Ávarp bæjarstjóra – birt í Vogum des. 2020

471

Heimsfaraldur kórónaveiru hefur sett svip sinn á stærstan hlut ársins 2020. Vegna faraldursins hefur árið verið afar óvenjulegt og óhætt að fullyrða að árið hefur fært okkur ýmis verkefni sem við sáum ekki fyrir.

Efnahagslegar áskoranir sveitarfélaganna sem hafa fylgt í kjölfar faraldursins eru margvíslegar og þar er Kópavogsbær ekki undanskilinn. Við gerð fjárhagsáætlunar sem samþykkt var nýverið í bæjarstjórn Kópavogs var því nauðsynlegt að rýna í reksturinn og hafa skynsemi að leiðarljósi.

Fjárhagsáætlunin 2021 byggir því fyrst og fremst á því að standa vörð um grunnþjónustuna að viðbættu auknu framlagi til velferðarmála.

Traustur rekstur í Kópavogi
Við búum svo vel að rekstur Kópavogsbæjar hefur gengið vel undanfarin ár. Má ekki síst þakka því að útgjaldaukning hefur verið hófleg og mikið verið lagt upp úr því að greiða niður vaxtaberandi skuldir. Eftir bankahrunið þurfti Kópavogsbær að taka mikið af lánum á vaxtakjörum sem helst mætti líkja við okurlán.

Má segja að það hafi verið með ólíkindum hvað lánastofnanir leyfðu sér í þeim efnum í ljósi þess að áhættan við að lána bænum var engin eins og komið hefur á daginn.

Skýringin á því að menn komust upp með þetta er sú að lánalínur þornuðu upp öfugt við það sem hefur gerst núna. Sem betur fer er bærinn langt kominn með að losa sig undan þessum óhagstæðu lánum sem hefur bætt rekstrarhæfni bæjarins til mikilla muna.

Sumum borgarfulltrúum er mikið í mun að fegra þá stöðu sem Reykjavík stendur frammi fyrir. Þar á bæ er talað um að þeir sem stýra borginni sýni mikið þor. Þetta mikla þor liggur í því að reka Reykjavíkurborg með miklum halla og gífurlegri lántöku sem langan tíma tekur að vinna sig út úr. Fyrir mér er þetta ekki þor heldur glannaskapur. Borgin kallar þetta „græna planið“en það er óhætt að taka undir með þeim sem kalla þennan glannaskap „skulda planið“.

Hér er vert að árétta að skuldsetning borgarinnar er enn glórulausari þegar litið er til þess hversu miklu breiðari tekjugrunn Reykjavíkurborg hefur umfram önnur sveitarfélög. Fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði og opinberu húsnæði, tekjur af Orkuveitunni og Reykjavikurhöfn eru ríflega 13 milljörðum króna hærri en ef tekjugrunnurinn væri sá sami og hjá Kópavogsbæ.

Þetta myndi þýða að rekstrarafgangur Kópavogs myndi hækka um þrjá og hálfan milljarð króna miðað við sömu forsendur.

Uppbygging framundan
Til lengri tíma litið er sú fjármálastefna sem rekin hefur verið í Kópavogi öllum íbúum til góðs. Þessi stefna þýðir samt alls ekki að það Kópavogsbær sé draga saman seglin. Sem fyrr er lögð áhersla á hátt framkvæmdastig og er þar stærsta einstaka verkefnið bygging nýs Kársnesskóla. Þá verða fyrstu skref stigin í uppbyggingu á nýjum hluta Glaðheimahverfis og skipulag við nýtt hverfi í Vatnsendahvarfi verður kynnt, en þar verður lögð áhersla á sérbýli.

Loks má þess vænta að spennandi uppbygging á Hamraborgarsvæðinu muni hefjast á næsta ári. Þar er Borgarlínan mikilvæg forsenda en tveir „ásar“ hennar munu liggja í gegnum Hamraborgarsvæðið.

Áætlanir miða við að Borgarlínu verði hleypt af stokkunum árið 2024. Þjónusta mun aukast á Hamraborgarsvæðinu með uppbyggingunni og áhersla verður á að gera gott umhverfi fyrir fjölbreytt mannlíf. Þá er Kársnesið skammt undan og þar hefur mjög flott uppbygging átt sér stað sem styrkja mun bæjarfélagið enn frekar.

Loksins sér fyrir endann á að klára Arnarnesveginn með tengingu við Breiðholtsbraut en þar er um löngu tímabæra og bráðnauðsynlega framkvæmd að ræða.Lúkning Arnarnesvegar mun þýða mikla breytingu til hins betri fyrir íbúða- og atvinnuhúsabyggð í austasta hluta Kópavogs.

Í ljósi þessa er verið enn á ný að skoða staðsetningu nýrrar slökkviliðsstöðvar þar sem nú er kominn grundvöllur fyrir því að byggja hana í Hvörfum og mun ég leggja það til. Sú staðsetning yrði alger bylting í þjónustu við efri byggði Kópavogs, en staðreyndin er sú að viðbragðstími slökkviliðsins í efri byggðum er ekki ásættanlegur eins og sakir standa.

Það er semsagt margt spennandi framundan sem gaman verður að fylgja úr hlaði. En það er líka nauðsynlegt að líta yfir farinn veg og mig langar að lokum til þess að víkja orðum að þessu óvenjulega ári og starfsemi bæjarins.

Tekist á við áskoranir
Það hefur komið í ljós í faraldrinum að Kópavogsbær hefur á að skipa frábæru starfsfólki sem hefur mætt breytingum af jákvæðni og útsjónarsemi. Sem dæmi hefur þurft að laga starfsemi leik- og grunnskóla að fyrirmælum stjórnvalda, oft með mjög stuttum fyrirvara. Þetta hefur gengið afar vel, og eiga foreldrar og börnin í bænum líka mikið hrós skilið.

Þá hefur velferðarþjónustan unnið fábært starf við krefjandi kringumstæður. Félagsmiðstöðvar, menningarhús og sundlaugar, allar þessar stofnanir hafa þurft að laga sig að breytingum, og gengið frábærlega.

Bæjarstjórn hefur ekki farið varhluta af ástandinu og fundað rafrænt. Við eins og margir aðrir í þjóðfélaginu erum orðin útskrifuð í rafrænum fundum, en mikið verður nú ánægjulegt að hitta fólk á nýjan leik.

Ég er stoltur af því hvernig við höfum tekist á það óvænta verkefni sem heimsfaraldurinn er og þakklátur fyrir það hversu mikla jákvæðni og aðlögunarhæfni Íbúar og aðrir sem reiða sig á þjónustu Kópavogsbæjar hafa sýnt að laga sig að breyttri þjónustu bæjarins á óvenjulegum tímum.

Það er fagnaðarefni að það eru bjartari tímar framundan, bóluefni væntanlegt snemma árs 2021 og í kjölfarið getum við vænst þess að lífið fari aftur að færast í eðlilegt horf.

Ég óska íbúum Kópavogs góðrar aðventu, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri

Vogar, árgang des.2020 má lesa HÉR