Tilraunir til lausna í stað marklausra loforða.

404

Kosningar sem nú fara í hönd snúast að miklu leyti um vandamál í kjölfar hruns fjármálakerfisins og skal engan undra.. Síðustu 4 ár hafa snúist um þetta efni og úrlausn er ekki enn fengin hjá öllum. Eftir dóma í gengislánamálum og niðurfærslur í „110% leið“ standa eftir vandmál framtíðarinnar; hvernig á að borga þegar stundarlausnin er fengin? Einn flokkur hefur sérstaklega gengið djarfur fram með mögnuð kosningaloforð á innistæðu. Ber að gjalda varhug við slíku.

Vandi heimilanna sem tengjast fjármálum er alls ekki nýr af nálinni. Þessi vandi stigmagnaðist frá 1980 til 2008 án þess að nokkur hefði áhyggjur.

Skattaleið

Sjálfstæðisflokkurinn vill nota skattaleiðina til að vinna úr ógöngum þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Lausnin byggist á því að þeir sem eiga í greiðsluerfiðleikum geti notað framlag í séreignasparnað til að greiða afborganir og vexti af lánum. Þetta er lausn fyrir þá sem eiga í erfiðleikum við að eiga fyrir afborgun og vöxtum en sjá fram úr erfiðleikunum og stendur þeim sem það vilja til boða.

  • Ávinningurinn af þessari leið er sá að greiðandi fær „séreignaframlagið“ skattfrjálst með þessari leið í stað þess að greiðs skatt af séreignasparnaði þegar hann kemur til útborgunar.
  • Vissulega dregur þessi lausn úr lífeyristekjum síðar á ævinni fyrir það sem hafa valið séreignasparnað, en einhverju má fórna fyrir farsæla lausn.

Að auki leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að veittur verði sérstakur frádráttur frá tekjum, sem nemur 40 þúsund á mánuði  til að greiða beint inn á höfðuðstól til lækkunar lána. Ætlunin er að þetta standi öllum til boða.

  • Til samans lækka þessar aðgerðir höfuðstól láns um 10 % á 5 árum, miðað við 3,5% verðbólgu og 20 milljóna króna fasteignalán, en það er meðalskuld hjóna með fasteignalán. Vextir eru 4,7% í þessu dæmi.

 

Húsnæðissparnaður

Þessu til viðbótar vill Sjálfstæðisflokkurinn gera ungu fólki mögulegt að setja á stofn húsnæðissparnaðarreikninga til að fólk eigi höfuðstól þegar keypt er þak yfir höfuðið. Þetta var hægt 1983 og þetta er hægt í dag. Tillögur Sjálfstæðisflokksins gera ráð fyrir svipuðum fjárhæðum á húsnæðissparnaðarreikninga eins og skattafrádrætti vegna greiðslna af fasteignalánum sem rakin eru hér að framan.

Aðgerðir af þessum toga koma fyrst og fremst við ríkissjóð í framtíðinni, en við sem erum í framboði teljum að það sé til vinnandi til að komast úr tímabundnum erfiðleikum með þessari leið án þess að of miklu sé fórnað. Með framlagi á húsnæðissparnaðarreikninga er verið að vinna að varanlegri lausn; að hverfa frá skuldaraleiðinni, að því að eiga fyrir fyrstu útborgun.

Leiðir til lausnar á greiðsluvanda með framlagi af himnum ofan eins og sumir flokkar benda á eru ekki í boði en geta í versta falli leitt til verulegra skattahækkana eða það sem verra er; kollsteypu og óðaverðbólgu.

Til hvers voru þá refirnir skornir?