Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri skrifar
Kópavogur var fyrsta sveitarfélagið til að innleiða breytingar á leikskólum í þeim tilgangi að styrkja kerfi sem hafði glímt við manneklu, lokanir og mikið álag. Breytingarnar fela í sér mikinn árangur og það er því ánægjulegt að sjá önnur sveitarfélög fylgja fordæmi Kópavogs og taka upp sambærilegar leiðir. Allt miðar þetta að því að bæta líf starfsmanna, leikskólabarna og foreldra þeirra. Meira að segja Reykjavíkurborg er nú búin að átta sig á því að gera þurfi breytingar.
Skýr árangur
Árangurinn af Kópavogsmódelinu hefur einkum birst með eftirfarandi hætti:
- Engir lokunardagar vegna manneklu eða veikinda. Til samanburðar voru 212 lokunardagar síðasta skólaárið fyrir breytingar.
- Fullmannaðir leikskólar og fleiri börn fá leikskólapláss. Í haust voru allt niður í 13 mánaða börn að fá leikskólavist en til samanburðar voru deildir ekki opnaðar sökum manneklu fyrir breytingarnar og fæstir leikskólar fullmannaðir.
- Styttri dvalartími og minna álag. Í dag eru 28% sem nýta sér ókeypis leikskólavist í 6 klukkustundir eða skemur. Fyrir breytingar var hlutfallið 1,9%. Meðaldvalartími barna hefur farið úr því að vera rúmlega 8 klukkustundir í 7,24 klukkustundir.
Þar að auki hafa kannanir hjá Kópavogsbæ, sem rúmlega 1.000 foreldrar taka þátt í hverju sinni, auk rannsókna frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands, sýnt að:
- Gæði starfsins og líðan barna hafa batnað verulega.
- Starfsánægja hefur aukist með betri starfsaðstæðum og skýrara skipulagi.
- Fleiri foreldrar eru ánægðir en óánægðir með Kópavogsmódelið.
- Tekjulægsti hópurinn er einna ánægðastur með breytingarnar.
- Ánægja foreldra hefur aukist milli kannana hjá Kópavogsbæ.
Kaldar kveðjur til félagsmanna
Þrátt fyrir að 411 starfsmenn leikskóla í Kópavogi séu félagsmenn BSRB, eða 60% starfsfólks á leikskólum, hefur bandalagið barist gegn breytingunum frá upphafi. Þær breytingar felast þó meðal annars í að bæta starfsumhverfi þeirra eigin félagsmanna.
Ný rannsókn á vegum BSRB byggir á mjög litlu úrtaki, einungis 20 foreldrum (fimmtán konur og fimm karlar). Með slíku þýði er varla hægt að alhæfa fyrir foreldrahópinn í heild sinni auk þess sem niðurstöðurnar eru í hrópandi í andstöðu við aðrar rannsóknir og kannanir sem hafa verið gerðar. Erfitt er að komast hjá því að álykta að „rannsókn“ BSRB sé lítið annað en keypt niðurstaða í pólitískum leik.
Rangar fullyrðingar BSRB
Fullyrt er af BSRB að sparnaður hafi verið meginmarkmið breytinganna en ekki velferð barna og starfsfólks. Það stenst enga skoðun enda hefur frá upphafi legið fyrir að fjármunir sem sparast renni aftur inn í leikskólana. Þá sýna rannsóknir að líðan barna og ánægja starfsfólks hefur batnað, en um 75% starfsfólks telja reynsluna jákvæða og áhrifin jákvæð á börnin.
Þá er fullyrt að breytingarnar stuðli að félagslegri mismunun. Kannanir sýna hins vegar að tekjulægstu heimilin eru ánægðust með breytingarnar og eru jafnframt þau sem helst nýta sér gjaldfrjálsa leikskólavist.
Mikilvægast eru börnin
Við sem gegnum forystu í bænum gátum ekki setið hjá og horft á leikskólakerfið okkar molna niður, óviðunandi álag og lokunardagar sem foreldrar þurftu að brúa með tilheyrandi tekjumissi frá vinnu. Þetta var eitt af því helsta sem foreldrar vöktu máls á í aðdraganda sveitastjórnarkosninga 2022 og því nokkuð ljóst að bregðast þurfti við. Í aðdraganda kosninga lofuðum við því að brugðist yrði við vandanum og við stóðum við það loforð.
Til að styðja við kerfið var ljóst að dvalartími barna þyrfti að styttast, enda einn sá lengsti meðal annarra ríkja. BSRB hefur ekki stigið fram og útskýrt hvernig þau telja sig geta staðið vörð um leikskólana og dregið úr dvalartíma barna án þess að við endum í gamla kerfinu með tilheyrandi vanda.
Líkt og öll mannanna verk er Kópavogsmódelið ekki yfir gagnrýni hafið en mikilvægt er að gagnrýni byggi á málefnalegum og réttum forsendum, sem því miður leika aukahlutverk í málflutningi BSRB. Kópavogsmódelið er enn í þróun og má að sjálfsögðu bæta. Við höfum brugðist við ábendingum foreldra eins og að auka sveigjanleika í dvalartíma og hækkað systkinaafsláttinn.
Í stað þess að stunda pólitískan leik ætti að beina sjónum að því sem skiptir mestu máli: að leikskólabörnum líði vel í núverandi umhverfi með gott starfsfólk og að foreldrar geti treyst á að þjónustan sé fagleg, örugg og stöðug. Við ætlum ekki að gefa afslátt af því svo að forysta BSRB geti klappað sér á öxlina. Börnin sem sækja leikskólana, foreldrar þeirra og síðast en ekki síst starfsfólkið á leikskólunum á betra skilið en svo.