„Lífskjör aldraðra og réttindi er eitt helsta forgangsverkefni næstu ára”

445

—segir Margrét Björnsdóttir sem skipar 6. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa lengi verið fremst í flokki sveitarfélaga landsins hvað viðkemur skipulagi og uppbyggingu. Skipulagsmál eru eitt af mikilvægustu umhverfismálum hvers sveitarfélags og mikilvægt að vel takist til. Öll viljum við sjá falleg hverfi í bænum okkar og er það að lokinni skipulagningu á ábyrgð bæjaryfirvalda og íbúanna sjálfra að vel takist til. Margrét Björnsdóttir, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, segir að reiðhjólið hafi ekki verið tekið sérlega alvarlega sem samgöngutæki hér á landi fram til þessa. Þó eru ýmis merki um að á þessu sé að verða breyting. Til að auka hlut hjólreiða í samgöngum þurfi að gera ráð fyrir hjólum og hjólreiðafólki í skipulagi. Rannsóknir sýni að vel skipulagt grunnnet hjólaleiða hefur mikla þýðingu fyrir framgöngu hjólreiða. „En hvað er gott grunnnet og hvernig verður það til? Þeim spurningum verður ekki svarað nema að fyrir liggi rannsóknir. Skortur er á rannsóknum á hjólreiðum og stöðu þeirra í samgöngum á Íslandi. Ekki síst þarf að okkar mati að fá betri upplýsingar um reynslu „venjulegs“ hjólreiðafólks og hugmyndir þess um aðstæður til hjólreiða Samkvæmt henni stefnir Kópavogur að því að auka veg hjólreiða sem samgöngumáta þannig að þær verði aðgengilegur, skilvirkur og öruggur ferðamáti.”

Hverfaskipulag
„Samráð við íbúa er mikilvægur liður í góðri hverfaskipulagsvinnu. Með öflugu samráði við íbúa er hægt að vinna að betri hverfum, m.a. með samráðsfundum. Íbúar geta komið með ábendingar á heimasíðu hverfaskipulagsvinnunnar en útbúin hefur verið sérstök síða um verkefnið á heimasíðu Kópavogsbæjar. Allar hugmyndir sem berast verða síðan settar á heimasíðuna. Á skipulags- og byggingadeild bæjarins er nú hafin vinna við hverfaskipulag. Hlutverk hverfaskipulags er m.a. að efla samkennd og samráð við íbúa, þekkingu og hverfisvitund. Það hjálpar til við að fylla í götin á forsendum íbúa og hverfisins. Ásamt því að vera leið að fallegra og heilbrigðara hverfi í sátt við íbúa. Með hverfaskipulagi mun íbúum gefast frekari kostur á að fylgjast með og taka þátt í að móta sitt nánasta umhverfi (nærumhverfi) og þróun þess. Reynslan sýnir að með samráði má ná betri árangri en ella og góður árangur undirstrikar mikilvægi þess að ákvarðanir séu teknar í samráði við íbúana. Með góðu og virku samráði geta íbúar komið að ákvörðunartökuferlinu, sett sína skoðun fram og mótað umhverfi sitt í samstarfi við bæjaryfirvöld. Íbúar þekkja best og hafa mestan áhuga á sínu nánasta umhverfi og skoðanir þeirra á því og væntingar um mótun þess og eðlilegt að þeir vilji fá vitneskju um hvað er að gerast í kring um það í hverfinu, t.d í umferðarmálum, frágangi svæða og fleiru. Samráðið á að virka hvetjandi, vera vettvangur til skoðanaskipta og uppspretta hugmynda og tillagna. Hlutverk hverfaskipulags er að kveða nánar, en gert er í aðalskipulagi, á um helstu þætti hvers bæjarhluta, með áherslu á hvar breytinga er að vænta eða hvar þeirra er þörf. Í hverfaskipulagi er fyrst og fremst fjallað um byggð, þjónustu, umhverfi, umferð og íbúa. Hverfaskipulag er mitt á milli aðalog deiliskipulags. Það nær til minna svæðis heldur en aðalskipulag en stærra svæðis heldur en deiliskipulag. Það markar stefnu hvers hverfis, heildarsýn og þverfaglega hugsun. Þar kemur fram virk þátttaka íbúa og er hugsað til þess að upplýsa íbúa um atriði í nánasta umhverfi þess. Hverfaskipulag er unnið á grunni stefnumótunar sem sett er fram í samþykktu Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 en þar kemur fram að Kópavogur skiptist í fimm hverfi; Kársnes, Digranes, Smára, Fífuhvamm og Vatnsenda. Hverfaskipulag er unnið í samvinnu við skipulagsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og framkvæmdaráð.”

Ferðaþjónusta í Kópavogi
Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Hefur þeirri atvinnugrein verið sýnd nægileg athygli í Kópavogi? „Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem getur skapað miklar gjaldeyristekjur og það er fullt af sóknarfærum á því sviði í Kópavogi. Með uppsetningu fróðleiksskilta vítt og breitt um bæjarlandið er markvisst verið að hlúa að menningarverðmætum og auka fræðslu um náttúruog söguminjar. Við getum líka bætt möguleika til afþreyingar fyrir ferðamenn með því að skapa betri aðstöðu fyrir smáog skemmtibáta við höfnina í Kópavogi og nýta önnur tækifæri tengdum hafinu eins og hvalaskoðun, stangveiði, útsýnisferðum og sjávardýrasafni.”

Brýnt að öldruðum verði gert kleift að búa á heimili sínu
Eldri borgurum fjölgar stöðugt. Þurfa hagsmunir þeirra ekki að njóta vaxandi athygli á komandi árum? „Lífskjör aldraðra og réttindi er eitt helsta forgangsverkefni næstu ára. Síversandi kjör eldri kynslóðanna er mál sem snertir okkur öll. Leiðrétting til ellilífeyrisþega vegna kjaragliðnunar undanfarinna ára er enn óbætt og bendir margt til þess að komið sé að þolmörkum hjá vaxandi fjölda þeirra. Nægir í þessu sambandi að benda á nýlegar kannanir sem sýna hvernig hátt hlutfall eldri borgara, sem sparar við sig í læknisþjónustu, sker sig úr í samanburði við aðra aldurshópa. Þá er ekki síður brýnt að sjálfsákvörðunarréttur aldraðra verði virtur í reynd. Eins og málum er háttað, getur þessi mikilvægi grunnréttur beinlínis orðið velferðarkerfinu að bráð, eins og skert sjálfræði og fjárræði þeirra sem dvelja á öldrunarstofnunum er til marks um. Þá er ekki síður brýnt að öldruðum verði gert kleift að búa á heimili sínu eins lengi og vilji hvers og eins og afl stendur til. Réttur til sjálfsákvörðunar er í senn grundvöllur mannréttinda og mannlegrar reisnar,” segir Margrét Björnsdóttir.