Vilhjálmur Bjarnason

574

Fæddur í Reykjavík 20. apríl 1952. Foreldrar: Bjarni Vilhjálmsson (fæddur 12. júní 1915, dáinn 2. mars 1987) þjóðskjalavörður og Kristín Eiríksdóttir (fædd 15. mars 1916, dáin 4. september 2009) húsmóðir og saumakona. Maki 1: Sigríður Ásta Hallgrímsdóttir (fædd 4. janúar 1950) kennari og gæðastjóri. Foreldrar: Hallgrímur Jónsson og Valgerður Guðmundsdóttir. Maki 2: Auður María Aðalsteinsdóttir (fædd 19. desember 1951) bókasafnsfræðingur og bókavörður. Foreldrar: Aðalsteinn Jóhannsson og Hulda Óskarsdóttir. Dætur Vilhjálms og Auðar Maríu: Hulda Guðný (1981), Kristín Martha (1981).

Stúdentspróf MH 1972. Próf í bóklegu atvinnuflugi og blindflugi hjá Flugmálastjórn 1973. Cand.oecon.-próf frá HÍ 1977. MBA-próf frá Rutgers University, New Jersey 1997.

Starfaði á reiknistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands 1972–1973. Vann með námi hjá Seðlabanka Íslands 1974–1976 og 1995–1996. Starfaði hjá Útvegsbanka Íslands, m.a. í hagdeild og sem eftirlitsmaður útibúa 1977–1987, útibússtjóri bankans í Vestmannaeyjum 1980–1987. Starfsmaður Kaupþings hf. 1987–1988. Kennari við Iðnskólann í Reykjavík 1989–1995. Forstöðumaður verðbréfamarkaðar Fjárfestingafélagsins 1991–1993. Aðjúnkt og lektor við viðskiptafræði- og hagfræðideild og síðar viðskiptafræðideild HÍ frá 1998, í leyfi frá 1. júlí 2013. Sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun og síðar Hagstofu Íslands 2000–2007. Framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta 2007–2014.

Í stjórn Samtaka fjárfesta 2000–2014, formaður 2000–2007, í varastjórn Samtaka sparifjáreigenda 2014–2016 og í stjórn frá 2016. Í nefndum á vegum viðskiptaráðuneytisins um endurskoðun laga um fjármálafyrirtæki og verðbréfasjóði frá 2009. Félagskjörinn skoðunarmaður Hins íslenska biblíufélags 2011–2016.

Alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2013–2017 (Sjálfstæðisflokkur).

Efnahags- og viðskiptanefnd 2013–2017, utanríkismálanefnd 2013–2016 og 2017.

Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2013–2016 og 2017, þingmannanefnd Íslands og ESB 2013–2016.

Hefur birt nokkrar greinar um fjármál og málefni fjármálamarkaða í innlendum og erlendum fræðiritum.