Nokkur orð um Arnarnesveg

882

Það er kaldhæðnislegt að fáeinum mánuðum eftir að ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér samgöngusáttmála um stórbættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu fari Reykjavíkurborg gegn tillögu Vegagerðarinnar um hagkvæmustu og bestu tillögu að gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Einhversstaðar teldist það til tíðinda að pólitíkin hlustaði ekki á sérfræðingana og raunar er það umfjöllunarefni út af fyrir sig af hverju Reykjavíkurborg skuldbindur sig til þess að tryggja greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, með uppbyggingu innviða allra samgöngumáta sem er eitt af höfuðmarkmiðum samkomulagsins, en gengur svo á bak orða sinna áður en blekið nær að þorna á sáttmálanum. En svona er víst lífið og það verður í öllu falli spennandi að fylgjast með framkvæmd samgöngusáttmálans þegar sveitarfélög túlka sáttmálann hvert með sínu nefi.

Ljósastýringin ekki á helstu leiðum fólks
En við viljum Arnarnesveg strax og tillagan sem er á borðinu er ekki eins slæm og hún kann að hljóma í fyrstu, enda gerir hún ráð fyrir mislægum gatnamótum. Bara ekki eins afkastamiklum og besta tillaga Vegagerðarinnar gerði ráð fyrir. Það er ljósastýring á hluta gatnamótanna, en ekki á helstu leiðum fólks í og úr efri byggðum. Þannig getur sá sem keyrir frá heimili sínu t.d. í Álfkonuhvarfi ekið til vinnu vestur í bæ án þess að lenda án ljósum fyrr en komið er að gatnamótum Jaðarsels og Breiðholtsbrautar. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Flöskuhálsar á helstu leiðum fólks sem aka Arnarnesveginn verða í Reykjavík. Þetta kom m.a. fram í máli sérfræðinga Vegagerðarinnar á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogsbæjar á dögunum.

Klárum þessa framkvæmd
Eftir á að hyggja hefði auðvitað átt að fá útfærslur hverrar framkvæmdar sem heyrir undir höfuðborgarsáttmálann skriflegar fyrirfram. Samgöngusáttmálinn var gerður í góðri trú og var því ekki talin þörf á slíku enda koma markmið samgöngusáttmálans skýrt fram, þ.e. uppbygging greiðra og skilvirkra samgangna, um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag og um aukið umferðaröryggi. Ég tel farsælast fyrir Kópavogsbúa og höfuðborgarsvæðið allt að framkvæmdum við Arnarnesveg verði lokið hið snarasta. Vegagerðin hefur ekki áhyggjur af afköstum gatnamóta þeirra sem nú liggja fyrir, og það áratugi fram í tímann. Mín skoðun er að skoða þarf betur umferðarflæði inn og úr hverfinu ásamt fyrirhuguðum ljósastýringum við Breiðholtsbraut. En það þarf að gerast hratt og vel. Klárum þessa framkvæmd.

Andri Steinn Hilmarsson,
formaður umhverfis- og samgöngunefndar og varabæjarfulltrúi.