Vandi verðtryggingar

430

Íslendingar eru búnir að fá upp í kok af því að sjá lánin sín hækka stöðugt  á milli mánaða þrátt fyrir að greiða af þeim mánaðarlega. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvers vegna þarf þetta að vera með þessum hætti hér á landi. Í flestum löndum eru íbúðalán ekki verðtryggð heldur eru lánin óverðtryggð með breytilegum vöxtum. Það er helst að finna sambærileg lán við þau íslensku í vanþróuðu ríkjunum. Sumir hagfræðingar hafa gengið svo langt að segja að verðtryggingin séu herfilegustu hagstjórnarmistök frá upphafi lýðveldisins.

Það er eitthvað rangt við það hvernig þessi vísitala er fundin út og reiknuð. Fólki finnst ekki sannagjarnt að þegar bensínverð hækkar á mörkuðum erlendis þá hefur það í för með sér hækkun á íbúðalánum á Íslandi. Það er afleitt að áföll úti í heimi skuli hafa þessi beinu áhrif á skuldabyrði íslenskra heimila. Hvernig geta lánþegar verið vissir um að þessi tilbúna vísitala, sem er mannana verk, sé að mæla rétta hluti. Neyslumynstur fólks breytist hratt en mælingar fylgja þeim ekki nægilega eftir. Dæmi um þetta er hækkun á svokölluðum sykurskatti sem er ætlað að draga úr sykurneyslu, en hækkun hans mun hækka lán landsmanna, jafnvel þó sá árangur næðist að þeir hættu að neyta sykurs. Það sama má segja um hækkun skatts á aðra neysluvöru og oft er tekið dæmi af áfenginu þar sem hækkun skatta á það hækkar lánin okkar.

Einn vandi verðtryggingarinnar er sá að bankakerfið græðir á henni þar sem svokallaður verðtryggingajöfnuður hjá þeim er jákvæður, en það þýðir að verðtryggðar eignir eru mun meiri en verðtryggðar skuldir. Þetta verður þess valdandi að bankarnir hafa ákveðna hvata til þess að viðhalda verðbólguni því hærri verðbólga þýðir hærri hagnað hjá bönkunum þar sem sá hluti vaxtanna sem telst verðtryggingarþáttur bætist við höfuðstólinn og raunvextirnir reiknast svo af höfuðstól og viðbættum verðtryggingarþætti. Annað vandamál sem við stöndum frammi fyrir er að ríkið græðir á verðbólgunni. Um þessar mundir er ríkið að fjármagna sig á lánum með föstum óverðtryggðum vöxtum. Þetta þýðir í raun að hærri verðbólga mun lækka raunvirði lána ríkisins. Á sama tíma er almenningur fastur í verðtryggðum lánum og tekur þannig út sína refsingu. Staðreyndin er því sú að þessir tveir stærstu aðilar á íslenskum fjármálamarkaði hafa hag af verðbólgu á meðan  almenningi blæðir við hækkun hennar.  Þessu verður að snúa við þannig að hagsmunir þessara aðila séu þeir sömu og annara, þ.e.a.s. lág verðbólga.

Í kjölfar athafna ríkisins fara sveitarfélög svo að gæta sinna hagsmuna til að tryggja að þjónustugjöld dragist ekki aftur úr í verðbólgunni og hækka þau. Þannig veldur svo hækkun leiksskólagjalda, matargjalda, sundgjalda o.s.frv. frekari hækkun vísitölu og þar með hækkun verðtryggðra lána hjá almenningi. Þessi hringrás þar sem vísitalan  og verðtryggingin fóðrar sig sjálf er einn vítahringur. Sérstaklega er þetta erfitt þar sem laun eru óverðtryggð og dragast gjarnan afturúr verðlagsþróuninni á tímum þegar ríkir stöðnun. Það má að því leytinu segja að það séu tveir gjaldmiðlar í landinu, verðtryggða krónan og sú óverðtryggða. Flestir virðast sammála því að til þess að Ísland nái vopnum sínum á ný þá duga engar töfralausnir. Við verðum að byrja á því að taka til heima hjá okkur. Eitt skrefið í þá veru er að koma böndum á verðbólguna. Til þess að það sé hægt þá verða ríkið og bankarnir að hafa sömu hagsmuni og almenningur. Þannig neyðast þessir aðilar til þess að vinna gegn verðbólgu. Í mínum huga er afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingar einstaklinga mikilvægur þáttur í því að stuðla að meiri stöðugleika í landinu. Slíkt fyrirkomulag myndi þýða að bankarnir hefðu hagsmuni af því að halda niðri verðbólgunni. Á sama tíma ætti ríkið eingöngu að fjármagna sig í verðtryggðum lánum sem myndi líka þýða að það hefði hagsmuni af því að halda niðri verðbólgunni. Þar með myndu þessi tvö ráðandi öfl á fjármagnsmarkaði hafa sömu hagsmuni og almenningur í landinu, þ.e. að halda verðbólgunni í skefjum.