Að fegra lífið og tilveruna

440

Menning og listir fegra lífið, bæta, hressa og kæta. Málaflokkurinn á samt það til að falla undir nokkurskonar dekur þegar kemur að rekstri stórs bæjarfélags.

Kópavogur hefur á undanförnum árum veitt menningarlífinu innspýtingu eftir mögur ár. Kópavogsbúar finna orðið markvisst fyrir því og má nefna í því samhengi að á safnanótt þann 3. febrúar s.l. komu ríflega 3700 manns og heimsóttu menningarhúsin okkar. Dagskráin var vegleg og lagði starfsfólk sig fram langt út fyrir sínar skyldur þetta kvöld sem sýnir hversu miklum mannauði bærinn á yfir að skipa. Fjöldinn sem kom hefur vakið athygli safna í öðrum bæjarfélögum. Ég tel að ásamt frábærri skipulagningu og dugmiklu starfsfólki sé nálægð menningarhúsana hvert við annað einn helsti styrkleiki þeirra (ekki skemma veitingar Garðskálans sem koma stanslaust á óvart). Við lýstum upp Kópavogskirkju, hlustuðum á seiðandi Jazz í anddyri Salarins, spiluðum á spil í bókasafinu og létum spá í þau líka.

Breyttir tímar og ný sýn.

Það hefur alltaf verið mín sýn sem formaður lista og menningarráðs að draga söfnin úr þessari hefðbundnu umgerð sem maður sjálfur ólst upp við. Á söfnum átti að ríkja þögn og vandlætingarleg tillit safnvarða var nóg til þess að maður forðaðist alfarið að eyða of löngum tíma þar inni. Börn voru helst ekki tekin með á tónleika eða listasýningar, slíkt var bara fyrir elegant fólk sem var hámenntað í fræðunum. Í dag er grunntónn menningarstefnunar að draga sem flest ungmenni inn í söfnin og reyna að vekja með þeim þá tilfinningu að þar séu þau velkomin og að þar á þeim að líða eins og heima hjá sér. Við erum að reyna að ala upp framtíðarlistamenn ásamt því að komandi kynslóð líti á menningarheimsóknir sem hluta af daglegu lífi sínu.

Við gerum þetta fyrir krakkana.

Með tilkomu ráðningar á verkefnastjóra fræðslu og menningarmála var ákveðið að stöðugildið ætti ennfrekar að styðja við barnamenningarfræðslu þvert á öll menningarhúsin. Nú aðeins nokkrum mánuðum frá þessari ráðningu hafa til dæmis allir yngstu bekkingar grunnskóla Kópavogs eða um 3000 börn komið á tónlistarsýningu um Pétur og úlfinn í Salnum, við þetta bættust krakkar úr Reykjavík sem frétt höfðu af þessari sýningu. Þegar ég var grunnskóla hlustuðum við á grammófónplötuna um söguna og fannst það bara nokkuð gott! Í Gerðarsafn komu 650 krakkar úr 6.bekk sem fengu innsýn í Hvað eiga myndlist og vísindi sameiginlegt? Þar fylgdu einnig áhugsamir nemendur úr skólum í Reykjavík. Í febrúar verður öllum 4.bekkingum boðið í heimsókn á Bókasafnið og Gerðarsafn um hvernig má ferðast til annarra heima án þess að færast úr stað. 9.bekkingar koma svo í maí til að ræða mikilvægi gagnrýnnar hugsunar á Náttúrufræðistofu og Bókasafninu.

Fjölskyldustundir safnana á laugardögum hafa einnig verið stigvaxandi í aðsók, og hafa menningarhúsin boðið upp á dagskrá í vetrarfríum skólanna sem og á sumardaginn fyrsta.
Það er því ljóst að menning og listir eru í mikilli sókn í Kópavogi undir leiðandi forystu Sjáflstæðisflokkins.

Gleðilega list