Vita Garðbæingar af þessu?

680

Grein eftir Jón Finnbogason varabæjarfulltrúa.

Reglulega berast fréttir af rekstri sveitarfélaga, helst þá í tengslum við ársuppgjör. Rauði þráðurinn er að afkoma sýni sterka fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags. Þegar betur er að gáð kemur hins vegar fram að á undanförnum árum hafa tekjur einnig verið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samt sem áður er í umfjöllun rætt um sterka stöðu, góða afkomu eða aðrar sambærilegar tilvitnanir. Sem dæmi má nefna að um afkomu Garðabæjar vegna 2014 var tekið fram að niðurstaðan sýni vel sterka fjárhagsstöðu bæjarins en hins vegar var einnig tekið fram að rekja mætti niðurstöðuna fyrst og fremst til hærri tekna en fjárhagsáætlun hafi gert ráð fyrir. Fyrirsögn fréttar um ársreikning Hafnarfjarðar 2017 var „sterk fjárhagstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar“ en að sama skapi tekið fram að skatttekjur og framlög frá jöfnunarsjóði hafi verið 786 m.kr. hærri en áætlun hafi gert ráð fyrir. Það má segja að almennt sé teiknuð upp mjög jákvæð mynd í umfjöllun um rekstur sveitafélaga og sjaldnast farið mjög djúpt í hvað niðurstöðurnar sýna raunverulega. Virðist skipta litlu máli hvaða sveitarfélag á í hlut. Það má velta fyrir sér hvort það sé nægjanlegt að leggja niðurstöður eins rekstrarárs til grundvallar þegar lagt er mat á það hvort fjárhagsstaða sé sterk. Einnig má velta fyrir sér á hvaða vegu það er jákvætt ef rekstrarniðurstaða er miklu betri en áætlanir gerður ráð fyrir ef skatttekjur eru á sama tíma umfram áætlun.

Til hvaða þátta horfa íbúar bæjarfélags þegar þeir leggja mat á hvort fjárhagur þeirra sveitarfélags sé sterkur. Sjálfur tel ég að horfa þurfi til nokkurra ára þegar lagt er mat á rekstur sveitarfélags, rétt eins og á við þegar lagt er mat á rekstur fyrirtækja. Líklega fjárfesta ekki margir í hlutabréfum félags á grundvelli lesturs á ársreikningi fyrir eitt rekstrarár. Ég tel að í fréttaflutningi af afkomu sveitarfélaga sé lögð of mikil áhersla á niðurstöðu rekstrarreiknings eins árs. Það getur í raun verið villandi að draga of miklar ályktanir af niðurstöðu rekstrarreiknings eins árs. Þar skortir umfjöllun um efnahagsreikning viðkomandi sveitarfélags, skuldastöðu, samsetningu skulda, vaxta og greiðslubyrði, uppsafnaðar og nauðsynlegar fjárfestingar sem eru að jafnaði ófjármagnaðar. Þá geta skuldbindingar utan efnahagsreiknings haft meiri áhrif á mat á fjárhagslegum styrk sveitarfélags til lengri tíma en niðurstöður úr síðustu tólf mánuðum. Minna fer fyrir umræðu um þessa þætti en aðal áherslan lögð á hvort afkoma rekstrar hafi verið þessi eða hin á tilteknu tólf mánaða tímabili. Þegar bæjarbúar velta fyrir sér rekstri sveitarfélags mætti spyrja sig hvort þeir horfi á reksturinn sem rekstur á stórri fjölskyldu, enda er sveitarfélaginu markaðir tilteknir tekjustofnar í lögum sem koma frá bæjarbúum sjálfum. Það er þá frá hverjum og einum fjölskyldumeðlim.

Það getur því verið áhugavert að skoða saman þróun yfir langt tímabil og niður á hvern bæjarbúa. Þar sem ég bjó í Garðabæ allt fram til þess tíma er ég flutti að heiman þá finnst mér gaman að bera saman stöðuna í Kópavogi við stöðuna hjá vinum mínum í Garðabæ. Árið 2012 voru skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa í Kópavogi 1.408 þúsund kr. en á sama tíma 578 þúsund kr. í Garðabæ. Við árslok 2018 voru skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa í Kópavogi 1.212 þúsund kr. en á sama tíma 872 þúsund kr. í Garðabæ. Skuldir á hvern íbúa höfðu því lækkað í Kópavogi um 14% en hækkað á hvern íbúa í Garðabæ um 51%. Á sama tíma og skuldir lækka þá sjáum við fjármagnskostnað á hvern íbúa einnig lækka eins og meðfylgjandi mynd sýnir glögglega. Gæti verið að með sömu þróun þá verði skuldir á hvern íbúa í Kópavogi lægri en í Garðabæ. Verður spennandi að fylgjast með þessum mælikvarða.

Frá 2012 til 2018 þá lækkaði fasteignaskattur í Kópavogi úr 0,32% í 0,23% sem hlutfall af fasteignamati eða um 28% en í Garðabæ úr lækkaði hlutfallið úr 0,26% í 0,2% eða um 23%. En hver bæjarbúi hugsar fyrst og fremst í krónum en ekki hlutföllum. Því er áhugavert að sjá að fasteignaskattar á hvern íbúa í Kópavogi hækkaði frá 2012 til 2018 úr 64 þúsund kr. í 80 þúsund kr. Eða hækkun sem nemur 24,8% en í Garðabæ
hækkaði fasteignaskattur á hvern íbúa úr 76 þúsund kr. í 78 þúsund kr. eða um 2,4%. Einnig má nefna að útsvar á hvern bæjarbúa frá 2012 til 2018 þá hækkar það í Kópavogi úr 393 þúsund kr. í 583 þúsund kr. sem er 48,6% hækkun en í Garðabæ þá hækkar útsvar á hvern bæjarbúa úr 405 þúsund kr. Í 613 þúsund kr. eða um 51,5%. En hér að framan aðeins litið til reiknaðra stærða í fortíð hjá þessum tveimur sveitarfélögum. Nefna má dæmi að Garðabær stendur nú fyrir byggingu á fjölnota íþróttahúsi eins og því er lýst en eins og ég skil það þá er um að ræða knattspyrnuhús (best að skýra hlutina réttu nöfnum). Í Fjárhagsáætlun vegna 2020 til 2023 þá er gert ráð fyrir 1.840 m.kr. í verkefnið og er þá ótalið það sem sett hefur verið í verkefnið á árinu 2019. Þessi fjárfesting er ekki hluti af þeim tölum sem getið var um hér að framan í samanburði á skuldum á hvern íbúa.

Kópavogsbær er nú þegar eigandi að tveimur knattspyrnuhúsum. Samanburður á tölunum einum dugar því ekki alltaf til að átta sig á hver raunveruleg
staða er hverju sinni. Það getur verið snúið að fullyrða að fjárhagsstaða sé sterk og rekstur sé góður, sérstaklega við lestur á einum ársreikningi. Líklega fer það líka eftir því hver það er sem leggur mat á stöðuna. Ef litið er yfir langt tímabil og stöðugt eru sóttar fleiri og fleiri krónur í vasa bæjarbúa, það er til fjölskyldumeðlima í samlíkingunni hér að ofan, þá má velta því fyrir sér hvort þeim finnist staðan sérstaklega góð. Það er hins vegar jákvæð þróun að sjá að skuldir á hvern bæjarbúa eru að lækka í krónum talið hjá Kópavogi um 14% milli 2012 og 2018 en vissulega til umhugsunar að skuldir hækki á hvern bæjarbúa í Garðabæ um 51%. Ætli vinir mínir í Garðabæ viti af þessu.