Hristum upp í hlutunum

476

Hristum upp í hlutunum

Um síðustu aldamót, í september 2000, gengu ungir menn inn á skrifstofu forstjóra Blockbuster, sem þá var stærsta myndbandaleigan í Bandaríkjunum, og buðu honum að kaupa lítið sprotafyrirtæki – Netflix – sem var í vanda statt eftir að hin svonefnda netbóla sprakk. Fundurinn var stuttur og forstjórinn nánast vísaði ungu mönnunum á dyr. Tíu árum síðar var Blockbuster orðið gjaldþrota þegar fólk var hætt að leigja videóspólur en við þekkjum vel og upplifum mörg daglega hvernig saga Netflix þróaðist. 

Þessi saga er oftast sögð í gamansömum tón og dæmið notað til að benda á skammsýni forstjóra hins rótgróna fyrirtækis sem sá ekki fyrir sér hvernig framtíðin myndi þróast. Það eitt og sér er áhugavert, en það eru þó fleiri þættir í þessari sögu sem hægt er að horfa til. 

Það gleymist stundum að benda á að Blockbuster var á þessum tíma risafyrirtæki. Það gerist ekki að sjálfu sér og á einhverjum tímapunkti var stefnumótun og stjórnun fyrirtækisins augljóslega til þess fallin að hjálpa fyrirtækinu að komast á þann stað. Einhvers staðar á þessari vegferð staðnaði fyrirtækið og hætti að sækja fram – hugsanlega af því að stjórnendur þess stöðnuðu eða urðu værukærir. Þetta er mögulega einföld mynd af flóknum veruleika þar sem tækniframfarir breyttust hraðar en almennt mátti eiga von á og hristu upp í daglegu lífi fólks. Það eru þó til fleiri sambærileg dæmi um fyrirtæki sem hafa gengið vel – já og stjórnvöld sem hafa staðnað í velgengni. 

Á sveitarstjórnarstiginu hafa kröfur um aukna þjónustu vaxið ár frá ári og kjörnir fulltrúar þurft að huga að leiðum til að mæta þeim kröfum án þess að missa tökin á rekstrinum. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að hrista aðeins upp í hlutunum. Vissulega er margt ólíkt með rekstri sveitarfélaga og fyrirtækja en það gilda þó sambærileg lögmál um hugarfar þeirra sem leiða og veita forystu. Skiptir máli að hafa skýra á sýn á verkefnin, hugsa út fyrir hinn hefðbundna ramma og sækja fram á öllum sviðum.  

Á síðasta áratug hafa heildarútgjöld sveitarfélaga vaxið um helming að raunvirði og útgjöld á hvern íbúa um þrátíu prósent. Tekjurnar hafa ekki fylgt eftir, enda útsvarsprósentur og fasteignaskattar víðast við þolmörk. Það mun ráða miklu um hvernig sveitarfélögum mun farnast á næstu árum hvernig gengur að móta stefnu og hugmyndir í þá átt að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri þeirri.

Sveitarfélög þurfa ekki að finna upp hjólið í sitt hvoru lagi, stundum er hagkvæmara að vinna sameiginlega að ákveðnum verkefnum. Við í Kópavogi erum vakandi fyrir góðum hugmyndum og þær leynast víða. Eitt er víst að stöðnun er ekki valkostur.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi