Töfralausnir á uppboðsmarkaði stjórnmálanna

409

Í aðdraganda kosninga freistast margir, sem sækjast eftir stuðningi kjósenda, til að gefa loforð sem þeir hafa enga hugmynd um hvort, hvernig og þá hvenær þeir geta efnt. Stjórnmálamenn sem láta undan freistingunni vekja væntingar og vonir hjá mörgum sem vilja trúa og treysta, enda úrkula vonar eftir liðlega fjögurra ára stjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna.

Að loknum kosningum verður þolinmæði margra kjósenda takmörkuð. Þeir munu krefjast þess að staðið verði við gefin fyrirheit. Ekki eftir fjögur ár, ekki eftir tvö ár, heldur innan nokkurra mánaða. Í rúm fjögur ár hafa þúsundir einstaklinga beðið eftir aðgerðum sem lofað var undir kjörorðinu „Skjaldborg um heimilin“. Sú skjaldborg var aldrei reist, en fjármálakerfinu var pakkað inn í bómull og fjármunum skattgreiðenda sóað í að ríkisvæða tap tryggingafélaga og lánastofnana. Allt í nafni norrænnar velferðar.

Sáttmáli þjóðar
Í september síðastliðnum hélt ég því fram hér í Morgunblaðinu að ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum ætti að gefa út þá yfirlýsingu að tími uppboðsstjórnmála væri liðinn. Meginverkefnið sé að standa við sáttmála þjóðar með því að tryggja;
• að börn og unglingar njóti góðrar menntunar
• öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn
• að þeir sem minna mega sín fái aðstoð til sjálfshjálpar
• mannlega reisn okkar allra
• öfluga löggæslu og varnir landsins
• að búið sé í haginn fyrir framtíðina líkt og foreldrar okkar, afar og ömmur gerðu fyrir okkur.
Í aðdraganda þessara kosninga hefur lítið farið fyrir umræðu um hvernig best verður staðið við þennan sáttmála sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hefur sameinast um. Þess í stað beinist athyglin og umræðan að loforðum sem enginn veit hvort hægt verður að standa við.

Jarðvegurinn er frjór fyrir stjórnmálamenn sem lofa peningum sem ekki eru í hendi (og verða kannski aldrei) eða teikna upp sérstakan skuldasjóð innan veggja Seðlabankans sem á að láta stóran hluta skulda hverfa líkt og dögg fyrir sólu, án þess að nokkur borgi. Á uppboðsmarkaði stjórnmálanna er boðið upp á töfralausnir.

Raunhæfar lausnir strax
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar og skynsamar lausnir á skuldavanda heimilanna um leið og stefnan í atvinnumálum hefur verið mörkuð. En allt hangir saman: Fjárhagslegt sjálfstæði heimilanna, öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, sterkt velferðarkerfi, jöfnuður í ríkisfjármálum og stöðugleiki.

Að baki tillögum Sjálfstæðisflokksins liggur sú sannfæring að skuldavandi heimilanna verði ekki leystur nema með skilvirkum úrræðum, samhliða uppbyggingu atvinnulífsins. Því miður virðist það vera svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini stjórnmálaflokkurinn sem áttar sig á að allar þær aðgerðir sem gripið verður til og miða að því að leiðrétta og styrkja stöðu heimilanna verða að engu ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Markmiðið er að fjölga tækifærum og störfum og hækka launin. Þetta og lækkun skatta er forsenda þess að kaupmáttur heimilanna aukist.

Með afslætti af tekjuskatti og skattfrelsi séreignasparnaðar, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn leggur til, mun höfuðstóll íbúðalána lækka verulega á komandi árum um leið og greiðslubyrðin léttist. Með sama hætti er litið til framtíðar með því að gera fólki kleift að spara með skattafslætti til að byggja upp eigið fé áður en ráðist er í íbúðakaup.

En það þarf að gera fleira.

Úr bómullinni
Til að styrkja stöðu lántakenda verða stjórnvöld að búa svo um hnútana að raunveruleg samkeppni ríki á lánamarkaði – það þarf að taka fjármálakerfið úr bómull vinstriflokkanna.
Afnám stimpilgjalda er ein forsenda þess að samkeppni komist á og það gert auðveldara og ódýrara að flytja viðskipti milli lánastofnana. Virk samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa leiðir til lægri vaxta og neyðir lánastofnanir til hófsemdar í gjaldtöku. Samningsstaða þeirra sem berjast við óyfirstíganlegar skuldir gjörbreytist gagnvart lánastofnunum ef „lyklalög“ verða sett eins og Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt. Samhliða verður að endurskoða samsetningu vísitölu neysluverðs.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að tryggja að framtíðarskipan húsnæðis- og neytendalána taki mið af ríkjandi neytendaverndarreglum EES.

Kjósendur þurfa ekki að spyrja sig hvenær hægt verður að hrinda hugmyndum Sjálfstæðisflokksins í framkvæmd. Svarið er; strax á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar, fái sjálfstæðismenn til þess þingstyrk. Fyrir fjölskyldurnar eru tillögurnar ekki líkt og fuglar í skógi – þær geta verið í hendi í lok kjördags.