Má ekkert vera í friði, kæri heilbrigðisráðherra?

495

Undanfarin ár hefur Krabbameinsfélagið séð um fyrstu skimanir fyrir brjósta og leghálskrabbameini kvenna. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að því virðist einhliða að endurnýja ekki samning ráðuneytisins við Krabbameinsfélagið um þessa þjónustu og það þvert á ráðleggingar skimunarráðs. Stefnubreytingin er sú að þessar skimanir færist á tvo aðra staði. Brjóstaskimun skal færast á Landsspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri og leghálsskimunin á heilsugæslustöðvar eða að konur framkvæmi þetta sjálfar heima. Það líður ekki langt á milli frétta af of miklu álagi á Landsspítalann og nú þegar er biðtími eftir framhalds brjóstamyndatöku á Landspítalanum sjö sinnum lengri heldur en alþjóðleg viðmið segja til um. Hvernig getum við réttlætt 35 daga biðtíma eftir myndatöku ef fyrsta skimunarmyndataka bendir til meinvarps?

Það er búið að vera með ólíkindum að fylgjast með stefnu heilbrigðisráðherra er varðar t.d. liðskiptaaðgerðir. Þar sem að það sé talið skynsamlegra að senda sjúklinga til Svíþjóðar frekar en að heimila aðgerðir hér á landi á einkastofum. Þess í stað eru sjúklingar sendir erlendis, með ferðafélaga að eigin vali, og settir undir hnífinn jafnvel hjá íslenskum læknum á einkastofum sem taka á móti þeim þar. Það er auðvitað ekki heil brú í svona ákvörðunum sem kostar skattgreiðendur mun hærri fjárhæðir heldur en nauðsynlegar eru.

Nú fáum við konur að kenna á undarlegri heilbrigðisstefnu, með því að leggja niður þjónustu sem við lang flestar erum þakklátar fyrir. Að koma á leitarstöðina í þessum erindagjörðum er ekki tilhlökkunarefni en móttökurnar og umhverfið bætir þessar heimsóknir töluvert. Þarna taka konur á móti konum í þægilegu og skilningsríku umhverfi. Rökin sem notuð eru að þátttaka í skimunum er ekki nægileg í ákveðnum aldursflokkum og ekkert hefur verið ákveðið með gjaldtöku.

Á að telja okkur trú um að það að mæta á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús muni auka líkurnar á því að konur fari í þessar skimanir? Má ekkert vera í friði í heilbrigðiskerfinu sem minnir á einkarekstur og ætlum við að sitja þegjandi undir því? Krabbameinsfélagið hefur einnig greitt með þessari vanfjármögnuðu þjónustu tugi milljóna undanfarin ár ásamt gjafafé frá Bleiku slaufunni og fjölmörgum öðrum styrktaraðilum. Gjaldið fyrir hverja heimsókn er því niðurgreitt af gjafafé þeirra sem líta á þessa þjónstu mikilvæga í baráttunni við krabbamein kvenna. Það er talið skipta höfuðmáli að þessi þjónusta sé gjaldfrjáls til þess fjölga heimsóknum. Ef svo er, ætti ekki heilbrigðisráðherra að bregðast við því í samstarfi við Leitarstöðina áður en þessi þjónusta er lögð niður í þeirri mynd sem hún hefur fengið að vera í undanfarin ár. Væri það ekki skynsamlegra áður en farið er í fjöldauppsagnir innan Leitarstöðvarinnar, starfssemin brotin upp og áður en skimunarkerfinu er stokkað tilviljanakennt upp milli stofnana sem þegar hafa nóg á sinni könnu?

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi