Ungt fólk í forgang

461

Þroski og hæfni segja meira en ártal.

Menntamál á Íslandi valda sjaldnast pólitískum deilum og eru lítt til umræðu á þeim vettvangi, enda viljum við að sátt ríki um þennan málaflokk. Það má þó ekki vera þannig að áhugi þeirra sem eru í forystusveit stjórnmálanna hverju sinni beinist ekki að menntamálum og starfið líði fyrir það. Forgangsröðun er verkfæri sem stjórnmálamenn veigra sér við að nota en nú er kominn tími til að forgangsraða í þágu menntunar, í þágu barnanna okkar.

Íslendingar breyta ört um stefnu í skólamálum á meðan flestar þjóðir horfa til þróunar. Það eru hins vegar gömul sannindi og ný að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfi nema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda. Það má lagfæra menntastefnu, skipulag, námsgögn og skólabyggingar en ef breytingum er ekki fylgt eftir í skólunum skila þær ekki árangri. Samvinna er því lykilorð ef breytingar eiga að nást í menntamálum, samvinna fólksins í skólunum og þeirra sem setja stefnuna og ákveða fjárveitingar.

Í Kópavogi eru reknir góðir leik- og grunnskólar en ætíð er hægt að gera betur, ef svigrún er skapað til þess. Við skulum hafa það í huga að um sjötíu prósent af tekjum bæjarsjóðs Kópavogs fara í skóla-, tómstunda- og íþróttamál. Öflugt sveitarfélag eins og Kópavogur á að setja sér stefnu í skólamálum þar sem tveir til fjórir þættir eru teknir út árlega og að þeim unnið af einurð í ákveðinn tíma. Slík stefna á að byggja á grunnþáttum náms eins og þeir birtast í nýjum aðalnámskrám.

Þá þarf að leggja áherslu á faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði skólanna. Fjármagn til hvers skóla er reiknað út miðað við nemendafjölda og það er síðan endanlega á ábyrgð skólastjóra hvernig fjármununum er varið. Starfsmenn skólanna eru sérfræðingar og eru best til þess fallnir að stýra faglega starfinu ef stefnan er skýr og verkfærin sem þeir fá í hendurnar duga til að mæta þörfum nemendanna. Stefnan frá 2008 gengur út á skóla án aðgreiningar sem er metnaðarfull nálgun og byggir á því jafnræði sem við viljum hafa í okkar samfélagi. Það kemur hins vegar fram í meistararitgerð Albertu Tulinius við menntavísindasvið HÍ að í skóla án aðgreiningar séu gerðar miklar kröfur til kennara um árangursríka kennslu en að sama skapi fái þeir ekki nægan stuðning. Ástæðan er meðal annars fjárskortur en einnig slakt aðgengi að námsefni.

Vinna þarf að sveigjanlegum skilum skólastiga. Þroski og hæfni nemenda segja meira en ártal og mikilvægt er að veita áhugasömum nemendum fleiri tækifæri, jafnt á skilum leik- og grunnskóla sem og grunn- og framhaldsskóla. Leikskólar hafa á undangengnum árum þróast úr dagvistun í lærdómsstofnanir og eru fyllilega til þess bærir að sinna meira námi sérstaklega fyrir elstu börnin. Þá hafa framhaldsskólar í auknu mæli boðið nemendum í efstu bekkjum grunnskóla tækifæri til að sinna námi á framhaldsskólastigi samhliða námi í grunnskóla. Þetta þarf að efla og veita nemendum aukið frelsi til að skipuleggja sitt nám á forsendum þekkingar, leikni og hæfni. Nemendur eru best til þess fallnir að þekkja styrkleika sína og setja sér raunhæf markmið.

Samkvæmt nýjum aðalnámskrám fyrir öll skólastigin er ný menntastefna byggð á sex grunnþáttum náms þ.e. læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun. Þetta eru þættir sem við öll getum verið sammála um að skólakerfið okkar eigi að hafa í öndvegi til að börnin okkar öðlist menntun sem nýtist þeim til framtíðar.

Margrét Friðriksdóttir
gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.