Þjóðin brást stjórnarskránni en ekki öfugt.

400

Alþingi ályktaði 24. maí 2012 að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá Íslands. Með atkvæðagreiðslunni er verið að leita eftir afstöðu þjóðarinnar til þess hvort Alþingi eigi að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, auk afstöðu til fimm tilgreindra spurninga er varða tillögurnar.

Að mínum dómi var það ekki stjórnarskráin sem brást íslenska samfélaginu í hruninu heldur var það samfélagið sem brást henni og sýndi ekki grunngildum stjórnskipulagsins þann trúnað sem nauðsynlegur er. Auk þess tel ég það óráð að breyta stjórnarskrá Íslands á óvissutímum og tel að slíkt verði að gera með afar yfirveguðum og vönduðum hætti, eins og t.d. þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður 1995 og ákvæði hans færð til nútímalegra horfs, en auk þess hafa margar breytingar verið gerðar á henni frá því árið 1944 þegar íslenska þjóðin samþykkti hana í þjóðaratkvæðagreiðslu með 95% atkvæða.

Stjórnskipuleg óvissuferð

Máli mínu til stuðnings langar mig fyrst að vitna í grein Skúla Magnússonar á visir.is 25. febrúar árið 2009 þar sem hann segir réttilega að breytingar á stjórnarská Íslands við núverandi aðstæður væru stjórnskipuleg óvissuferð, en ég tel Skúla hér gera afar góða greiningu á stöðu mála.

,,Er það sanngjörn niðurstaða að stjórnarskráin hafi brugðist íslensku samfélagi í meginatriðum og það hljóti að vera óhjákvæmilegur þáttur í viðreisn Íslands að byrja hér upp á nýtt? Eða hefur okkur hugsanlega mistekist að sýna núgildandi stjórnarskrá nægilega hollustu og ræktarsemi? Hér verður því haldið fram að án skilnings og trúnaðar við grunngildi stjórnskipunarinnar sé hætt við að ný stjórnarskrá fögur ásýndar verði létt á metunum og þegar frá líði geti sótt í gamalt far. Yfirvegaðar breytingar á afmörkuðum atriðum stjórnarskrárinnar eru af hinu góða og það eru vissulega atriði í íslenskri stjórnskipun sem þarf að koma til betri vegar. Öðru máli gegnir um stjórnskipulega óvissuferð á umbrotatímum sem kann að lykta með því að stjórnarskránni verði í heild sinni varpað fyrir róða með ófyrirséðum afleiðingum.“

Hættulegir ágallar

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hafa ýmis ákvæði núgildandi stjórnarskrár verið tekin upp og orðalagi þeirra breytt. Má þar nefna atriði mannréttindakaflans, þótt þau séu tiltölulega ný af nálinni eins og fyrr segir. Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í stjórnarskrám ríkja, hefur bent á þennan ágalla á tillögunum. Þannig sagði hann í viðtali við Viðskiptablaðið 31. desember 2011 að einungis smávægilegar orðalagsbreytingar geti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér og geti t.d. í tilviki mannréttindaákvæðanna leitt til þess að dómstólar skýri ákvæðin á annan veg en áður . Og þá er ekki átt við breytingar í átt til ríkari mannréttindaverndar, heldur bætir Hafsteinn við að í tillögum stjórnlagaráðs „kunni að felast breyting á eðli stjórnarskrárinnar á þann hátt að hún veiti hinu opinbera minna aðhald”.

Ég tel alltof marga ágalla vera á fyrirliggjandi tillögur stjórnlagaráðs og mun segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni laugardaginn 20. október n.k

Grein birtist í Morgunblaðinu 13. október 2013