Eru ungabörnin okkar á réttum stað?

939

Rannsóknir sýna að fyrstu tvö árin í lífi barns hafa ótvíræð áhrif á framtíð þess. Kærleiksrík samskipti á þessum viðkvæmu árum leggja mikilvægari grunn að framtíðar heilbrigði einstaklinga en nokkurt annað æviskeið. Ungabörn gera kröfur til foreldra sinna allan sólarhringinn og þau þurfa einstaklingsbundna umönnun frá fólki sem þykir vænt um þau, enginn getur sinnt því hlutverki betur en foreldrar þess eða forráðamenn.

Meðalævilengd á Íslandi er á bilinu 80-84 ár og ef við veltum þessum tölum fyrir okkur í stóra samhenginu, þá er ekki óeðlilegt að þessi tvö ár fari í að sinna ósjálfbjarga barni sem við sjálf ákváðum að eignast? Því miður hefur ekki verið tekið nægilega mikið tillit til þarfa barna hvað varðar ákvarðanir og umræðu um fæðingarorlof undanfarna áratugi. Nýjasta dæmið er starfshópur félags- og barnamálaráðherra sem skilaði tillögum nýverið varðandi lengingu orlofs í 12 mánuði. Í hópnum voru hinir ýmsu hagsmunahópar vinnumarkaðarins en hvergi var að finna sérfræðinga í málefnum barna, t.d. ungbarnavernd heilsugæslunnar, forsvarsmönnum leikskóla eða sérfræðingum í málefnum barna eða foreldra.

Hver eru langtímaáhrif af fjarveru ungra barna frá foreldrum?
Ítrekaðar kröfur um ungbarnaleikskóla og lægri inntökualdur barna eru háværar og telja margir að sú ráðstöfun að koma níu mánaða gömlu barni inn á stofnun í 8 klukkustundir á dag geri samfélagið okkar betra. Ég leyfi mér að efast stórlega í þeim efnum og finn satt að segja til með þessum litlu, ómálga krílum sem eru fjarri móður-og föður armi svo stóran hluta dagsins. Starfsfólk reynir allt sem í þeirra valdi stendur en óneitanlega fer barnið á mis við óskipta athygli, augnatillit, rólegheit og uppörvun foreldra, sem eru jú helstu aðdáendur barnsins. Leikskólinn hefur margt gott fram að færa en spurning hvort fullur vinnudagur séu full mikil byrði fyrir litlar sálir. Í ljósi þess að mikið er rætt um vanlíðan barna í skólum landsins er líklega kominn tími til að hugsa upp á nýtt. Gæti það verið að of mikil fjarvera frá foreldrum á mótunarárum valdi þeim kvíða og öryggisleysi seinna á æviskeiðinu? Þar til að fæðingarorlofsréttur verður orðin um tvö ár þurfum við að huga að lausnum í málefnum ungbarna. Kostnaður við eitt leikskólabarn á mánuði fyrir utan framlag foreldra er í kringum 300 þúsund krónur á mánuði. Stjórnvöld gætu komið til móts við foreldra með því að taka upp svokallaðan heimastyrk til foreldra með raunhæfum upphæðum svo að þær séu raunverulegur valkostur fyrir fjölskyldur. Vinnumarkaðurinn getur einnig tekið þátt í þessum aðgerðum með sveigjanlegum vinnutíma og áframhaldandi styttingu vinnuvikunnar sem ætti t.d. einungis við í tilfelli foreldra sem eru með börn yngri en tveggja ára.

Fjölskyldan á að ráða skiptingu fæðingarorlofsins milli foreldra
Mín skoðun er sú að börn undir tveggja ára aldri ættu aldrei að eyða stórum hluta dagsins í umsjá annarra, og lýsi ég þó engu vantrausti á þá sem annast börnin á leikskólum. Mín tilfinning og viðmið veita mér fullvissu um að við erum ekki á réttri leið í þessum efnum. Ég hef starfað mikið með börnum í gegnum tíðina og tel mig hafa ágætis innsæi í hugarheim þeirra og þarfir. Nýtt frumvarp um fæðingarorlof hefur nú verið lagt fram á Alþingi. Samkvæmt því hefur foreldrum verið gefin jafn langur réttur til fæðingarorlofstöku eða 6 mánuðir á hvort foreldri, þar sem einungis einn mánuður er framseljanlegur. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að ekki henti fjölskyldum að deila orlofi jafnt á milli foreldra, heldur geti það þjónað hagsmunum barnsins betur að annað foreldrið taki lengar orlof. Þar af leiðandi finnst mér mikilvægt að foreldrar eigi að hafa frelsi til þess að ráðstafa orlofi sínu á þann hátt sem það telur þjóna hagsmunum fjölskyldunnar og barnsins sem best. Við þurfum að hlúa betur að framtíð landsins og það gerum við með því að styðja við bakið á fjölskyldum og veita þeim tækifæri til þess að annast börnin sín í meira mæli en nú tíðkast.

Halla Karí Hjaltested, varabæjarfulltrúi