Sama hvaðan gott kemur

423

Það var beinlínis „gott“ að hlusta á áramótaávarp forsætisráðherra. Vinkona mín sagði eftir hlustun að nú skildi hún afhverju pólitískir andæstæðingar Sigmundar beinlínis hötuðu hann, hann nefninlega kann þetta! Hann sló á alla réttu strengina og barði líf og kraft í þjóð sína. Nú mætti halda að ég væri skyndilega einlægur aðdáandi Framsóknar vegna þessara orða, svo er auðvitað alls ekki. Ég hins vegar kann að meta fólk úr öllum flokkum og hlusta á orð annarra ekki bara út frá hvaðan þau koma heldur hvað er sagt! Þetta er hins vegar ekki alltaf auðvelt og því miður afar sjaldgæft í íslenskri umræðu í dag. Við erum enn pikkföst í gömlu hatursumræðunni, þar sem að kjaftasögur verða að forsíðufréttum fjölmiðla og getgátur staðreyndir vegna þess að þær eru sagðar unnar úr einhverjum „lekasíðum“ sem virðast hafa einhvern sjálfkrafa trúverðugleika. Kappið við að koma höggi á andstæðinginn verður til þess að fleiri og fleiri fremja nokkurskonar mannorðsmorð á sjálfum sér þegar lekarnir eru laptir upp.
Það er samt ekki allt gott við áramótafrumvarpið. Það var vitaskuld gott að hlusta á einstakling sem ætti að hafa meiri upplýsingar um raunmöguleika þjóðarinar að vinna sig frá kreppnunni segja að nú fari ástandið loks að lagast. Komin tími til eftir 5 ára óvissutímabil sem einkennst hefur af landflótta og ruglingslegum skilaboðum stjórnvalda um hvert skal halda. Hins vegar sjáum við ekki enn fyrir endann á helsta vanda þjóðarinnar og því miður eru ekki alltof mörg teikn á lofti hvernig skal leysa hann. Við erum enn í höftum! Gjaldeyrishöftum sem koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu og eðlilegar fjárfestingar hjá innlendum fjárfestum ásamt krónuafsláttarleið Seðlabankans sem mismunar fólki og fyrirtækjum. Hér verður ekkert í lagi fyrr en þessi mál eru leyst. Allar góðar ætlanir og tal um hversu mikla möguleika landið á eru til lítils fyrr en að gjaldeyrishöftin verða hluti af fortíðinni.

Til þess að leysa þetta langstærsta vandamál þjóðarinnar þarf einbeitt og samhent átak allra, án þess að blanda inngöngu Íslands í ESB sem þrætuepli inn í jöfnuna. Þá heitu umræðu þarf að taka eftir að búið er að losa höftin. Ég velti því stundum fyrir mér hvort að stjórnmálastéttin, að undanskildum örfáum, sé viljandi ekki að ræða lausnir á gjaldeyrishöftunum. Það er beilínis súrealískt að hlusta á umræður á Alþingi um desemberuppbætur atvinnuleitenda, IPA styrki eða hvers vegna forsætisráðherra í sé í fríi á meðan ekkert virðist vera gert eða sagt í þessu stærsta vandamáli þjóðarinnar. Hvers vegna ætli á því standi? Er það vegna þess að kunnáttan er ekki fyrir hendi til að leysa þetta, er vandamálið OF stórt til úrlausnar og því meðhöndlar fólk það eins og nakta manninn í stofunni sem lætur öllum líða illa en enginn talar um eða á þetta bara reddast á næstu árum? Hagkerfið er beinlínis að éta sig upp innanfrá og skuldaleiðréttingar til skammst tíma duga ekki til að laga lág laun og verðbólgu innan hafta.

Orð mín eru bísna drjúg og til þess fallin að halda að ég vissi nákvæmlega hvað ætti að gera! Svo er auðvitað ekki en það dregur hins vegar ekki úr mikilvægi verkefnisins. Ég er formaður stjórnar málefnanefndar Sjálfstæðisflokksins í Efnahags og viðskiptanefnd. Við leggjum áherslu á að halda uppi opinni umræðu og þrýstingi á að leysa og ræða brýnustu verkefnin er að okkar málaflokki tilheyrir. Við höldum opna fundi og köllum til sérfræðinga úr öllu samfélagingu til ráðgjafar. Við leggjum okkar af mörkunum til þess að ekki sé sofið á verðinum í þeim verkefnum sem við teljum að þurfi að leysa er viðkemur íslenskri framtíð. Við munum halda því áfram og axla okkar samfélagslegu ábyrgð á að efla umræðuna og krydda hana með eins mörgun sjónarhornum og hægt er til þess að lokum sé hægt að leggja hana á vogarskálarnar þegar ákvarðana er þörf. Þannig reynum við að rjúfa vítahringin um að það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur eða hver segir það.

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins