Lífið heldur áfram sinn óvanalega gang

650

Þó svo að fátt komist að hjá okkur annað en skelfilegar fréttir af Covid 19 veirunni þá heldur lífið áfram, en núna á sinn óvanalegan hátt. Við erum öll í aðlögunarferli og hafa fyrirtæki og stjórnsýsla tekið upp nýjar aðferðir til þess að halda rekstri sínum áfram. Bæjarstjórn Kópavogs er ekki undanskilin því. Allir okkar fundir eru núna með fjarfundarbúnaði sem er reyndar stundum ágætt í pólitíkinni, sem hún getur stundum verið verið býsna mikil tík.

Ég á, eins og mögulega aðrir, samt svolítið erfitt með þennan nýja raunveruleika. Sem felur í sér lítið „fýsískt“ samneyti við samferðarfólk mitt annað en við mína nánustu heimilismenn, sem jú, stundum fá alveg nóg af mér. Flest gerum við okkur grein fyrir því að framtíðin felur í sér aukna þátttöku í fjarfundum sem og heimavinnustöðvum. Með slíku má spara mikið í rekstri og fjármunum, en ég virkilega vona að þessi háttur verði ekki of almennur til lengri tíma litið.

Við erum nefninlega félagsverur og þurfum á hvert öðru að halda. Við viljum eins og mörg önnur dýr í dýraríkinu vera í hjörðum. Núna er okkur sagt að öryggið felist helst í því að vera ein heima og skipuleggja okkar framlag á þann veg. Þetta að mörgu leiti stríðir gegn okkar eðli sem félagsverur og hjarðdýr. Það sést vel á samskiptamiðlunum hversu þyrst við erum í félagsskap annarra.
Tilveran hefur verið sett í uppnám, börn mæta minna í skólann og hefðbundin afþreying okkar allra hefur verið aftengd um óákveðið tímabil. Þetta tekur á samskipti fjölskyldna og jafnvel leiðir hugann til þeirra sem ekki eru svo lánsamir að eiga fjölskyldumeðlimi sem eru þeim góðir eða sinna þeim nægilega vel.

Hlúum að viðkvæmum hópum, sendum jafnvel sendibréf!
Eldra fólk er í sérstakri hættu, ekki bara vegna veirunnar, heldur líka vegna einangrunarinnar. Margir þessara einstaklinga eru háðir því að einhverjir renni við og minni þá á að taka lyfin sín, að þvo sér og nærast. Starfsmenn velferðarsviðs í Kópavogi eru mjög meðvitaðir um þessa hættu og leggja sig í hvívetna fram um að draga úr hættulegum áhrifum einangrunar viðkvæmra hópa. Kópavogsbær hefur reynt að vera leiðandi í velferðartækni. Við nýtum sérstakt Care-on kerfi til að fylgjast með innlitum til þjónustuþega og nú nýlega var skrifað undir samning við Sóltún öldrunarþjónustu um aðgang að öldrunarþjónustunni DigiRehab.

En allar tæknilausnir í heiminum koma ekki í veg fyrir einmanaleika þessa viðkvæma hóps um þessar mundir. Við sem yngri erum „höfum þá alltaf facebook eða netflix“ og úrræðin okkar eru fleiri. Gleymum því ekki okkar yndislega eldra fólki. Hringum og látum vita af okkur, hvetjum aðra til þess, sendum myndir eða afnvel bara handskrifuð sendibréf og teikningar barnanna okkar upp á gamla mátann með því að stinga því í póstkassann hjá viðkomandi.

Kvennaathvarfið hefur einnig bent á að þeir sem búa við heimilisofbeldi séu í enn meiri hættu nú en nokkurn tímann fyrr. Það er ábyrgð okkar sem virkir samfélagsþegnar að skipta okkur af þegar við teljum einhvern vera í hættu eða búa við bágar aðstæður. Hikum ekki við það.
Listamenn gefa lífinu lit!

Það ber að þakka listamönnum og menningarstofnunum um hversu vel þau rækta sitt hlutverk sem er að gleðja okkur. Sjálfsprottinn söngur fyrir utan hjúkrunarheimili var líklega eitt það fallegasta sem ég hef upplifað lengi. Einnig er stórkostlegt að sjá hversu vel stærri menningarstofnanirnar hafa brugðist við samkomubanninu. Það er ekki sjálfgefið að lifa á listinni og því er opinber stuðningur við listamenn og menningarstofnanir mikilvægur. Listin veitir okkur í dag andlega næringu og gleði sem við svo sannarlega þurfum á að halda.

Karen Elísabet Halldórsdóttir
Bæjarfulltrúi og formaður menningarráðs