Glaðheimar – enn eitt glæsihverfið

1133

Glaðheimahverfið í Lindunum liggur rétt austan Reykjanesbrautar og hefur þá sérstöðu að vera í miðju höfuðborgarsvæðisins. Tenging við hverfið er mjög góð bæði við nærliggjandi íbúðarbyggð sem og þjónustusvæðin í kring. Austur hluti hverfisins er nær fullbyggður með um 340 íbúðum ogá fundi bæjarstjórnar í lok október sl. var samþykkt tillaga að endurskoðuðu skipulagi á nýju hverfi í vestur hluta hverfisins. Þar eru ráðgerðar um 270 nýjar íbúðir ásamt lóðum fyrir verslun og þjónustu. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á svæðinu fljótlega á nýju ári.

Vegna staðsetningar og ánægju núverandi íbúa Glaðheimahverfisins hefur hin nýja byggð alla burði til þess að verða eftirsótt og eftirtektarvert borgarhverfi. Þéttleiki hverfisins er meiri en gengur og gerist í efri byggðum bæjarins og þær væntingar sem skipulagsyfirvöld hafa haft til þessa nýja hverfis, um vandaða og góða byggð eru að skila sér í hönnun, útliti og útfærslu einstakra húsa og lóða innan þess.

Ánægðir íbúar
Í sumar stóðu bæjaryfirvöld fyrir viðhorfskönnun meðal íbúa Glaðheima. Tilgangurinn var að leitast við að vega og meta nýtt hverfi út frá viðhorfi íbúa þess og nýta niðurstöðurnar við áframhaldandi skipulagsgerð og framkvæmdir í vesturhluta hverfisins ásamt öðrum hverfum í bænum. Í könnuninni kom fram almenn ánægja með hverfið. Einnig kom í ljós að staðsetning og nálægð við þjónustu skipti miklu máli þegar íbúarnir tóku ákvörðun um að flytja í hverfið. Flestir komu þeir úr Reykjavík og öðrum hverfum Kópavogs. Eins hafði útlit og ásýnd áhrif á staðarvalið og mikil ánægja var með lýsinguna í hverfinu. 66% íbúa Glaðheima sögðu að skipulag svæðisins hefði skipt máli við valið og 75% eru fremur eða mjög ánægðir með hjóla- og gönguleiðir í hverfinu og í nágrenni þess. En það var first og fremst nálægðin við þjónustu sem vóg hvað þyngst en 94% íbúa töldu að það hafi skipt mestu í ákvörðuninni um að flytja í hverfið. Helst þurfti bærinn að taka sig á varðandi leiksvæðin í hverfinu og er það mál í vinnslu.

Dregið úr umfangi atvinnuhúsnæðis
Vestur hlutinn sem liggur næst Reykjanesbrautar er um 8.6 ha að flatarmáli og landið óbyggt. Í deiliskipulagi frá 2009 var miðað við að á svæðinu risi eingöngu verslunar og þjónustuhúsnæði á um 90.000 m2 og húsin yrðu 5 til 8 hæðir. Nyrst á svæðinu var einnig gert ráð fyrir 32 hæða byggingu. Á þessum árum var því gert ráð fyrir að svæðið yrði eitt af öflugri þjónustusvæðum landsins og mynda miðkjarna höfuðborgarsvæðisins ásamt Smáranum, svæðinu við Dalveginn og Skógarlind. Í endurskoðuðu skipulagi svæðisins var ákveðið að draga úr umfangi atvinnuhúsnæðisins og breyta hluta þess í íbúðir, breyta gatnakerfinu og auka til muna opin svæði þar sem annars yrði leikskóli fyrir byggðina umhverfis. Úr varð að um helmingi svæðisins var breytt og þar munu nú um 270 íbúðir rísa af ýmsum stærðum og gerðum fyrir þá ríflega 700 manns sem áætlað er að munu búa í þessu nýja hverfi. Jafnframt var 32 hæða turninn lækkaður niður í 25 hæðir. Þegar ofangreind breyting var kynnt var ljóst að 25 hæða turn var ekki að falla í kramið hjá bæjarbúum. Fyrirhugaður turn var því lækkaður í 15 hæðir í lokaafgreiðslu tillögunnar hjá skipulagsráði og bæjarstjórn.

Spennandi verslunar- og þjónustusvæði
Nú eru því ráðgerðar 13 lóðir, sem liggja næst Reykjanesbrautinni, fyrir 3ja til 4ja hæða verslunar og þjónustuhúsnæði. Nyrst á svæðinu verða tvær hærri byggingar fyrir atvinnuhúsnæði. Ein 5 hæða bygging ásamt umræddum 15 hæða turni sem verður kennileiti hverfisins. Svæðið er virkilega vel staðsett, með tengingu við Reykjanesbraut, Arnarnesveg og Fífuhvammsveg og því ljóst að ekki er bara um að ræða vel staðsett íbúðarsvæði heldur einnig um spennandi kost er að ræða fyrir verslunar og þjónustufyrirtæki. Nú er hönnun gatna og veitukerfa á svæðinu að mestu lokið. Þá tekur við úthlutun lóða og í framhaldi af því fer enn eitt glæsihverfið í Kópavogi að rísa á einum besta stað höfuðborgarsvæðisins.

Hjördís Ýr Johnson
Bæjarfulltrúi og varaformaður Skipulagsráðs