Með augun á rekstrinum

268

Rekstur Kópavogsbæjar á fyrstu sex mánuðum ársins endurspeglar traustan rekstur í erfiðu efnahagsumhverfi. Aukin verðbólga og háir vextir lita rekstrarniðurstöðu flestra sveitarfélaga og því mikilvægt að horfa til undirliggjandi reksturs við mat á hversu vel þau standa í því krefjandi efnahagsumhverfi sem nú steðjar að.

Hjá Kópavogsbæ er veltufé frá rekstri jákvætt um 1,5 milljarð króna á fyrri helmingi ársins, sem er það fjármagn sem reksturinn skilar til að greiða niður skuldir eða ráðast í framkvæmdir. Þá er afkoma fyrir fjármagnsliði jákvæð og skuldaviðmið vel undir lögbundnu lágmarki. Rekstur Kópavogsbæjar byggir á góðum grunni og við búum vel að því að hafa greitt niður skuldir undanfarin ár.

Það er um leið meðvituð ákvörðun okkar sem stýrum bæjarfélaginu að halda aftur að útgjaldavexti, enda höfum við séð fjölmörg dæmi þar sem ósjálfbær skuldasöfnun sveitarfélaga leiðir óhjákvæmilega til skattahækkana eða skerðingar á þjónustu síðar meir.

Við höfum lagt áherslu á að skila ábata af góðum rekstri til bæjarbúa, bæði í formi skattalækkana og bættrar þjónustu. Þessar áherslur endurspeglast meðal annars í lækkun fasteignaskatta um 400 milljónir króna á árinu, svo tekið sé dæmi. Áfram ætlum við að lækka fasteignaskatta og það strax á árinu 2024.

Rétt forgangsröðun
Á hverju tíma þurfum við að huga að því hvernig unnt sé að hagræða betur og nýta með skynsamari hætti fjármuni bæjarbúa. Á vinstri væng stjórnmálanna er tilhneiging til að afvegaleiða umræðu þegar hagræðing eru boðuð hjá hinu opinbera og leggja að jöfnu hagræðingu og niðurskurð. Hér er þó um tvo ólíka hluti að ræða. Hagræðing er fólgin í því að nýta betur skattfé almennings fyrir sömu eða jafnvel betri þjónustu. Aftur á móti er niðurskurður skerðing á þjónustu. Hjá Kópavogsbæ hefur verið forgangsmál að efla þjónustu við bæjarbúa en um leið að láta skynsemi ráða för við nýtingu hinna takmörkuðu fjármuna sem úr er að spila. Við boðuðum sem dæmi breytingar á menningarhúsum bæjarins með það að markmiði að efla menningarstarfið með hagkvæmari hætti.

Í því samhengi má nefna aukna sjálfvirknivæðingu á bókasafninu sem skila sér í færri stöðugildum en skilvirkari þjónustu.

Nýverið voru kynntar breytingar í leikskólum bæjarins þar sem markmiðið er að tryggja betri mönnun á leikskólum og efla þannig leikskólaþjónustu fyrir börn og foreldra í Kópavogi með réttum hvötum. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að samið hafi verið um umtalsverðar launahækkanir, aukin réttindi og styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskóla hefur ástandið á leikskólum ekki skánað, heldur versnað! Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur kallað eftir frekari hækkun launa til að bæta stöðuna. Mikil skammsýni er fólgin í slíkum yfirlýsingum og algjörlega úr takti við ástand leikskólanna og líðan starfsfólks. Á sama tíma og laun og annar rekstur hafa hækkað verulega síðastliðinn áratug þá hafa leikskólagjöld ekki hækkað í samræmi. Kostnaðarþátttaka foreldra hefur farið úr því að vera 20% í 12%. Þá höfum við séð að börn eru almennt skráð með lengri dvalartíma en raunin er. Í því felst mikil sóun því leikskólar eru reknir og mannaðir miðað við skráðan dvalartíma. Með réttum hvötum vonumst við til að skráður dvalartími samræmist betur raundvalartíma.

Réttar áherslur
Við erum kjörin til að standa vörð um þá þjónustu sem bæjarbúar treysta á að sé í lagi. Við stöndum undir þeirri ábyrgð og höfum ítrekað sagt að verkefni okkar felst í því að tryggja góða þjónustu og ábyrgan rekstur. Hér hef ég nefnt nokkur verkefni sem við höfum sett í forgang undanfarin misseri. Við verðum áfram með augun á rekstrinum og áherslur okkar felast í því að greiða niður skuldir, tryggja góðan rekstur og skila ábatanum til bæjarbúa í formi lægri skatta og bættrar þjónustu. Við trúum því að þetta eru réttar áherslur sem hið opinbera ætti ávallt að setja í forgang.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri