Gunnar og Guðríður á hraðferð

374

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti samhljóða í síðasta mánuði að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að fara yfir stöðu húsnæðismarkaðar. Hópurinn skal meðal annars skoða fyrirkomulag fjármögnunar til kaupa á eigin húsnæði, uppbyggingu og stöðuna á leigumarkaðnum og stöðu félagslegs húsnæðis. Nú ber svo við að bæjarfulltrúarnir Gunnar Ingi Birgisson og Guðríður Arnardóttir, sem hvorugt mun bjóða sig fram til áframhaldandi setu í bæjarstjórn, gera lítið úr þeirri vinnu sem framundan er enda telja þau sig bæði hafa hina einu réttu lausn og botna ekkert í okkur hinum að vilja fara betur ofan í málin! Það er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem við heyrum þann tón frá þeim skötuhjúum. Bæði saka þau mig um að vera seinan til ákvarðanatöku í þessum málum. Vel má vera að ég taki mér lengri tíma en þau kjósa til að samþykkja meiriháttar fjárfestingar Kópavogsbæjar í húsnæði og finna má mörg dæmi þar sem þau hafa tekið ákvarðanir í flýti. En dæmin eru líka mörg þar sem flumbrugangur Gunnars og Guðríðar hefur leitt til afdrifaríkra afleiðinga fyrir bæði tvö. Ég mun ekki endilega taka þau mér til fyrirmyndar.

Vandamál á landsvísu
Íslenski húsnæðismarkaðurinn er ekki aðeins til skoðunar hjá Kópavogsbæ. Önnur sveitarfélög standa frammi fyrir samskonar aðstæðum og af hálfu ríkisstjórnar Íslands er nú unnið að framtíðarskipan húsnæðismála. Að því verkefni koma fjölmargir aðilar, þar á meðal fulltrúar sveitarfélaganna.
Málin eru flóknari en svo að þau verði leyst með því að Kópavogsbær byggi tvö fjölbýlishús, eins og tillaga Gunnars Birgissonar gengur út á og Guðríður Arnardóttir vill taka undir en þó ekki! Þá virðist Guðríður alltaf gleyma því að hún var oddviti síðasta meirihluta hér í Kópavogi og á þeim tíma gerðist ekkert í loforðum Samfylkingarinnar í húsnæðismálum. Ekkert var unnið í því loforði frekar en svo mörgum öðrum. Í svo stórum og fjárfrekum málum sem húsnæðismálin eru þarf að vanda til verka enda er verið að horfa til langrar framtíðar af hálfu ríkisstjórnar. Sem ég tel að sé rétt nálgun. Ákvæði laga um fjármál sveitarfélaga setja þeim miklar skorður. Kópavogsbær er enn of skuldsettur, þótt vel hafi gengið að lækka skuldir undanfarið, og það gengur þvert gegn gildandi lögum að ráðast í miklar fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Þetta vita bæði Gunnar og Guðríður en láta sig litlu varða.

Óperunefnd Gunnars kostaði 44 milljónir
Gunnar Birgisson gerir mikið úr því að tillögu hans hafi verið vísað til nefndar og lætur að því liggja að það sé nánast regla að svæfa mál í nefnd. Þessu vísa ég algerlega til föðurhúsanna. Stjórnunarstíll okkar Gunnars er eflaust um margt ólíkur en í tíð núverandi meirihluta hefur miklu verið áorkað. Það sem helst hefur tafið störf okkar er þó það að Gunnar Birgisson hefur lítinn þátt tekið í störf- um meirihlutans, spilað sóló á fundum bæjarstjórnar og nánast ekki mætt á vikulega samráðsfundi bæjarfulltrúa meirihlutans á þessu ári. Samstarfsflokkar okkar sjálfstæðismanna í meirihlutanum hafa sýnt okkur ótrúlega þolinmæði vegna þessa. Gunnar er þó ekki óvanur að vinna mál í nefndum. Skemmst er að minnast óperunefndarinnar frægu, sem Gunnar stýrði, og vann að byggingu óperuhúss sem aldrei reis þó. Kostnaður við nefndina nam 44 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Einu get ég lofað. Starfshópur um húsnæðismarkað mun ekki kosta bæjarsjóð tugi milljóna króna en árangur af starfi hans verður meiri en af starfi óperunefndar Gunnars.

Grein birtist í Morgunblaðinu á bls. 35 þann 21. desember 2013