdeildir og námsver
Í Snælandsskóla er rekin Smiðja sem er sérdeild sem veitir nemendum í 8.-10. bekk sem eru með skilgreindar sérþarfir nám við hæfi. Í Smiðju geta verið nemar frá öllum grunnskólum bæjarins. Í Kópavogsskóla er námsver fyrir nemendur i 5.-10. bekk sem eru með þroskafrávik eða annan fjölþættan námsvanda. Nemar koma úr öllum grunnskólum bæjarins. Í Álfhólsskóla er sérdeild fyrir nemendur með einhverfu, ásamt skilgreindum sérþörfum. Nemendur fá nám við hæfi skv. einstaklingsnámskrá. Sama má segja um sérdeild fyrir nemendur í Salaskóla. Þá ber að nefna Tröð sem er skammtíma skólaúrræði fyrir grunnskólanema sem þurfa á tímabundinni breytingu á skólagöngu að halda s.s. vegna námsvanda, samskipta eða vanlíðunar.

Klókir krakkar og Haltu kúlinu
Þá hefur skólaþjónusta Kópavogs boðið upp á námskeið fyrir börn og foreldra en Klókir Krakkar og Haltu kúlinu eru meðferðarúrræði sem þróað er hjá áströlsku rannsóknarmiðstöðinni MUARU. Markmið námskeiðanna er að þjálfa börn í að takast á við kvíða svo hann trufli sem minnst í daglegu lífi. Einnig að foreldrar öðlist þekkingu og færni til að styðja við barnið sitt. Skólaþjónusta Kópavogs er öflug og tekur af fremsta megni á ef eitthvað út af bregður á námsferli nemenda.