Framtíðin er barnanna okkar

214

Skólastarf í grunnskólum Kópavogs er hafið og skólarnir farnir að iða af lífi á ný. Skólasetning fór fram miðvikudaginn, 23. ágúst en í Kópavogi eru starfandi tíu grunnskólar. Á komandi skólaári munu um 5000 grunnskólanemar stunda nám í Kópavogi og um 500 sex ára börn eru nú að hefja sína grunnskólagöngu.
Hörðuvallaskóli hefur undanfarin ár verið fjölmennasti skólinn í Kópavogi en nú hafa orðið breytingar á. Skólanum hefur verið skipt í tvo sjálfstæða skóla annars vegar Hörðuvallaskóli fyrir nemendur í 1.-7.bekk og hins vegar Kóraskóli fyrir unglingastigið, 8.-10.bekk. Hörðuvallaskóli hefur lengi verið einn fjölmennasti grunnskóli landsins með um 900 nemendur en eftir skiptinguna er Kársnesskóli orðin fjölmennasti skólinn í Kópavogi með um 700 nemendur.

Frístundastarf
Mikil ánægja hefur verið hjá foreldrum sex ára barna með að grunnskólar Kópavogs bjóði verðandi grunnskólanemum að hefja nám tveimur vikum fyrir upphaf skólaárs í frístund. Nemendur kynnast þar betur skólanum, frístundinni og því sem í vændum er en mikil breyting felst í því að hefja nám í grunnskóla.
Frístundin er skipulögð í anda þeirrar stefnu að skapa betri samfellu á milli skólastiga og er gert ráð fyrirað börn útskrifist úr sínum leikskóla fyrir sumarfrí og hefji aðlögun að næsta skólastigi í sumardvöl við sinn hverfisskóla. Markmiðið er að stuðla að vellíðan, öryggi og jákvæðri aðlögun nemenda, jafnt félagslega sem og námslega að umhverfi grunnskólanna.

Öflug og faglegt starf í félagsmiðstöðvum er aðgengileg ungu fólki í Kópavogi. Félagsmiðstöðvar í Kópavogi sinna mikilvægu og öflugu frístunda- og forvarnarstarfi sem tengist beint og óbeint greinum Barnasáttmálans og greinum Heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna. Skipulagt hópastarf er stór hluti af starfinu og í aðgerðaráætlun Menntastefnu Kópavogs. (Þátttaka barna í frístunda- og íþróttastarfi) er unnið sérstaklega að því að auka þátttöku ungmenna í hópastarfi með það að markmiði að bæta líðan og auka virkni ásamt því að læra að takast á við félagslegar aðstæður. Í aðgerðaráætlun menntastefnu Kópavogs 2023 hefur verið unnið að þróun mælinga á árangri hópastarfs í félagsmiðstöðvum Kópavogs. Mikilvægt er að meta árangur starfsins og því var farið af stað með í sumar tvenns konar kannanir sem lagðar voru fyrir nemendur í 8. – 10. bekk sem sækja starf félagsmiðstöðvanna. Annars vegar er um að ræða almenna þjónustukönnun þar sem unglingarnir meta árangur og ánægju með starf félagsmiðstöðva og hinsvegar að ná til ungmenna sem standa höllum fæti.

Snjallir skólar í Kópavogi
Á tímum þar sem tæknin þróast hratt er mikilvægt fyrir skóla að aðlagast breyttu samfélagi hverju sinni og samþætta tækniframfarir inn í námsumhverfið. Kópavogsbær hefur um árabil verið leiðandi í stafrænni vegferð fyrir skólastarf og hóf að innleiða spjaldtölvur við kennslu haustið 2016. Til að meta áhrif innleiðingarinnar var framkvæmd yfirgripsmikil rannsókn á árunum 2021 – 2022 á vegum Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru kennarar, nemendur, foreldrar og skólastjórnendur. Matsrannsóknin leiddi margt jákvætt í ljós meðal annars að fjölbreytni hefði aukist og fleiri tækifæri til aðlögunar náms og sköpunar í námi. Einnig komu fram þættir sem greina þarf betur og bregðast við, t.d. að setja mörk um notkun snjalltækja, fækka tæknilegum hindrunum og skoða möguleika á verkfærum fyrir nemendur þar sem þeir geta nýtt lyklaborð og pennavið stafræna námið. Umbótaáætlun í kjölfar rannsóknarinnar kemur til framkvæmda í skrefum á því skólaári sem er að hefjast.

Réttindaskólar UNICEF
Kópavogur er sem fyrr barnvænt sveitarfélag en það byggir á samstarfssamningi UNICEF og Kópavogsbæjar. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og er Barnasáttmálinn notaður sem leiðarljós í þeirri vinnu. Vinna við að innleiða Réttindaskóla UNICEF í nokkrum leik- og grunnskólum hófst árið 2022. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna verkefnið leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfinu. Réttindaskóli hefur það markmið að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að efla með markvissum hætti þekkingu og viðhorf sem hjálpar börnum og ungmennum að verða gagnrýnir og virkir þátttakendur í nútímasamfélagi. Snælandsskóli og Vatnsendaskóli eru orðnir réttindaskólar, Álfhólfsskóli ásamt Lindaskóla eru í innleiðingu og mun Smáraskóli hefja innleiðingu í vetur. Vinnan fer fram í skólanum, frístundinni og félagsmiðstöðinni samtímis.

Áhersla á stafrænt læsi og stafræna borgaravitund
Lögð er sérstök áhersla á stafrænt læsi og stafræna borgaravitund í grunnskólum Kópavogsbæjar þar sem nemendum er kennt að vafra um stafrænar auðlindir á ábyrgan og skilvirkan hátt. Grunnskóladeildin hefur tekið saman námsefni á íslensku og keypt þýðingar á efni fyrir skólasamfélagið í þessu sambandi. Fulltrúar skólanna hafa sótt endurmenntun í kennslu í stafrænni borgaravitund og á þessu skólaári verður lagt af stað í skólunum með markvissa fræðslu. það er gaman að segja frá því að Grunnskóladeildin í samstarfi við alla grunnskólana fékk hæsta styrk úr Sprotasjóði til að móta viðmiðunarnámskrá í stafrænni borgaravitund. Verkefnið felst einnig í gerð kennsluáætlana í stafrænni borgaravitund og þær verða rýndar og prófaðar með nemendum. Verkefnið tekur til tveggja næstu skólaára.

Samþætting upplýsingatækni við starf grunnskólanna markar mikilvægt skref fram á við í þeirri vegferð að veita góða menntun sem undirbýr nemendur okkar fyrir framtíðina. Niðurstöður rannsóknarinnar sem vísað er í hér að ofan eru merki um að verkefnið er þróunarverkefni og mun umbótaráætlunin leggja grunninn að næstu skrefum til framtíðar.

Stafrænt nám í skólum
Á tímum þar sem tæknin þróast hratt er mikilvægt fyrir skóla að aðlagast breyttu samfélagi hverju sinni og samþætta tækniframfarir inn í námsumhverfið. Kópavogsbær hefur um árabil verið leiðandi í stafrænni byltingu fyrir skólastarf og og samþætta snjalltæki við námsferlið árið 2015 þegar undirbúningur að innleiðingu spjaldtölva í grunnskóla Kópavogsbæjar hófst. Innleiðingin kom síðan til framkvæmda haustið 2016 og til að meta áhrif innleiðingarinnar var framkvæmd yfirgripsmikil rannsókn á árunum 2021 – 2022 á vegum Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru kennarar, nemendur, foreldrar og skólastjórnendur. Matsrannsóknin leiddi margt jákvætt í ljós eins og aukna fjölbreytni og fleiri tækifæri til aðlögunar náms og sköpunar í námi. Einnig komu fram þættir sem greina þarf betur og bregðast við, t.d. að setja mörk um notkun snjalltækja, fækka tæknilegum hindrunum og skoða möguleika á verkfærum fyrir nemendur þar sem þeir geta nýtt til að mynda lyklaborð og penna við stafræna námið. Umbótaáætlun í kjölfar rannsóknarinnar kemur til framkvæmda í skrefum á því skólaári sem er að hefjast.

Breytt og bætt þjónusta hjá Molanum
Það eru spennandi breytingar á þjónustu við ungmenni í Kópavogi. Molinn – Miðstöð unga fólksins hefur fengið það hlutverk að vinna að menntun, velferð og vellíðan ungs fólks á aldrinum 16 – 25 ára. Markmiðið með breytingunum er að efla verulega þjónustu við ungmenni í Kópavogi og auka fjölbreytileika hennar í þeim tilgangi að geta mætt betur þörfum ólíkra hópa ungmenna. Meðal annars er verið að styrkja stöðu ráðgjafa ungmenna í Molanum, sem og lögð verður áhersla á að auðvelda aðgengi ungmenna að þjónustu hjá viðurkenndum aðilum sem láta sér hagsmuni ungs fólks varða, og þannig komið á samstarfi við félagasamtök, menntastofnanir og aðra aðila sem vinna í þágu ungs fólks.

Í Kópavogi eru framsæknir grunnskólar þar sem starfar öflugt starfsfólk sem undirbýr börnin okkar sem best fyrir framtíðina.

Við upphaf skólaárs vil ég óska nemendum og kennurum velfarnaðar með það að leiðarljósi að skólastarfið í vetur verði farsælt og gott.

Hanna Carla Jóhannsdóttir, formaður menntaráðs