Stuðningur við barnafjölskyldur er eitt brýnasta verkefnið

442

— segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sem leiðir framboðslista Sjálfstæðismanna í Kópavogi við bæjarstjórnarkosningarnar 31. maí nk.

Ármann Kr. Ólafsson er fæddur á Akureyri 17. júlí 1966. Foreldrar hans eru Ólafur Þorsteinn Ármannsson húsasmíðameistari og búfræðingur og Anna Guðrún Árnadóttir f.v. bankastarfsmaður. Kona Ármanns er Hulda Guðrún Pálsdóttir og börn þeirra Hermann og Halla Lilja. Ármann er stúdent frá MA og BA í stjórnmálafræði frá HÍ. Stofnandi ENNEMM og aðstoðarmaður samgönguráðherra, sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra. Bæjarfulltrúi í Kópavogi síðan 1998. Nú þegar yfirstandandi kjörtímabili er að ljúka er eðlilegt að horfa einnig til baka og velta vöngum yfir hvað stendur helst upp úr. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri var því spurður þegar kjörtímabilinu er að ljúka hvað það er sem stendur upp úr í málefnum Kópavogs að hans mati? „Það sem stendur upp úr er að nýr meirihluti tók við völdum í Kópavogi þegar kjörtímabilið var tæplega hálfnað. Við tók stefnufesta og stöðugleiki í stjórnkerfinu í stað 20 mánaða glundroða. Hvað mig persónulega varðar þá stendur upp úr að það kom í minn hlut að leiða þetta meirihlutasamstarf. Samstarfið við Framsóknarflokkinn og Y-listann, með Ómari Stefánssyni og Rannveigu Ásgeirsdóttur í fararbroddi, hefur reynst traust og farsælt. Meirihlutinn lagði strax áherslu á að koma hjólum byggingaiðnaðarins í gang á ný þar sem neyðarástand var að skapast á húsnæðismarkaði. Það tókst því verktakar fengu trú á markaðinn á ný. Og fann ég strax að við meirihlutaskiptin varð viðhorfsbreyting þeirra á meðal og þeir ákváðu að hefja nýja sókn í Kópavogi. Þá var þetta ekki síður mikilvægt í ljósi þess að um leið og byggingakranarnir fóru að sjást á ný í Kópavogi skapaðist fjöldi nýrra starfa. Þetta ásamt fleiri þáttum hefur skilað okkur því að atvinnuleysi er einna minnst í Kópavogi á öllu höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ármann.

Hvernig hefur bæjarstjórastarfið átt við þig? „Ég held að það sé heppilegt að ég hafi breiðan bakgrunn, átt heima í sveit, búið í sjávarþorpi og með reynslu af störfum því tengdu. Þá stofnaði ég auglýsingastofuna Nonna og Manna ehf. með Jóni Sæmundssyni eftir háskólanám, sem er farsælt fyrirtæki og mér þykir vænt um þó ég sé ekki eigandi að því lengur. Ég hef unnið í þremur ráðuneytum og átt sæti á Alþingi. Þegar allt þetta er tekið saman þá bý ég yfir reynslu sem nýtist vel í starfinu en satt best að segja er bæjarstjórastarfið langskemmtilegasta starfið sem ég hef unnið. Þau fjölbreyttu verkefni sem maður er að kljást við á hverjum degi gefa manni mikið auk þess sem maður er í miklum samskiptum við fjölmennt starfsfólk Kópavogsbæjar og bæjarbúa.“

Samhentur hópur
Hvernig er Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi í stakk búinn til að leiða næsta meirihluta? „Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi stendur sterkt. Síðasta prófkjör tókst mjög vel þar sem þátttakan var mikil og niðurstaðan sú að við fengum mjög flottan lista þar sem gott jafnvægi er á milli kynja og mikil breidd í þekkingu. Hópurinn er samhentur sem skiptir miklu máli til að ná árangri í þeim málum sem við höfum sett á oddinn á næsta kjörtímabili. Ég geng því bjartsýnn til kosninga.“ Hvernig viltu sjá næsta kjörtímabil? Ármann segir að með nýju fólki komi nýjar áherslur og ef hann ætti að draga fram í fáum orðum hvernig áherslur flokksins í Kópavogi eru að breytast mundi hann segja að farið væri að hugsa miklu meira inn á við. „Við höfum nú þegar byggt skóla, leiksskóla, íþróttahús o.s.frv. Við þurfum því ekki að leggja sömu áherslu og áður á aðstöðuna eða það sem snýr út á við. Nú er kominn tími til að njóta og það er að hugsa inn á við. Við segjum að öll börn verða að fá tækifæri til þess að nota mannvirki bæjarins. Það er mjög lítið peningalegt svigrúm hjá mörgum fjölskyldum og við vitum að það er erfitt fyrir margar barnafjölskyldur að standa undir æfingagjöldum, tónlistarnámi o.s.frv. Ég tala nú ekki um þegar börnin eru fleiri en eitt. Við munum því taka upp nýja nálgun hvað varðar íþrótta- og tómstundastyrkina. Við leggjum áherslu á að öll börn og unglingar í Kópavogi hafi möguleika á að stunda íþróttir, listir og tómstundir óháð efnahag. Við munum með nýju íþrótta- og tómstundastyrkjunum tvöfalda gamla íþróttastyrkinn, úr 27.000 krónum í 54.000 krónur. Heimilt er að nýta allan styrkinn í eina íþrótt, tómstundir eða listgreinanám svo sem tónlistarnám.“

