Þétting byggðar – Enn betri byggð

445

Kópavogur hefur þanist út síðasta áratuginn. Aukin dreifing byggðar kallar á aukna umferð, minni hagkvæmni í rekstri og dreifðari þjónustu í íbúðarhverfum, svo eitthvað sé nefnt. Nýlega hefur verið samþykkt nýtt aðalskipulag fyrir Kópavog til 2024, en aðalskipulag  er skipulagsáætlun þar sem fram kemur stefna bæjaryfirvalda um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar til ársins 2024.

Það er fagnaðarefni að  gert er ráð fyrir þéttingu byggðar og þróunarsvæðum í nýju aðalskipulagi enda möguleikar okkar í Kópavogi  til þess að gera bæinn fallegri og  heilsteyptari miklir.  Miðað við að íbúafjölgun í Kópavogi hefur verið um 3% árlega sl. ár má gera ráð fyrir að Kópavogsbúar verði  37.000-40.000 í lok skipulagstímabilsins. Það er því mikil áskorun að vanda til verka  og tryggja að skipulag, hönnun og umhverfi verði með þeim hætt að fólki líki vel og sækist eftir að búa á þessum svæðum.

Við Kópavogshöfn er gert ráð fyrir breyttri landnýtingu þar sem vannýtt athafnarhúsnæði mun víkja fyrir fallegri íbúðarbyggð. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er gert ráð fyrir að Kópavogshöfn verði „yndishöfn“ þar sem íbúðabyggð, þjónusta og fjölbreytt mannlíf nær að blómstra. Liður í þessum áformum er að liðka fyrir umferð með bættum vegtengingum og að byggja brú yfir Fossvog fyrir gangandi og hjólandi umferð. Þá liggur fyrir deiliskipulag um bryggjuhverfi við Fossvog. Á Kópavogstúni hefur tekist með miklum ágætum að þétta byggð og sama má segja með Lundarsvæðið. Þetta eru eftirsóknarverð íbúðarsvæði sem bjóða upp á fjölbreytta möguleika til útivistar, þar sem stutt er í þjónustu, menningu og listir auk frábærrar staðsetningar í miðju höfuðborgarsvæðisins.

Í miðju Kópavogs eru Glaðheimasvæðið og Smárinn en gert er ráð fyrir blandaðri byggð á báðum þessum svæðum með um 500 íbúðum á hvoru um sig. Gert er ráð fyrir að uppbygging á Glaðheimasvæðinu hefjist þegar á þessu ári. Mikilvægt er að skipulag stuðli að byggingu minni og ódýrari íbúða sem komi til móts við þá miklu þörf sem nú er fyrir slíkt húsnæði.

Það er hagkvæmt að þétta byggð með því móti nýtum við best innviði og mannvirki bæjarins  og einnig þá þjónustu sem í boði er. Vissulega þarf að nýta með nærgætni slík svæði  og tryggja að tillit sé tekið til umhverfis, náttúru og þeirra sem fyrir búa á svæðinu. Með því að takmarka útþenslu bæjarins erum við að auka lífsgæði og búa til betri byggð í Kópavogi.

Margrét Friðriksdóttir
skólameistari MK
skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins