Aðlögun heimsmarkmiða að aðalskipulagi Kópavogs

622

Grein eftir Hjördísi Ýr Johnson, varaformann skipulagsráðs og bæjarfulltrúa

Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar var ákveðið að endurskoða aðalskipulags Kópavogsbæjar. aðalskipulagið er hugsað sem virkt stjórntæki og leiðsögn fyrir framtíðarþróun bæjarfélagsins. Þar er meðal annars sett fram stefna bæjaryfirvalda varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál ásamt umhverfismati aðalskipulagsins. Ýmsar ástæður voru fyrir því að ákveðið var að ráðast í endurskoðun aðalskipulagsins en þar vó þyngst samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar. Kópavogur er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að innleiða Heimsmarkmiðin með formlegum hætti og að mörgu hefur þurft að huga að. Endurskoðun ásamt samþættingu aðalskipulagsins við stefnu bæjarstjórnar Kópavogs
um Heimsmarkmiðin þótti því eðlilegt framhald af þeirri vinnu.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt árið 2015. Markmiðin eru 17 talsins og hafa 169 undirmarkmið sem snúast um ýmsa þætti sjálfbærrar þróunar. Á heimasíðu Heimsmarkmiðana, www.heimsmarkmidin.is, kemur fram að þau eru hugsuð sem framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar
þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Heimsmarkmiðin í aðalskipulagi
Við aðlögun Heimsmarkmiðana að aðalskipulagi Kópavogs var ákveðið að samræmingin yrði unnin með mikilvægisgreiningu. Mikilvægisgreining er þekkt aðferðarfræði við kortlagninu á samfélagsábyrð fyrirtækja og felst í að skilgreina og leggja mat á fjölmarga þætti á sviði umhverfis-, samfélags- og efnahagsmála sem hafa áhrif á verkefni eða helstu hagsmunaaðila. Þá eru þau atriði listuð upp og í framhaldinu er hægt að gera aðgerðalista. Haldnar voru þrjár vinnustofur í september og október þar sem leitast var við að skilgreina áhrif aðalskipulags og forgangsröðun heimsmarkmiða. Á fyrstu vinnustofuna mættu starfsfólk ásamt og öðrum fagaðilum, næsta vinnustofa var með fulltrúum íbúa og atvinnulífs, félagasamtaka (íþróttafélaga og skáta), fulltrúum ungmenna- og öldungaráðs, starfsfólki menntasviðs og velferðarsviðs o.fl. og að lokum var vinnustofa með skipulagsráði og bæjarfulltrúum. Í hverri vinnustofu voru um 12-20 manns ásamt ráðgjöfum. Niðurstöður vinnunnar verða að kynntar í samráðsferli aðalskipulagsins og þá verður möguleiki á að koma með ábendingar og athugasemdir.

Umsjón og ráðgjöf
Eins og sjá má þá eru það æði margir sem koma að vinnu sem þessari en öll umsjón er á vegum skipulags- og byggingardeildar umhverfissviðs Kópavogsbæjar í samráði við stjórnsýslusvið og Mannvit verkfræðistofu. Sérfræðingar Mannvits, Rúnar Dýrmundur Bjarnason fagstjóri umhverfismála og Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærniverkfræðingur, eru ráðgjafar verkefnisins og tengiliðir verkefnisins eru Bergljót S. Einarsdóttir verkefnastjóri aðalskipulags og Birgir H. Sigurðsson skipulagsstjóri Kópavogs. Áætlað er að ljúka
endurskoðun aðalskipulagsins um mitt næsta ár.