Best rekna sveitarfélag landsins
„Hvað varða rekstur bæjarins þá hefur Kópavogur alla burði til þess að verða best rekna sveitarfélag á Íslandi í lok næsta kjörtímabils. Þegar ég segi þetta þá er ég ekki einungis að tala um góða niðurstöðu í ársreikningi bæjarins heldur að vel sé staðið að öllum málaflokkum sem undir bæinn heyra. Við Sjálfstæðismenn leggjum mikið upp úr öflugu skólastarfi og höfum sett menntamálin á oddinn í þessari kosningabaráttu. Eftir fjögur ár vil ég sjá enn fjölbreyttara skólastarf þar sem möguleikar upplýsingatækninnar eru nýttir til hins ýtrasta. Við erum að stíga mikilvægt skref þar sem verið er að setja upp öflugt þráðlaust net í alla skóla. En eins og ég segi þá vil ég að við séum í forystuhlutverki og því munum við láta alla nemendur í 5.-10. bekk grunnskólanna fá spjaldtölvur. Við viljum vera samanburðarhæf við það besta sem er að gerast erlendis og þetta er stór skref á þá átt. Við viljum skóla þar sem börnunum líður vel og styrkleikar þeirra, hvar sem þeir liggja, fái að njóta sín.“

Kópavogur haldi forystunni í íþróttamálum
Ármann bæjarstjóri vill sjá að hjúkrunarrýmum hafi fjölgað í bænum og að staða Sunnuhlíðar verði orðin sterk á ný um leið og hjúkrunarrýmum í Boðaþingi verður fjölgað. „Þá vil ég að Kópavogur haldi forystu sinni í íþróttamálum á landinu hvað varðar árangur og aðstöðu. „Við munum haga skipulagi þannig að það hvetji til byggingu minni íbúða sem eitt og sér mun auðvelda kaup á eigin húsnæði. Þá munum við byrja á því að breyta gjaldskrá lóða með það að markmiði að lækka byggingakostnað minni íbúða. Það kemur sér vel fyrir unga fólkið en ég hef einnig fundið fyrir eftirspurn hjá eldra fólki eftir minni íbúðum.“ sjálfu sér er of langt mál að telja allt upp enda kemur okkar heildarsýn fram í stefnuskránni. En til þess að ramma þetta inn þá höfum við Sjálfstæðismenn metnað fyrir bæinn okkar og viljum að hann sé í fremstu röð á öllum sviðum. Til þess að það geti gengið eftir þá verðum við að halda áfram á þeirri braut sem við höfum markað í rekstri bæjarins því aukið svigrúm í rekstri hans gerir okkur kleift að bæta þjónustuna við íbúana.

Hver eru brýnustu verkefnin framundan?
„Stuðningur við barnafjölskyldur er eitt brýnasta verkefnið eins og ég undirstrikaði hér á undan. Þá er mikilvægt að halda áfram að greiða niður skuldir. Af hverjum milljarði sem við greiðum niður lán bæjarins þá spörum við árlega sjötíu til hundrað milljónir í vexti sem nýtist bæjarbúum til að bæta þjónustuna. Sem dæmi má nefna að ávinningurinn af niðurgreiðslu lána á síðasta ári stendur undir nýju íþrótta- og tómstundastyrkjunum. Leiðin til þess að greiða skuldirnar hratt niður er að tryggja gott framboð af byggingarlóðum í bænum, koma þeim í verð og fá nýja íbúa í bæinn. Nota síðan alla þá fjármuni sem við fáum af lóðarsölunni í niðurgreiðslu skuldanna. Nýir íbúar hjálpa okkur svo að gera rekstur bæjarins hagkvæmari.“

Eftirspurn eftir minni íbúðum
Hvaða stefnu mun næsti meirihluti taka í húsnæðismálunum ef Sjálfstæðisflokkurinn verður við stjórnvölinn? „Við munum haga skipulagi þannig að það hvetji til byggingu minni íbúða sem eitt og sér mun auðvelda kaup á eigin húsnæði. Þá munum við byrja á því að breyta gjaldskrá lóða með það að markmiði að lækka byggingakostnað minni íbúða. Það kemur sér vel fyrir unga fólkið en ég hef einnig fundið fyrir eftirspurn frá eldra fólki eftir minni íbúðum. Þarna fara því hagsmunir þeirra yngstu og elstu á húsnæðismarkaðnum saman. Við munum einnig auðvelda núverandi íbúum í félagslega íbúðarkerfinu að eignast þær íbúðir sem þau búa í. Við munum engu að síður kaupa fleiri félagslegar íbúðir á kjörtímabilinu til þess að mæta brýnni þörf, segir Ármann Kr. Ólafsson sem skipar 1. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.