fbpx

Tinna Rán Sverrisdóttir

Lögfræðingur

Býður sig fram í 4. sæti

Tinna Rán heiti ég og gef kost á mér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Ég er 24 ára gömul og Kópavogsbúi í húð og hár. Langamma mín og langafi minn heitin fluttu í Kópavoginn um 1946, voru þar frumbyggjar og ráku stórt hænsnabú á sunnanverðu Kársnesinu. Þau eignuðust 15 börn og býr stór partur fjölskyldunnar enn í Kópavoginum, enda gott að búa í Kópavogi!.

Ég er lögfræðingur að mennt og þessa dagana er ég að bæta við mig réttindum til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Allt frá mínum grunnskólaárum og í gegnum alla mína háskólagöngu hef ég tekið virkan þátt í félagslífinu og kynningar- og nefndarstörfum. Þar að auki hef ég sinnt hinum ýmsu sjálfboðaliðastörfum. Ég lýsi sjálfri mér sem sveigjanlegri og drífandi manneskju sem er mjög jákvæð að eðlisfari. Jafnframt tek ég nýjum áskorunum ávallt með opnum örmum. Ég hef metnaðinn og getuna til að takast á við verkefni næsta kjörtímabils.

Mennta-, íþrótta-, og tómstundarmál eru mér afar hugleikin og allir eiga að geta sinnt því óháð fjölskylduhag og fjárhag. Leik- og grunnskólar bæjarins eiga að veita öllum börnum þá aðstoð sem þau þurfa á að halda og þau eiga öll skilið að fá að blómstra á sínu áhugasviði. Við höfum gert vel en alltaf má gera gott betur. Enginn Kópavogsbúi á að þurfa sækja vatnið yfir lækinn þegar kemur að grunnþjónustu. Ég vil að Kópavogsbær sé heillandi ungum fjölskyldum til framtíðarbúsetu. Skortur á húsnæði á viðráðanlegu verði er mikill, sem gerir einkum ungu fólki erfitt fyrir að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði og hef ég sjálf þurft að reka mig á það. Unga fólkið er framtíðin og ég tel mig búa að þeirri reynslu og þekkingu til að vera rödd þess hóps sem og annarra kjósenda. Kominn er tími á nýjar og ferskar hugmyndir, en á sama tíma sé haldið áfram að styrkja grunnstoðir bæjarins til að gera Kópavog að enn betri stað til að búa á.

tinnaran@gmail.com

Kynningarmyndband