Engin lausatök

525

Engin lausatök

Kópavogur hefur gert vel en ætlar ætlar sér að gera enn betur í grunnþjónustu fyrir alla bæjarbúa. Ábyrgur rekstur er hins vegar forsenda þess að unnt sé að tryggja innviði til lengri tíma og veita sveigjanlega og framúrskarandi þjónustu sem mætir þörfum íbúa. Því skiptir höfuðmáli að standa vörð um traustan rekstur og safna ekki skuldum. Meirihlutinn í Kópavogi leggur áherslu á að greiða niður skuldir og að velta þeim ekki yfir á herðar framtíðarkynslóða. Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand á fyrri hluta þessa árs voru skuldir Kópavogsbæjar greiddar niður um ríflega tvö hundruð milljónir króna, umfram verðbætur. Veltufé frá rekstri var ríflega átta hundruð milljónir króna, en það er það fjármagn sem við höfum til að fjárfesta í í innviðum og öðrum framtíðarverkefnum. Við ætlum á sama tíma að lækka fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki til að mæta gríðarlegri hækkun á fasteignaverði.

Víti til varnaðar

Skuldaraukning ár frá ári hamlar því að þjónusta við íbúana sé bætt og enn frekar að dregið sé úr álögum á þá. Nú þegar sveitarfélögin senda frá sér uppgjör eitt af öðru er áberandi hvernig Reykjavíkurborg sker sig sem fyrr úr. Höfuðborgin hefur safnað og lengt í skuldum þrátt fyrir að tekjur borgarsjóðs hafi sennilega aldrei verið meiri. Árlega hafa hlutdeildarfélög borgarinnar, hvort sem eru Félagsbústaðir eða Orkuveita Reykjavíkur, komið rekstrinum til bjargar. Orkuveita Reykjavíkur skilar borginni að jafnaði milljörðum króna í arðgreiðslur ár hvert, og í ár er sextán milljarða króna uppfærsla á eignum borgarinnar í Félagsbústöðum megin skýring á því að borgin er ekki í margra milljarða króna taprekstri. Slík uppfærsla mun hvorki nýtast til að bæta þjónustu borgarinnar eða auka fjárfestingargetu hennar – nema vilji sé til að selja félagslegt húsnæði ofan af skjólstæðingum borgarinnar á markaðsvirði á kjörtímabilinu. Ljóst er að borgin þarf að taka erfiðar ákvarðanir á næstu árum í rekstri og fjárfestingum.

Kópavogur hefur um langt skeið verið farsælt sveitarfélag í fremstu röð, vel rekið og tekið skynsamar ákvarðanir í fjárfestingum sínum. Losaratök í fjármálum sveitarfélaga líkt og sést í höfuðborginni er slóð sem Kópavogsbúar vilja ekki feta. Fjárhagsstaða Kópavogs er sterk og þannig verður það áfram undir okkar stjórn.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi