Umhverfismálin eru mál Sjálfstæðisflokksins

743

Umræðan verður oft dálítið bjöguð. Eina stundina eigum við að hugsa um loftlagsmálin á Íslandi án samhengis við loftlagsmál heimsins, en þá næstu að hugsa um jörðina alla. Það kristallast til dæmis í umræðunni um álframleiðslu. Álframleiðsla er mengandi, en það ál sem er framleitt hér á landi er tíu sinnum umhverfisvænna en það ál sem framleitt er í Kína, þar sem kol eru nýtt til framleiðslu orkunnar. Ál er léttur málmur og dregur úr orkunotkun í samgöngum, s.s. með smíði lesta, bíla og flugvéla – og eins hægt að endurnýta það á hakvæman hátt. Ef til vill er álframleiðsla á Íslandi eitt stærsta framlag okkar til loftlagsmála heims, en þrátt fyrir það er okkur refsað í reikniformúlunum þannig að framlag landsins til umhverfismála yrði jákvæðara ef við framleiddum ekkert ál hérlendis.

Örplast og skaðleg efni í Faxaflóa
Ísland stendur mjög framlarlega á sviði umhverfismála og getum við miðlað þeirri þekkingu til umheimsins sem hér hefur skapast við nýtingu jarðvarma til húshitunar og raforkuframleiðslu, enda væru loftlagsmál heimsins á betri stað ef fleiri ríki heims nýttu þá þekkingu sem Íslendingar búa yfir. Við þurfum þó víða að gera betur, svo sem í umgengni okkar við hafið sem umlykur okkar fallegu eyju. Nefni ég í því sambandi fráveiturnar sem í dag dæla lítthreinsuðu skólpi á haf út, nokkurhundruð metrum frá strandlengjunni. Meðal þess sem er að finna í skólpinu eru milljónir lítra af sápuefnum og plast, ásamt fjölmörgum öðrum efnum sem eru skaðleg fyrir umhverfið og lífríki hafsins. Þetta sá ég t.d. síðastliðið vor á grásleppuveiðum þegar netin sem ég dró við eyjarnar í Faxaflóa voru löðrandi í þurrkum og annars konar plastúrgangi, en á sama tíma var verið að friðlýsa eyjarnar til þess að vernda þar fuglalíf. Fuglar sem hafa verið skoðaðir hér við strendur mælast nær undantekningalaust með örplast í sér.

Þurfum öfluga skólphreinsistöð fyrir höfuðborgarsvæðið
Almenningur getur lagt sitt af mörkunum með því að henda ekki því í salernin sem ekki á að fara út í sjó. Þurrkurnar eru með því versta sem við getum sturtað niður, þær setjast á dæluhjólin svo opna þarf skólphreinsistöðvarnar með þeim afleiðingum að allt sleppur ósíðar í sjóinn á meðan. Við þurfum að fara að huga að þessum málum og byggja almennilega skólphreinsistöð fyrir höfuðborgarsvæðið. Þetta yrði risa verkefni sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að sameinast um að ráðast í, með aðkomu ríkisins. Nýtanleg afurð þessháttar stöðvar yrði forsfor sem nýta mætti til uppgræðslu lands ásamt metanframleiðslu. Við eigum sem þjóð allt undir hreinleika náttúrunnar, hreinum og ómenguðum fiskafurðum og hreinleika lands með tærum ám. Ég hef nokkrum sinnum viðrað þessa hugmynd og vil ég ráðast í undirbúning að þessu verkefni og kostnaðargreina það. Ég vona að hún hljóti hljómgrunn fyrr en síðar, því þess háttar framkvæmd yrði okkur Íslendingum mikið framfaraskref þegar við seljum okkar hreinu afurðir og okkar hreina land.

Guðmundur Gísli Geirdal, Bæjarfulltrúi

Grein úr 70.árg. VOGA. Hægt er að lesa blaðið í heild HÉR