Betri Leikskólar fyrir alla í Kópavogi

273

Á fyrsta ári mínu sem bæjarstjóri setti ég í forgang að heimsækja sem flesta leikskóla Kópavogs, til að hitta starfsfólk og heyra hvað veldur hinni slæmu stöðu í mönnunarmálum skólanna. Í þeim heimsóknum kvað nær undantekningalaust við sama tón, viðvarandi álag og streita í starfi skapar óviðunandi umhverfi fyrir börn og starfsfólk.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir umtalsverða hækkun launa undanfarin ár, aukin réttindi og styttingu vinnuvikunnar hefur staðan í leikskólum ekki skánað, heldurþvert á móti versnað. Viðvarandi álag og veikindi hafa valdið því að deildir eru lokaðar heilu og hálfu dagana og jafnvel tómar sökum manneklu. Þessi staða hefur ekki síður valdið streitu og álagi hjá foreldrum leikskólabarna sem fá ekki þá þjónustu sem bæjarfélagið hefur lofað að veita.

Á sama tíma hafa leikskólagjöld lækkað að raunvirði og kostnaðarþátttaka foreldra farið úr því að vera 20% í 12% á örfáum árum. Margir foreldrar kannast við það að skrá auka klukkutíma í dvalartíma til að hafa „auka svigrúm“ út af umferðinni eða ef eitthvað kemur upp í vinnunni. Skiljanlega, sjálf gerði ég það með mín börn í leikskóla. Vandinn er hins vegar sá að mönnun og rekstur leikskóla byggir á skráðum dvalartíma en ekki raun dvalartíma. Þennan auka klukkutíma þarf alltaf að manna og í mikilli manneklu getur það reynst oft á tíðum mjög erfitt.

Í grunninn byggja þær breytingar sem Kópavogsbær hefur ákveðið að framkvæma,á því að fyrstu sex klukkustundirnar verða gjaldfrjálsar en aðrar klukkustundir kosta meira. Áfram verður staðið vörð um tekjulág heimili og verða afslættir innleiddir samhliða. Þá verður sveigjanleiki aukinn samhliða svo foreldrar geti skráð barn sitt með mismunandi dvalartíma á dögum vikunnar.

Með þessum breytingum er verið að biðla til foreldra að skrá dvalartíma barna í takt við raunnýtingu og nýta sveigjanleikann til að draga úr dvalartíma á ákveðnum dögum. Vissulega er það þannig að sumir foreldrar hafa ekki tök á því að breyta dvalartíma barna sinna, sem er skiljanlegt. Þau börn fá hins vegar á móti betri þjónustu, í rými sem eru færri börn í lok dags.

Breytingar á starfsumhverfi leikskóla eru ekki úr lausu lofti gripnar heldur byggja á ráðleggingum fagaðila. Mikið og víðtækt samráð var haft við mótun tillagna á öllum stigum við starfsfólk, leikskólastjórnendur, fulltrúa foreldra, fulltrúa stéttarfélaga og kjörna fulltrúa. Þá hafa foreldrafundir verið haldnir í öllum leikskólum Kópavogs til að kynna breytingarnar og hlusta á ábendingar foreldra. Þegar hafa komið fram góðar ábendingar frá foreldrum sem verða skoðaðar vel og vandlega.

Nú á fyrstu vikunum erum við að sjá jákvæðar breytingar, foreldrar eru að stytta dvalartíma, leikskólakennarar eru að koma til starfa til baka úr grunnskólum og almennur áhugi virðist vera að vinna á leikskólum bæjarins.

Það var ekki í boði að gera ekki neitt! Kópavogsbær boðar róttækar breytingar í leikskólamálum, kannski eru þær ekki fullkomnar en við trúum því að þær leiði til hins betra fyrir alla. Markmiðið með þessum breytingum er fyrst og fremst að efla leikskóla bæjarins með betri mönnun og bættri leikskólaþjónustu fyrir börn og foreldra í Kópavogi.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri