Við áramót

414

Við áramót

— Morgunblaðið/Kristinn

„Næsta vor verður kosið um stefnu og forgangsröðun í landsmálunum. Um hvort haldið skuli áfram á braut skattahækkana og afturhalds, á braut illa skilgreindra markmiða eða sótt fram í krafti athafnafrelsis og þeirrar vissu að þjóðinni sé treystandi til að vinna sig út úr vandanum.“

Við Íslendingar þurfum að leita leiða til að hámarka möguleika okkar í samskiptum við þau svæði heimsins sem fyrirsjáanlega verða í mestum vexti næstu áratugina. Svara þarf spurningum um það hverju þurfi að breyta í utanríkismálum, framleiðsluháttum, menntamálum, vísindum og nýsköpun til að verða ekki af fjölbreyttum möguleikum sem breytt heimsmynd boðar.

Fyrir dyrum er alger umbreyting á efnahagskerfi heimsins. Á innan við 20 árum er talið að millistéttin vaxi úr tveimur milljörðum í fimm þegar milljarðar manna brjótast úr fátækt í Asíu, einkum í Kína og á Indlandi. Þessir milljarðar fólks munu kalla á hefðbundnar neysluvörur og verða helsta uppspretta hagvaxtar og aukinnar eftirspurnar í heiminum.

Evrópa geymir nú um þriðjung millistéttar veraldar. Árið 2030 verður hlutfallið einungis 14%. Þungamiðja efnahagsmála heimsins færist í austurátt með sívaxandi hraða.

Um leið og við mætum nýjum áskorunum þurfum við að vera sjálfum okkur trú, nýta reynslu og þekkingu kynslóðanna og gera það sem best hefur reynst okkur þegar áður hefur þurft að vinna úr efnahagslegum áföllum. Lykillinn hefur verið að auka framleiðni og verðmæti vinnuaflsins og nýta þær auðlindir sem landið hefur yfir að búa.

Kynslóðirnar

Þegar hugað er að sögunni er núverandi efnahagsvandi okkar um svo margt gamalkunnur. Áður höfum við séð skjótfenginn gróða hverfa fljótt. Krafan um aukin lífsgæði hefur þó aldrei verið sterkari og samanburður við önnur lönd raunhæfari. Unga kynslóðin veit að hún á raunhæfan valkost um framtíð í öðru landi. Jafnvel fjarlægu landi. Við megum því engan tíma missa. Um leið og við horfum til þess vanda sem fylgir því að sjá á eftir yngra fólki þarf einnig að hyggja að eldri kynslóðunum. Íslendingum mun fjölga um 60.000 næstu tvo áratugi. Í tíma þarf að huga að þeim breytingum sem verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar, er fólki á lífeyrisaldri fjölgar úr 35.000 í tæp 70.000 á einungis tuttugu árum. Takist ekki að tryggja með fullnægjandi hætti fjármögnun lífeyrisréttinda þessa stóra hóps mun það hvíla á herðum sífellt færri vinnandi manna að sjá fyrir þeim sem eru fyrir utan vinnumarkaðinn. Það er því fyrir margra hluta sakir afar brýnt að sjá til þess að Ísland verði áfram ákjósanlegur staður til búsetu og samkeppnishæft við þjóðir heims um aðstæður eins og atvinnu, menntun, heilbrigðisþjónustu og menningu. Ekkert eitt er jafnmikilvægt til að tryggja það markmið og aukin þjóðarframleiðsla.

Stóru málin strand

Stór orð en litlar efndir hefur verið stef ríkisstjórnarinnar allt þetta kjörtímabil, stundum sem betur fer, því ekki eru allar hugmyndir hennar líklegar til árangurs og sóknar. Kostnaðurinn er mikill. Fjárfesting atvinnulífsins er í lágmarki og opinber fjárfesting á þessu kjörtímabili sú minnsta í lýðveldissögunni. Sjávarútvegurinn hefur þurft að búa við stöðuga óvissu síðastliðin fjögur ár. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um að yfirgefa hugmyndafræði víðtækrar sáttar og samráðs við greinina vegna breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Henni hefur nú tekist að tefla málinu í slíkan ágreining að jafnvel stjórnarflokkarnir tveir eru ósammála um næstu skref. Aðildarviðræðurnar við ESB, sem átti að vera lokið nú, eru skammt á veg komnar. Ekki hefur verið snert á erfiðustu köflunum enda ekki samhljómur með stjórnarflokkunum. Stjórnarskrármálið er ekki betur á vegi statt. Skynsamlegast væri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að horfast í augu við það að hvað heildarendurskoðun varðar er ríkisstjórn hennar runnin út á tíma. Rammaáætlunin er skiptimynt í pólitískum hrossakaupum sem stöðugt eiga sér stað á milli stjórnarflokkanna. Það verður enda æ ljósara að þessi ríkisstjórn var ekki mynduð um málefni. Hún var mynduð um völd og þeim skal haldið fram á síðasta dag. Allt til að uppfylla drauminn um fyrstu „hreinu“ vinstristjórnina sem skrimtir heilt kjörtímabil.

Nýr sáttmáli vaxtar og stöðugleika

Við slíkt sundurlyndi og framtaksleysi verður ekki lengur búið. Hér þarf að koma á sáttmála vaxtar og stöðugleika. Á milli aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar, milli atvinnugreina og milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Til þess að það takist þarf samstarf um sameiginleg markmið. Sameiginlega sýn um tiltekin grundvallaratriði. Það þarf nýjan tón og traust milli manna. Ljóst er að það er uppurið í samskiptum margra af helstu persónum og leikendum á sviði þjóðlífsins. Nýlegar yfirlýsingar forystu ASÍ bera því vitni. Það er víst svo að fólkið sem boðaði nýja tíma samræðustjórnmála hefur verið lítið til viðtals síðustu ár. Með nokkurri einföldun má segja að sérhvert skref síðustu áratugi sem renndi stoðum undir raunverulegar kjarabætur í landinu hafi falið í sér aðgerðir sem stækkuðu kökuna um leið og haldið var aftur af verðbólgunni. Hið sama þarf að gera nú. Ríkisstjórnin hefur verið of upptekin af því að skipta minnkandi köku upp með nýjum hætti í stað þess að stækka hana. Fjölmargir hafa setið uppi með tóman disk og horfið af vinnumarkaði. Margir þeirra fluttu til útlanda til að geta brauðfætt fjölskylduna. Á forræði stjórnvalda er að bæta umhverfi einstaklinga og atvinnulífs. Breyta þarf um stefnu og leggja áherslu á lægri skatta og gjöld, sem og aðgerðir til að létta skuldabyrði heimila og atvinnureksturs. Fjárfesting sem styrkir innviði samfélagsins er brýn. Tryggja þarf áframhaldandi hagkvæmni veiða og vinnslu í sjávarútvegi, skynsamlega nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda, frekari iðnaðaruppbyggingu og nýsköpun. Treysta verður rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar þannig að henni verði kleift að halda áfram uppbyggingu og bæta rekstrarafkomu sína. Afnám hafta, hallalaus fjárlög, sala ríkiseigna og uppgreiðsla skulda er lykilatriði í ríkisfjármálunum.

Fögnum tækifærinu

Við Íslendingar þurfum að bregðast við fyrirsjáanlegum breytingum innanlands, sem og breyttri heimsmynd af ábyrgð og af yfirvegun. Þeirri áskorun eigum við að taka fagnandi og hefjast handa án tafar.

Sú umbreyting í efnahagsmálum heimsins sem ég hef hér að framan rakið geymir án nokkurs vafa óendanleg sóknarfæri fyrir fámenna, vel menntaða þjóð, ríka af auðlindum. Forsenda þess að úr tækifærunum rætist er trú á frelsi og framtakssemi einstaklingsins.

Sigurður Nordal skrifaði árið 1927 hve hver einstaklingur lítillar þjóðar skipti miklu máli. Hann sagði að með rækt við einstaklingana vaxi von smárra menningarþjóða um að láta til sín taka.

Næsta vor verður kosið um stefnu og forgangsröðun í landsmálunum. Um hvort haldið skuli áfram á braut skattahækkana og afturhalds, á braut illa skilgreindra markmiða eða sótt fram í krafti athafnafrelsis og þeirrar vissu að þjóðinni sé treystandi til að vinna sig út úr vandanum. Valið er kjósenda. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.