Loforð # 48: Reykjanes í stokk

550
Ljósmyndari : Aldís Pálsdóttir

Að tengja Smárann og Glaðheima yfir Reykjanesbrautina er alls ekki ný hugmynd.  Í gegnum árin hafa komið fram ýmsar tillögur um tengingar, því um leið og Kópavogur fór að teygja sig upp í efri byggðirnar var ljóst að Reykjanesbraut var að hindra samgöngur á milli hverfa.  Fyrir ári síðan samþykkti Bæjarstjórn að efna til opinnar hugmyndasamkeppni til að fá nýja sýn á svæðið og þá möguleika sem gætu verið til staðar.  Í keppnislýsingu var lögð áhersla á að hafa svæðið frekar stærra en minna til að hefta ekki hugmyndaflæðið.  Markmiðið var að tengja Glaðheima og Smárann, efla almenningssamgöngur, ýta undir virka ferðamáta og almennt auka lífsgæði íbúa með fjölbreyttu mannlífi.

Þrjár tillögur bárust og hlutu ASK arkitektar 1. verðlaun með tillögu sinni Borg  í mótun/Grænn miðbær.    Í vinningstillögunni er Reykjanesbraut lögð í stokk á um eins kílómetra löngu kafla sem gjörbreytir allri ásýnd svæðisins.  Fjölbreytt og spennandi byggð kemur í stað hraðbrautar þar sem auðvelt verður að fara á milli hverfa bæði gangandi, hjólandi og akandi.  Gert er ráð fyrir tengistöð fyrir almenningssamgöngur í grennd við Smáralind og þarna má einnig finna falleg græn svæði og torg.

Tillagan er djörf og mun án efa taka töluverðum breytingum í skipulagsferlinu, en hún sýnir glöggt möguleikana sem fyrir hendi eru á svæðinu.  Til þess að ná fram þeim lífsgæðum sem felast í því að leggja Reykjanesbrautina í stokk þarf auðvitað að ráðast í miklar innviðafjárfestingar.  Það má þó ekki gleyma því að svona stokkalausn skapar líka mikil verðmæti sem vega upp á móti kostnaði.  Jafnframt hefur nú þegar verið rætt um möguleikann á að sameina uppbyggingu stokksins og seinni hluta Glaðheimasvæðisins sem er að verða tilbúið til úthlutunar.  Við erum því bjartsýn og á 100 loforða listanum okkar er loforð #48 svo hljóðandi ,,Við ætlum að hefja strax þá vinnu að leggja Reykjanesbraut í stokk og skipuleggja græna byggð meðfram stokknum.“   Fyrsta skrefið er einfaldlega að hefja samtalið við Vegagerðina og sjá hvernig best sé að hefjast handa. Nánari upplýsingar um 100 loforða listann má finna inn á: https://xdkop.is/100-loford/

Hjördís Ýr Johnson

Bæjarfulltrúi og varaformaður Skipulagsráðs.